Gundlungur bloggar heiminn
miðvikudagur, janúar 28, 2009
Þetta er svolítið skemmtilegt:

http://sumri.blog.is/blog/sumri/entry/786344/

-- Skreif Gulli kl.14:58 -- 41 Komment


föstudagur, október 17, 2008
þegar ég kem á mannamót bregð ég gjarnan á það ráð að klifa á algildum sannindum eða básúna skoðun mína á einhverju sem er í samræmi við skoðanir annarra. um þessar mundir þykir mér t.d. upplagt að berja í borð og hrópa:
ég fordæmi sofandahátt ráðamanna í aðdraganda efnahagshrunsins hér á landi!

þannig uppsker ég fögnuð skoðanabræðra minna á ódýran og einfaldan hátt

-- Skreif Gulli kl.17:21 -- 1 Komment


miðvikudagur, október 15, 2008
kreppufærsla

já, það er engu líkara en að öreindahraðallinn í Cern hafi myndað svarthol í hagkerfi vesturlanda.

-- Skreif Gulli kl.12:18 -- 2 Komment


þriðjudagur, október 07, 2008
þetta gerðist klukkan hálf tvö. ég stöðvaði bílinn á ÓB, skrúfaði af bensínlokið og renndi vísakorti fimlega inn í sjálfsalann. þá stóð skyndilega silfurhærður fréttasnápur við hliðina á mér með stóra myndbandsupptökuvél á öxlinni. starði á mig gegnum linsuna.

einmitt þá fæ ég synjun á kortið.

-- Skreif Gulli kl.16:35 -- 0 Komment


föstudagur, september 19, 2008
ég sat áðan á bókhlöðunni og blaðaði í sakleysi mínu og af meðfæddum fróðleiksþorsta í ritgerð Idu nokkurrar Larsson um núliðna tíð í germönskum málum. kannski ekki í frásögu færandi; ósköp venjulegur föstudagur í lífi ykkar heittelskaða: minna um vinnu; meira um fánýtt dundur og fræðilegar hugleiðingar. nema hvað að þar sem ég renni augunum yfir blaðsíðu 207 rekst ég á tilvitnun í mig sjálfan! þar eru tekin nokkur dæmi um núliðna tíð í íslensku og setningin í d-lið er tekin af þessari bloggsíðu! ég tek það fram að ég þekki ekkert til þessarar konu og hún líklega ekkert til mín, þótt við séum kollegar í vissum skilningi. hér er því, að því er ég best veit, um hreina tilviljun að ræða, eða e.t.v. vélráð örlaganna.

þið getið séð þetta sjálf með því að smella HÉR. skoðið d-lið á bls. 207.

-- Skreif Gulli kl.13:01 -- 3 Komment


fimmtudagur, september 18, 2008
nú hafa vindar bloggauðnarinnar fengið að gnauða nógu lengi. ég held það sé kominn tími á ofurlitla getraun.

hvað skyldi hann heita, ungi maðurinn á myndinni?


hingað kemur auðvitað ekki sála lengur, svo þessi getraun er svolítið eins og tréð sem fellur í skóginum.

hefur hún þá svar?

-- Skreif Gulli kl.15:52 -- 2 Komment


miðvikudagur, apríl 02, 2008
í tilefni 1. apríl gerði ég hér dulítið grín. færslan hér að neðan er nefnilega hreint ekki eins ný og þið hélduð, heldur skrifaði ég hana og birti hér á bloggi mínu fyrir þremur árum, nánar tiltekið þann 1. apríl 2005.

líklega hlupu ansi margir aprílinn sinn þegar þeir lásu færsluna, á hinu huglæga sviði þ.e.a.s., í svímandi eltingaleik við óljósa minningu um svipaða frásögn, endur fyrir löngu.

ég hlæ við tilhugsunina.

-- Skreif Gulli kl.13:05 -- 4 Komment


þriðjudagur, apríl 01, 2008
ég er staddur í Árnagarði. sit þar teinréttur við lyklaborðið og reyni að henda reiður á hugsunum sem þjóta um höfuð mér, styggar eins og ótamin hross. taumlausar hugsanir, frjálsar úr viðjum veruleikans. hugsanir sem bjóða lögmálum eðlisfræðinnar byrginn; ganga í berhögg við daglega reynslu allra manna. slíkar eru hugsanir mannsins; ljóslifandi fyrir honum sjálfum, en ógjörningur að skýra þær fyrir öðrum. jafnómögulegt og að lýsa bláma himinsins fyrir blindum manni.. eða andvana fæddu barni.

þennan draum dreymdi mig fyrir skemmstu:
mér þótti sem til mín kæmi stúlkubarn, á að giska 12 vetra gamalt, klætt í gráan serk, skósíðan, gullsaumaðan um hálsmál og handvegu með kapmelluspori, vönduð flík. Stúlkan sat á stórum hesti, móvindóttum og ofurlítið litföróttum aftantil, trúlega enn í vetrarfeldi, en það hefur verið á nýbyrjuðum einmánuði sem þessi draumur sótti mig. svo hurfu þau bæði, stúlka og hestur, jafnskjótt og þau höfðu birtst og ég vaknaði og það var dagur. reis ég þá upp í rekkju minni og kvað þessa vísu, en mundi ekki drauminn:

lafir Svörfur, langur hangir
undan lörfum gægist sprækur
lóan hljóðar

-- Skreif Gulli kl.11:32 -- 0 Komment


fimmtudagur, mars 13, 2008
já, þannig fór það. Hrafnhildur vissi svarið því hún er svo fjári glögg, enda barn foreldra sinna, eins og við reyndar öll, nema kannski Jesú sem var eingetinn að sögn. trúi því hver sem vill. en það var ekki ætlun mín að masa hér um allt og ekki neitt (þó tókst mér að ræða vitsmuni frænku minnar og fjölskylduhagi frelsarans í einni og sömu setningunni!). þið viljið fleiri getraunir, er það ekki?

gott og vel. hver er (blökku)maðurinn?


-- Skreif Gulli kl.15:46 -- 6 Komment


miðvikudagur, mars 12, 2008
hmmm.. þorir enginn annar að giska?

þetta er sumsé stúlka um þrítugt, fædd á Bretlandseyjum,
afar fræg.

fleiri ágiskanir, fleiri vísbendingar.

-- Skreif Gulli kl.13:20 -- 2 Komment


þriðjudagur, mars 11, 2008
jæja, hér er smá getraun handa ykkur að rembast við.
hver er þar?


-- Skreif Gulli kl.15:53 -- 2 Komment


föstudagur, mars 07, 2008
brjálaði maðurinn á bókhlöðunni - þessi gamli með gleraugun - situr við tölvu skammt frá mér. ég tók ekki eftir honum fyrr en hann rauf hina heilögu bókasafnsþögn með skammarræðu yfir einhverjum ímynduðum einstaklingi. 'Það er nefnilega vandamálið!' hrópaði hann að lokum, þagnaði svo og horfði lengi í gaupnir sér. eitt augnablik hélt ég að hann væri sofnaður, en þá dró hann reiknitölvu upp úr frakkavasa sínum og sökkti sér, að því er virtist, í flókna útreikninga.
ég geri ráð fyrir að niðurstöðurnar hafi verið jafnfjarri raunveruleikanum og viðmælandi hans stundinni áður.

-- Skreif Gulli kl.17:12 -- 3 Komment


fimmtudagur, febrúar 28, 2008
áðan kom upp í mér einhver (íslensku)perri og ég fletti upp orðinu 'yxna' í ritmálssafni Háskólans. þá fann ég þennan skemmtilega brandara:

Húsfreyju á Írafelli varð svo mikið um þegar kýr beiddi eitt sinn og bóndinn víðs fjarri, að henni varð að orði: „Komi nú guð til, kýrin yxna og Indriði ekki heima!“

sei sei já.

-- Skreif Gulli kl.14:04 -- 3 Komment


færsluna hér að neðan skrifaði Þorbjörg, ekki ég. hún var eitthvað pirruð yfir sambandsleysi mínu við umheiminn og brá á það ráð að skamma mig á opinberum vettvangi, fyrir framan vini mína og aðdáendur. það þótti mér leiðinlegt.
en ég er kannski að ýkja þegar ég nota orð eins og opinber vettvangur, vinir og aðdáendur. hingað kemur nefnilega enginn. teljarinn er til vitnis um það. teljarinn og núllið undir færslunum. hér er enda ekkert að finna nema óm af gömlu tuði sem aldrei hreyfði við nokkrum manni, og ég ef auk þess enga færslu skrifað í rúman mánuð.

en nú held ég áfram að tuða. tuða fyrir daufum eyrum um tuðið í mér sjálfum sem enginn sála meðtók. hvað get ég meira?

..vindinum eigna ég söng minn, sem engir heyra

-- Skreif Gulli kl.12:20 -- 3 Komment


þriðjudagur, febrúar 26, 2008
Guðlaugur afhverju ertu ekki með símann þinn svo hægt sé að hringja í þig?

skammastu þín!

-- Skreif Gulli kl.16:57 -- 0 Komment


miðvikudagur, janúar 23, 2008
hér á bókhlöðunni stendur nú yfir svokölluð ljósmynda- og gjörningasýning sem ber heitið För hersins. af því tilefni standa nú fyrir utan kaffistofuna þrír hvítir strigar og í nafni listarinnar er fólki gert að tjá á þá skoðun sína á hvarfi bandaríkjahers frá íslandsströndum. þetta hafa margir gert og þótt viðbúið sé að skoðanir manna séu misgáfulegar er því ekki að sælda hér; þær eru allar nokkurnveginn jafnvitlausar. með einni undantekningu þó. núna áðan gerði ég mér nefnilega ferð á kaffistofuna og varð þá litið á unga stúlku sem hafði tekið sér pensil í hönd og var að enda við að skrifa stórum svörtum stöfum á einn strigann: GOD IS A DC. þetta þykir mér áhugaverð kenning. eins og allir vita stendur skammstöfunin D.C. fyrir leikjatölvuna DreamCast frá Sega sem kom út á sama tíma og hin vinsæla Nintendo 64 (sem n.b. er viðbjóðslegt drasl). sú tölva (þ.e. N64) varð reyndar langtum vinsælli og Sega DremaCast beið afhroð í baráttunni á leikjatölvumarkaði. þeir hjá Sega hættu allri leikjatölvuframleiðslu eftir það skítlega tap. við sjáum því að ef eitthvert sannleikskorn er í staðhæfingu ungu stúlkunnar þá er ljóst að mannskepnan ráfar enn þann sama villuveg og forðum daga, þegar hún krossfesti frelsara sinn en frelsaði þrjótinn Barabbas, holdgerving mannvonsku og ódáða.

-- Skreif Gulli kl.15:36 -- 0 Komment


þriðjudagur, janúar 15, 2008
Sparísjóðurinn splæsti í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í gær til að auglýsa nýjan reikning með mánaðarlegri útgreiðslu vaxta. síðuna þakti skælbrosandi andlit laglegrar stúlku og fyrir neðan það stóð skírum stöfum: ég hlakka til þess mánaðarlega.

auglýsendur hafa lengi stundað þá íþrótt að smíða tvíbentar setningar, en ég velti því fyrir mér hvort tvíræðnin hér sé með vilja gerð og hvort fyrirsætan hafi áttað sig á gamaninu sem nú er hægt að gera á hennar kostnað.

-- Skreif Gulli kl.12:53 -- 3 Komment


mánudagur, desember 10, 2007

æi, þarna.. Stefán Sigurðsson sem fann pöddur í jólabjórnum sínum. skítalykt af því máli maður. hvaða líkur eru t.d. á því að tvö skordýr af sitthvorri tegundinni villist ofan í sömu flöskuna? og af hverju lét hann ekki bara Ölgerðina vita? þeir hefðu pottþétt gefið honum lífstíðabyrgðir af pöddubjór. svo endar fréttin í einhverskonar auglýsingu: „...segist Stefán reikna með að drekka héðan í frá hinn íslenska bjór Kalda.“

..og má ég að lokum benda á að hjá Vífilfelli á Vestfjörðum vinnur maður að nafni Stefán T. Sigurðsson; gjörsamlega siðlaus fír eins og glöggt má sjá á þessari frétt.

tilviljun eða..?

-- Skreif Gulli kl.12:58 -- 7 Komment


föstudagur, nóvember 30, 2007

-- Skreif Gulli kl.17:31 -- 0 Komment


þriðjudagur, nóvember 27, 2007
það er dauðaþögn í tölvustofunni í Árnagarði, enda sitja þar einungis tvær hræður að mér meðtöldum. hér hef ég á síðustu mínútum með pínlegum hætti uppgötvað hönnunargalla á umbúðum MS skyrdrykkja: úr þeim er ekki hægt að drekka án þess að mynda örlítið frethljóð með vörunum, sem þó er vel greinanlegt í þögulli tölvustofu.

afar vandræðalegt

-- Skreif Gulli kl.14:21 -- 1 Komment


ætli þetta virki?


-- Skreif Gulli kl.13:14 -- 1 Komment


föstudagur, nóvember 23, 2007
ja svei. aldrei fann ég fyrir nokkurri löngun til að blogga þessa vinnuvikuna og allt í einu er kominn föstudagur og fráleitt að nokkur gefi sér tíma til að líta inn á þessa síðu yfir helgina. nema kannski Tóti. hann verður á næturvöktum og hefur því fátt annað að gera en ráfa um netið eins og vofa að nóttu.

en ég nenni ekkert að skrifa og bendi þess í stað á skemmtilega grein á Wikipedia um morðið í rauðu hlöðunni, en það er ágætis lesning, eflaust skárri en það sem ég hefði skrifað hér, hefði ég skrifað eitthvað, þ.e. eitthvað annað en þetta mjálm um það sem ekki var skrifað.

-- Skreif Gulli kl.15:50 -- 0 Komment