Gundlungur bloggar heiminn
föstudagur, apríl 30, 2004
Gellur þú enn Koðrán!

Þetta skilur svosem enginn nema hann þekki Ara Eldjárn.
Fínn gaur hann Ari.

Ég vil taka það fram að það var aldrei ætlun mín að ríða honum í augun, þrátt fyrir dólgslegar yfirlýsingar forðum daga. Það var ungæðisháttur að áeggjan drykkjukarla og skrifast allt á reikning fávisku minnar og reynsluleysis, enda var ég þá vart úr reifum, vanburða og valtur á fótum. Æskunni er sóað á þá ungu og ellin er óréttlátur dómur yfir þeim sem vitið hafa og reynsluna.

Í fullkomnum heimi væri þessu öfugt farið.

-- Skreif Gulli kl.01:39 -- 1 Komment


fimmtudagur, apríl 29, 2004
Maður á bara heima á Bókhlöðunni þessa dagana. Ég var að lesa áðan um bókmenntir á galdraöld. Skondinn þessi hófsami og minimalíski stíll í trúarofstækisritum. Eitt ritið heitir t.d. Lítil hugrás yfir svik og vélræði djöfulsins og annað Einn lítill sermon um Helvíti.
Ég er sko að lesa um bókmenntir íslenskar 1600-1800. Það sem veldur mér mestum erfiðleikum eru nöfnin sem ég þarf að muna sem eru örugglega í kringum 50 talsins. Og allir heita Jón! Einsog til dæmis Jón Magnússon sem skrifaði píslarsöguna og lét brenna þá feðga Jón Jónsson eldri og Jón Jónsson yngri. Svo er það hann Jón Jónsson sem Svíar stálu og settu til mennta, Jón Ólafsson skrifari Árna Magnússonar, Jón Halldórsson í Hítardal, Jón Egilsson sem skrifaði Biskupaannála, Jón Eggertsson á Ökrum... og þeir eru fleiri, en ég hætti hér til að drepa fólk ekki úr leiðindum.

Vonandi fannst ykkur þetta fróðlegt

-- Skreif Gulli kl.18:59 -- 0 Komment


þriðjudagur, apríl 27, 2004
Hæ.
Í dag á ég að vera að læra og þessvegna hef ég hengt upp þvott, sett í þvottavél, vaskað upp, saumað tölur á skyrtu, fjarlægt axlarpúða úr jakka, handþvegið eina húfu, tekið til í herberginu mínu og brotið saman hreint tau. Inn á milli hefur mér þó tekist að skrifa nokkrar línur í smásögu sem ég þarf að skila bráðum, ef kennarinn tekur við henni svona seint.

En nóg um mig. Hallgerður móðir mín er nefnilega farin að blogga aftur eftir langt hlé. Hún og pabbi eru nú í Kaupmannahöfn því pabbi er að fara að verja Doktorsritgerðina sína á föstudaginn. Fylgist með á bloggsíðu Hallgerðar.

Ég veit um tjörn, langt í burtu, svo kyrrláta að jafnvel kríurnar hafa sig hljóðar.

-- Skreif Gulli kl.16:29 -- 0 Komment


sunnudagur, apríl 25, 2004
Ég hitti Boga Ágústsson fréttatjóra í fermingarveislu um daginn. Ég er mikill aðdáandi þjóðþekktra aðilla og fann mig því knúinn til að heilsa uppá hann:
"Blessaður Bogi. Helvíti góður þátturinn sem þú ert í, þarna á stöð eitt.. Fréttir."
"Já." sagði hann, "Fréttirnar eru skemmtilegar." svo klappaði hann mér á öxlina og gekk á braut.
Nokkrum sinnum fannst mér ég sjá glitta í snjóhvítt hárið bakvið kökuborðið, en ég sá hann ekki aftur í veislunni. Ekki fyrr en í sjónvarpinu um kvöldið.
Hann minntist ekkert á mig.

-- Skreif Gulli kl.21:04 -- 0 Komment


föstudagur, apríl 23, 2004
Þá er hann kominn, hinn fyrsti sumardagur, ilhlýr og bjartur. Góður fyrirboði um dagana sem eru í vændum. Og hvaða örlög skyldi það hafa hugsað mér, þetta sumar? Hvaða vef hefur hún spunnið mér, könguló örlagana, í rökum kjallara handanheimsins?
Ég veit það ekki krakkar, svei mér þá.

Mig langar til að tileinka þessa færslu henni Þórunni frænku minni sem átti afmæli fyrir.. tjah, svona tveimur tímum. Hetjan hún Tóta hefur borið harmaþunga tilverunnar á herðum sér í heil 26 ár og það sér ekki högg á vatni! Ég kom í kaffi til hennar í dag og færði henni gjafir, einsog vitringarnir frelsaranum forðum, og Tóta hló og kissti hann Pésa sinn sem hniklaði brýrnar og ræksti sig.
Á sama tíma keypti Marta gamla nýmjólkurfernu af honum Gunnari í Kjötborg. Hana grunaði ekki að það yrði hennar síðasta ferna.

-- Skreif Gulli kl.02:13 -- 0 Komment


miðvikudagur, apríl 21, 2004
Ég hef heyrt að þegar högnar eru geldir eigi þeir það til að fitna fram úr öllu hófi. Ástæðan ku vera sú að líf þeirra gengur út á að fullnægja tveimur grundvallar þörfum: að borða og eðla sig. Sé annarri þörfinni útrímt er hætt við að of mikil orka fari í að uppfylla hina.
Maðurinn hefur hinsvegar sankað að sér nýjum þörfum, eða fíknum í efni á borð við koffín og nikótín. Með hjálp þessara efna getum við fundið til fullnægðar mun oftar en hinar óæðri skepnur í kringum okkur.
..og nú fæ ég mér kaffi, svona fyrst það er komið hádegi. Fyrst eitt ljóð:

Í tíbrá draumanna
erum við einsog stolnar ljóðlínur
þú einsog þú varst þá
ég einsog ég er nú
og veruleikinn á ekki erindi við okkur
í tíbrá draumanna

-- Skreif Gulli kl.11:21 -- 0 Komment


þriðjudagur, apríl 20, 2004
nennir einhver að skrifa fyrir mig fimm smásögur undir mínu nafni?
ég þarf að skila þeim helst í lok vikunnar sko
(takið eftir að sko-ið er svona sentence finale einsog það er kallað.
Það er af því að ég er karlmaður.
..spurjið bara hjört)

-- Skreif Gulli kl.17:18 -- 0 Komment


Sæl verið þið! Ég heiti Guðlaugur og ég hef tórað í rúman aldarfjórðung.

Nú er í gangi herferð gegn nauðgunum. Á réttum tíma líka því það fer að styttast í útihátíðar-tímabilið, uppskeruhátíð nauðgara. Ég var að lesa grein um það hversu vægt samfélagið tekur á nauðgunum miðað við hversu alvarlegur glæpur þær eru. Þar kemur í ljós að í viðleitni sinni til að skilgreina mismunandi afbrigði nauðgunarbrota hefur löggjafarvaldið búið til nöfn einsog "tilefnislaus nauðgun" og "ólögmæt nauðgun" (sem eru mun alverlegri tegundir nauðgana en t.d. "lögmæt nauðgun, framin af ærinni ástæðu").

Afmælisdagurinn í gær var ósköp huggulegur. Ég hékk bara heima og tók við heillaóskum í gegnum símann minn og fékk nokkrar heimsóknir í tilefni dagsins. Ég heimsótti líka Berglindi, afmælisbarn nr.2 og hún bauð stráknum uppá kaffibolla og kökur. Ég fékk fullt af gjöfum og hinir ólíklegustu aðillar tjáðu mér ást sína í tilefni dagsins. Í dag á Adolf Hitler afmæli og það er ekki síður gleðiefni.
Húrra!

-- Skreif Gulli kl.14:07 -- 0 Komment


mánudagur, apríl 19, 2004
Jæja. Haldiði að kallinn sé ekki bara orðinn tuttugofimmára. Bara sísona! Vaknaði bara í morgunn og skyndilega orðinn twenty-fuckin-five. Ég hef yfirstígið aldarfjórðungin og nú eru mér allir vegir færir.
Ég get nú ekki sagt að ég finni fyrir miklum breytingum. Mengi minna eiginleika held ég að sé enn hið sama, en gildi aldursbreytunnar hefur hækkað um einn.

-- Skreif Gulli kl.16:46 -- 0 Komment


laugardagur, apríl 10, 2004
Svarfaðardalur er lítill og ljótur
Og liggur að auki á vitlausum stað

Svona kvað eitthvert ómennið um þennan fagra stað hvar ég nú dvel, í góðu yfirlæti, nýbúinn að troða mig fulllan af svínakjöti og kökum, víni og kaffi.
Páskarnir eru góðir því á páskunum fer ég norður og fyrir norðan borða menn meira en annarsstaðar. Hér drekka menn líka meira. Foreldrar mínir koma hingað klifaðir áfengum veigum og eru meira og minna að hella í sig allan helvítis daginn.
Ég líka. Ég leik það eftir sem fyrir mér er haft.

Innan stundar förum ég og Tóti líklega upp í Laugarstein og hittum Hulla&Þorra, Friðrik&Tinnu og kannski Ara líka. Þar munum við sötra öl. Svo munum við halda áfram drykkjunni í Sundlaug svarfdæla, berstrípuð og blaut.

Fokkíng Páskarnir maður

-- Skreif Gulli kl.21:41 -- 0 Komment


þriðjudagur, apríl 06, 2004
Í dag er síðasti kennsludagur í Íslenskunni og ég get gert það sem mig langar til. Samt veit ég alls ekki hvernig ég á að nýta mér allan þennan tíma. Á fimmtudaginn fer ég með fjölskyldunni norður í Svarfaðardal hvar ég mun syngja, synda og renna mér á snjóbretti í félagsskap góðra vina og frændfólks. Hið nýbakaða par Tinna og Friðrik ætla að fylgja okkur í dalinn væna og allt bendir til þess að þetta verði ógleymanleg skemmtiferð.
Vonandi verður þar Örn frændi minn.

er hann kannski vornóttin
sem sveipar rósóttum skugga
ósleginn grasblettinn bakvið augntóftirnar?

-- Skreif Gulli kl.15:09 -- 0 Komment


mánudagur, apríl 05, 2004
ha? jú, jú. ég fór semsé og keypti mér eina flösku af rauðvíni [Gato Negro, CS] á föstudaginn og tvær kippur af bjór [Carlsberg&Faxe]. svo skundaði ég á Tryggvagötu og kláraði veigarnar á tveimur kvöldum. ég horfði líka á spurningakeppni, söngkeppni og bíómynd um helgina, auk nokkurra sjónvarpsþátta og brots úr heimildarmynd.

ég mæli með: Gato Negro(CS), Alan Partridge og Dawn of the Dead.

-- Skreif Gulli kl.17:43 -- 0 Komment


föstudagur, apríl 02, 2004
"rífðu upp hold mitt með tönnunum" hvíslaði næturgalinn að kettinum, "sleiktu svo blóðið, heitt af hræi mínu"

Rauðvín og bjór. Ég ætla að kaupa rauðvínsflösku og kippu af bjór í ríkinu á eftir vegna þess að ég á pening. En hvað á ég svo að gera við allt þetta vín? Ætli ég helli því ekki í mig yfir Gettu Betur og svo Axis&Allies í kvöld. Hafi það bara huggulegt.

-- Skreif Gulli kl.13:05 -- 0 Komment


fimmtudagur, apríl 01, 2004
Er maðurinn nýr, eða er hann bara átakarými gamalla hugmynda? Þarf hann að flokka til að skilja, eða er sannur skilningur alltaf ómeðvitaður? Er lausn lífsgátunnar að finna í hinum efnislega heimi, eða innra með okkur sjálfum?
Í næstu færslum mun ég leita svara við þessum spurningum og mörgum öðrum, ekki með því að benda á staðreyndir, heldur með öðrum spurningum því það er mín trú að hin endanlega niðurstaða sé ein og hin sama fyrir alla hluti: Sannleikurinn, með stóru essi.

Annars var ég að fá útborgað, einsog kannski fleiri, og ég væri til í að halda uppá það með bíóferð í kvöld. Eða kannski bara ísköldu kvikindi á barnum.
Eruði geim?

Er það rétt að Hjörtur sé að koma til landsins í dag, eða er það bara viðbjóðslegt aprílgabb? Önnur góð spurning í tilefni dagsins. Gleði eða vonbrigði? Við komumst að því uppúr klukkan átta í kvöld.
-Stei tjúnd!



-- Skreif Gulli kl.13:24 -- 0 Komment


Þegar ég var að klæða mig í skóna í morgun gekk ókunn kona niður af efri hæðinni. Hún var klædd í þröngan hvítan bol sem náði ekki niður fyrir nafla, en hefði líklega gert það hefði barmur hennar ekki verið óvenju stór. Mér varð starsýnt á konuna og hafði því ekki athyglina við það sem ég var að gera. Þegar ég stóð upp og brosti til hennar benti hún á fætur mína.
Ég var í krummafót.


-- Skreif Gulli kl.12:15 -- 0 Komment