Gundlungur bloggar heiminn
föstudagur, janúar 28, 2005
austast í austurbænum
þar eru vorkvöldin björt
en vestast í vesturbænum
eru vetrarmyrkrin svört

þannig syngur Megas í græjunum og uppþvottavélin tekur undir með lágu kurri. fyrir utan gluggann kúrir náttrökkrið og bíður þess að ég slökkvi ljósin svo það geti lagst yfir íbúðina. sveipað hana hlýjum skugga.

annars var ég að fara að bursta tennurnar en settist óvart við tölvuna og fór að skrifa á bloggið. þetta varð útkoman.
góða nótt.

-- Skreif Gulli kl.01:08 -- 0 Komment


föstudagur, janúar 21, 2005
það var enginn tími þegar ég mætti í skólann í morgun. ég veit ekki af hverju, kennarinn bara kom ekki og við nemendurnir stóðum eins og illa gerðir hlutir frammi á gangi og ypptum öxlum á víxl. svo fórum menn að týnast heim og að lokum stóð ég þarna einn á ganginum með hendur í vösum. ég saug uppí nefið, sparkaði í ósýnilegan stein og rölti svo til míns heima.

-- Skreif Gulli kl.08:38 -- 0 Komment


fimmtudagur, janúar 20, 2005
það er ekkert að frétta. status quo, eins og þeir segja. tilveran eins og gamalt tyggjó, eins og frosinn drullupollur, og ég hér á bókhlöðunni, brosandi út í annað en um leið grátandi út í hitt, vanmáttugur gagnvart hinu yfirþyrmandi tilbreytingarleysi míns auma lífs. ég meina, lífið.. hvað í andskotanum er það eiginlega? harðfiskur, sagði einhver. lotterí annar. lag sagði Eiríkur Hauksson. en það eru bara getgátur. sannleikurinn er nefnilega sá að það veit þetta enginn.
ég giska á svínslæri.

-- Skreif Gulli kl.20:03 -- 0 Komment


þriðjudagur, janúar 18, 2005
Hjörtur eitthvað að skamma mig fyrir að blogga ekki. réttilega. maður er svo helvíti latur eitthvað eftir jólin sín. heyrðu, mig dreymdi hann Hjört í nótt man ég nú skyndilega. hann var kominn til íslands bara svona allt í einu, með sixpenserinn sinn nýja á hausnum. kötturinn Jón gat talað og Ómar Ragnarsson var dvergur og ég og hann vorum að leita að einhverju saman í stóru húsi. við vorum í ratleik. rosalegt hvað mann dreymir þegar maður sefur frameftir og helvíti hvað maður sefur mikið. nú þarf ég í vinnuna og kem engu í verk áður. sveiattan.

-- Skreif Gulli kl.13:09 -- 0 Komment


fimmtudagur, janúar 06, 2005
ég er í tölvunni heima hjá Steini. Hann er að ryksuga í stofunni og þess á milli fer hann út og reykir sígarettu. ég er hinsvegar hættur að reykja, svona fyrir þá sem vita það ekki. Innan úr eldhúsi æpa hrossabjúgu úr sjóðandi potti. þau verða ekki tilbúin fyrr en eftir 50 mínútur eða svo. þá verður klukkan hálf ellefu! af hverju sagði mér enginn að það tæki klukkutíma að sjóða hrossabjúgu?

Hvimleitt þykir hvurjum fýr
hvursu hika bjúgun mín
Sýgur kvikur, sæll og hýr
Steinninn ryk og nikótín

jájá. hahaha. ferskeytlur og svona eitthvað. ég spilaði Fimbulfamb í gær og langt fram á aðfararnótt dagsins í dag. magnað alveg, þetta spil. ég hafði aldrei fimbulfambað fyrr og var svolítið feiminn svona til að byrja með. nei ég var ekkert feiminn, hvaða vitleysa. enda var ég í góðra vina hópi, með Tótu og Pésa og Kötu og Völu (sem ég þekki reyndar ekki neitt, eða öllu heldur þekkti ekki neitt. við kynntumst nokkuð vel í gegnum spilið. hún er slóttug, hún Vala. svo mikið veit ég). það var allavega rosa gaman og ég mæli hérmeð með Fimbulfambi. svo væri gaman að prufa einhverntíma Popppunktinn hennar Tinnu. ég held hún eigi það.

-- Skreif Gulli kl.21:35 -- 0 Komment