Gundlungur bloggar heiminn
þriðjudagur, september 25, 2007
ég datt í stiganum í bókhlöðunni í gærmorgun, á leiðinni upp á þriðju hæð. kvenmaður saup kveljur bakvið mig og strákur í klofsíðum buxum skaust glottandi framhjá. ég stóð upp með karlmannlegum tilburðum, flautaði og sló af mér ósýnilegt ryk, arkaði svo bísperrtur inn á klósett, settist niður og brast í grát.

-- Skreif Gulli kl.15:22 -- 4 Komment


föstudagur, september 21, 2007
eftirfarandi tölvupóstur er til vitnis um vandamálin sem fylgja því að skipta um póstfang, en þó fyrst og fremst um það hvað mér leiðist í vinnunni.

Góðan dag.

Fyrir skemmstu sótti ég um laust starf ***** sem auglýst var á heimasíðu ykkar. Umsóknina sendi ég úr póstfanginu gudlaa@hi.is en það er pósthólf sem Háskóli Íslands úthlutaði mér á sínum tíma af gæsku sinni og greiðvikni.

Ég hef notið góðs af þessari þjónustu í mörg ár, enda varð háskólapósthólfið mér fljótt sem annað heimili; afdrep mitt og áningarstaður í heimi tölvuvæddra samskipta.

En lukkan sveik mig. Ráðamönnum innan Háskólans fannst víst fráleitt að sólunda dýrmætu netplássi í einn útskrifaðan íslenskufræðing sem ekki lengur sótti þar nám eða borgaði skólagjöld. Í skjóli næturs fóru þeir háu herrar því á stjá og lokuðu fyrir aðgang minn að Háskólanetinu. Og ég -hamingjusamlega grunlaus um mannvonsku þeirra sem valdið hafa- sit skyndilega uppi slippur og snauður. Get hvorki sent né tekið við tölvupósti, hvað þá meira!

Ég fann mér að vísu ódýrt pláss hér hjá öðlingunum í Hive, en það er bæði lítið og óþægilegt. Auk þess týndust með háskólaplássinu póstföng allra þeirra sem ég hef átt samskipti við gegnum tíðina. Það sem ég átti áður er nú sokkið í hafsjó tapaðra gagna.

Það tilkynnist því hér með að til þess að svara umsókn minni(hvort sem það er til að ráða mig til starfa eða neita mér um vinnu) þarf að senda á póstfangið gundur[að]hive.is.
Einnig er hægt að svara þessu skeyti.

Kær kveðja,
Guðlaugur Jón Árnason
íslenskufræðingur

-- Skreif Gulli kl.16:16 -- 4 Komment


miðvikudagur, september 19, 2007
ekki veit ég hvort nokkur maður skoði þessa síðu lengur, en ég ætla samt að koma því hér á framfæri að Háskólapóstfangi mínu, gudlaa@hi.is, hefur verið lokað. þannig þakkar Háskólinn afkvæmum sínum fyrir áralanga tryggð og þjónustu, svo ekki sé talað um peningagreiðslur sem skipta hundruðum þúsunda. hann meinar þeim aðgang að því litla tölvuplássi sem þeim var úthlutað og eyðir öllum gögnum sem þar voru geymd.

nú er sumsé einungis hægt að senda mér póst á póstfangið
gundur[að]gmail.com

-- Skreif Gulli kl.16:16 -- 11 Komment


miðvikudagur, september 05, 2007
veskú! þrjú vídjó sem ég fann þegar mér leiddist í vinnunni:

hér er fréttakona sem mismælir sig hrapalega

hér eru mæðgin í rússíbana

og hér er eðla sem stekkur á mann

-- Skreif Gulli kl.13:14 -- 1 Komment