Gundlungur bloggar heiminn
föstudagur, júní 30, 2006
Einar, þjáningarbróðir minn og samstarfsmaður benti mér á síðuna radioblogclub.com um daginn þegar hann sá að vinnuleiðinn var í þann mund að þröngva mér fram af geðheilsunnar klettabrún, niður í hyldýpi brjálsemi og morðfýsnar. og það mátti vart á tæpara standa; hljóðin í hausnum á mér minntu á þeirri stundu á barmafulla skál af Rice Crispies morgunkorni.
allavega.
á þessari síðu má finna og hlusta á kynstrin öll af dægurlögum sem breyta brotsjó eirðarleysisins umsfifalaust í róandi öldugjálfur. það jafnast fátt á við taktfestu popptónlistarinnar til að berja vaxi í bresti athyglinnar og veita skjól fyrir hinum sífelldu ásóknum vinnuleiðans.
angistarsvipurinn, sem í eina tíð var sem gróinn í andlit mitt, hefur nú vikið fyrir beyglaðri hamingjugrettu sem mig grunar að sé síst til bóta, fagurfræðilega séð.
en hvað um það.
ég var sumsé að skoða lög á þessari síðu í dag og fann þá lagalista sem samanstendur einungis af baráttulögum grænmetisæta. þar má finna lög eins og Stop the Slaughter, Why Must They Die, Humans for Milk og Bomb your Local KFC svo einhver séu nefnd.
ég læt hér fylgja lagið Beef með hljómsveitinni Boogie Down Productions. það er ekki slæmt.


-- Skreif Gulli kl.13:58 -- 0 Komment


þriðjudagur, júní 27, 2006
á Fáskrúðsfirði býr maður sem er bæði lögregluþjónn og hársnyrtir.

veltið þessari staðreynd fyrir ykkur meðan þið hlustið á fallegt lag.
djöfull magnað.

-- Skreif Gulli kl.13:16 -- 0 Komment


föstudagur, júní 23, 2006
ég fann grein á heimspeki.hi.is sem ber nafnið 'Hvað gerðist á undan miklahvelli?'. ég gerði mér því vonir um að fá loks endanlegt svar við þessari spurningu því hún hefur ásótt mig lengi. stundum vakna ég jafnvel á nóttunni, rís upp við dogg og spyr sjálfan mig stundarhátt: ef allt er háð lögmálinu um orsök og afleiðingu, hvað olli því þá að heimurinn varð til?
skilyrt viðbrögð Þorbjargar við þessu áreiti eru að bylta sér og umla. orsök og afleiðing - sjáiði til.

en svarið í greininni er þetta:
Eitthvað sem 'bara gerist' þarf ekki í rauninni að brjóta gegn lögmálum eðlisfræðinnar. Skyndileg og orsakalaus tilkoma einhvers getur átt sér stað innan sviðs vísindalögmála, þegar búið er að taka skammtalögmál með í reikninginn.

eða með öðrum orðum: það bara gerðist.. skammtafræðin, þið vitið.

skammtafræðin getur sumsé útskýrt þetta allt því hún krefst hvorki orsakar né afleiðingar. þar bara gerast hlutirnir og ekki orð um það meir.

vegir drottins eru órannsakanlegir, segja prestarnir.
skammtafræðin, sjáiði til, segja eðlisfræðingarnir.

-- Skreif Gulli kl.16:22 -- 0 Komment


fyrsti hálftími dagsins í dag fór í að leita að lyklunum að bílnum mínum.
sá næsti fór í að labba í vinnuna.

besti dagur ársins?
ég er ekki viss.

-- Skreif Gulli kl.10:55 -- 0 Komment


þriðjudagur, júní 20, 2006
þetta er soldið skemmtilegt.


Get this video and more at MySpace.com

-- Skreif Gulli kl.16:16 -- 0 Komment


mánudagur, júní 19, 2006
svona byrjar Guðmundar saga dýra:
Nú tek eg þar til frásagnar er tvennum fer sögum fram að Guðmundur hét maður. Hann var Eyjólfsson.

-- Skreif Gulli kl.11:40 -- 0 Komment


fimmtudagur, júní 15, 2006
djöfull langar mig í sojasósu..

-- Skreif Gulli kl.10:56 -- 0 Komment


þriðjudagur, júní 13, 2006
Vinnan mín krefst mikillar einbeitingar og það er lítið svigrúm fyrir sjálfstæðar hugsanir, en ég var samt að átta mig á einu..

fjögurra-blaða smárar eru í rauninni bara vanskapaðir þriggja-blaða smárar!

-- Skreif Gulli kl.14:59 -- 0 Komment


miðvikudagur, júní 07, 2006
hvaða hvaða, hér hefur ekkert gerst síðan í apríl! það hefur nú margt breyst frá þeim tíma get ég sagt ykkur. ég er t.d. búinn að eignast nýjan frænda og farinn að vinna í Háskólanum við vélræna greiningu á forníslensku.
það væri gaman ef ég gæti sagt ykkur að ég hefði tekið mig til og klárað BA verkefnið mitt, en sú er ekki raunin og ég er enginn lygari. þessvegna læt ég það ógert í bili, enda held ég að enginn hafi búist við slíkum fréttum.
það er ágætt. þá veld ég ekki vonbrigðum.

rétt áðan sendi ég eftirfarandi tölvupóst á konurnar í nemendaskrá Háskólans:

Góðan dag.

Samkvæmt bókhaldi nemendaskrár ætti ég að útskrifast úr Háskólanum í næsta mánuði, en nú er öllum ljóst að svo mun ekki verða. LÍN hefur snúið við mér bakinu og á meðan heimsins lánadrottnar auðsýna mér hvorki miskunn né skilning verður ritgerðin að víkja fyrir arðbærri störfum. Húsaleigan borgar sig ekki sjálf.
En ég er bjartsýnn að eðlisfari og trúi því að ég geti klárað þessa blessuðu ritgerð einhverntíma í sumar. Því bið ég ykkur að fresta brautskráningu minni fram í október, sé þess einhver kostur.
Það væri æði.

Kær kveðja,
Guðlaugur Jón Árnason.


u.þ.b. sekúndu síðar fékk ég sjálfvirkt skeyti þess efnis að skilaboðin hefðu verið meðtekin og yfirfarin. ég skyldi fylgjast með breytingum á netsíðu minni.
það kalla ég vélræna greiningu.

að lokum er hér myndband með herra Hasselhoff, svona til að bæta fyrir færsluleysi síðustu vikna. hann er svo skemmtilegur, hann Hasselhoff.

-- Skreif Gulli kl.11:21 -- 0 Komment