Gundlungur bloggar heiminn
miðvikudagur, júlí 25, 2007
síðasta mánudagskvöld, þar sem ég sat inni í eldhúsi og skreytti smákökur, varð mér af rælni litið inn í stofu þar sem spúsa mín, Þorbjörg, sat ofan á rúminu og blaðaði í Saltaranum. kunnugleg skilaboð ljómuðu frá sjónvarpsskjánum við hlið hennar: AFSAKIÐ HLÉ.

það var eitthvað yndislega heimilislegt og þjóðlegt við þessa sýn og stundarkorn sat ég og virti hana fyrir mér steini lostinn. síðan tóku hendur mínar í skjálfandi ofboði að fálma eftir myndavél sem ég vissi að lá á gluggakistunni í seilingarfjarlægð. aðeins ett orð komst að í vörumerkjamenguðum huga mínum: kódakmóment!

til að útskýra það sem gerðist næst er rétt að ferðast örlítið aftur í tímann, um 14 klukkustundir eða svo, þegar ég sat á sama stað inni í eldhúsi og starði svefnþrútnum augum fram í stofu. sólin skein inn um stofugluggann og íbúðin glitraði í töfraljóma hins nýfædda dags. Þorbjörg svaf í rúminu. seiðandi kurrið úr expressókönnu á eldavélinni sleit mig úr draumleiðslu morgunþreytunnar og ég stóð upp, hellti mjólk í pott og greip um mjólkurþeytarann. en vei (í hinni úreltu, neikvæðu merkingu)! bölvað tólið var þá rafmagnslaust. tilhugsunin um óþeytta mjólk út í kaffið var mér óbærileg. ég greip til þess örþrifaráðs að færa rafhlöðurnar úr myndavélinni yfir í þeytarann.

líklega eru sögulokin nú þegar flestum ljós. þeir eru snarir í snúningum þarna uppi í sjónvarpi. helvíti snarir, og tæknileg vandamál vara ekki lengi. a.m.k. ekki lengur en tæknilegu vandamálin í eldhúsinu á Njálsgötu 3. þegar rafhlöðurnar voru komnar aftur í myndavélina prýddu þau kunnuglegu skilaboð ekki lengur sjónvarpsskjáinn, aðeins smeðjulegt glott Þórhalls í kastljósinu, og ekki þótti mér það merkilegt myndefni.

kódakmómentið kom og fór, eins og ljóðin sem lifna og deyja í senn.

-- Skreif Gulli kl.10:51 -- 6 Komment


mánudagur, júlí 23, 2007
ráð til að nýta tímann:
taktu með þér teikniblokk á klósettið!

mig dreymdi í nótt að ég hefði eignast myndasögublað. söguhetjan var lítil læða og teikningarnar voru í stíl við Hello Kitty, litríkar og krúttulegar, nema hvað að þetta myndasögublað hét Pussumæja, eftir söguhetjunni.

þegar mig dreymdi þetta sá ég ekkert athugavert við nafnið, en nú þykir mér það einhvernveginn á mörkum þess að vera siðsamlegt.

samt helvíti flott.

-- Skreif Gulli kl.16:32 -- 4 Komment


inni á kaffistofu þjóðarbókhlöðunnar sá ég útlenskt par sem hafði hellt vænum slatta af M&M út í óskajógúrt og skyr. Mixtúrunni úðuðu þau svo í sig með heimskulegt bros á vör.
blóðrautt tár rann niður vanga minn og fjallkonan andvarpaði í fjarska. fósturmoldin stundi og Ólafur Ragnar fékk fékk skyndilega kökk í hálsinn.
farið heim, hvíslaði ég ofan í kaffibollann minn milli samanbitinna tanna.

farið heim..

-- Skreif Gulli kl.12:43 -- 0 Komment


mánudagur, júlí 09, 2007
Vissir þú að Jack Nicholson hélt að afi hans og amma væru foreldrar hans þar til að hann var orðinn 37 ára gamall?

(fróðleikur í boði is.wikipedia.org)

-- Skreif Gulli kl.13:29 -- 1 Komment