Gundlungur bloggar heiminn
miðvikudagur, ágúst 30, 2006
síðustu daga hef ég reynt að birta hér færslur en þær virðast ekki skila sér á bloggið. sökkva bara niður í hafsjó tapaðra gagna á veraldarvefnum. þetta hyldýpi upplýsinga sem mannlegt auga fær aldrei lesið.
ég hef reynt að hrósa Eyrúnu fyrir getgáfur sínar, en hún giskaði réttilega á Brian Austin Green úr Beverly Hills þáttunum í síðustu getraun. ótrúleg slembilukka þar á ferðinni.
ég hef reynt að setja með í færslurnar myndir af Brian þessum, þá og nú. þetta er mín síðasta tilraun til þess, svo þið skuluð biðja til guðs að það gangi núna.. annars.. ef þið eruð að lesa þetta, hlýtur það að hafa tekist. til hamingju.
ég hef líka reynt að tilkynna næstu getraun, því nú er komið nýtt andlit í gluggann. getraunagluggann, eins og ég kalla hann.
þetta er einhver fræðimaður. pabbi þekkir hann, ef ég þekki pabba minn rétt. en ef ég þekki ekki pabba minn, þá þekkir hann heldur ekki manninn á myndinni, þó svo að annað þurfi ekki að merkja hitt, samkvæmt reglum rökfræðinnar.

..hver haldið þið að þetta sé?

-- Skreif Gulli kl.15:27 -- 0 Komment


föstudagur, ágúst 25, 2006
við meigum ekki tala í vinnunni. sumarpróf, skiljiði. klukkan níu fyllist tölvustofan af einbeittum aftaníossum sem tóku ekki prófin sín með hinum krökkunum og okkur er gert að halda kjafti meðan þessar boðflennur ljúka sér af inni á skrifstofunni okkar.
í fyrradag sat fyrir framan mig rauðbirkinn sláni sem ég er viss um að hafi verið með mér á barnaheimili fyrir sirka 24 árum; Jón Örn. í þá daga var hann óþekkur og skítugur og með eindæmum orðljótur. við vorum góðir vinir, ég, hann og Guðjón, sem ég þekki enn í dag.
það var skrítið að sjá hann svona allt í einu, tuttugu og fjórum árum síðar, en ég þorði ekki að kynna mig. hann var náttúrulega að taka próf og hefði auk þess örugglega ekki þekkt mig.
svona er nú fortíðin skrítið fyrirbæri. ég hugsa að hún sé hin nýja framtíð. fyrir mér er gærdagurinn að minnsta kosti hinn eini sanni morgundagur, og dagarnir sameinast í vini mínum, honum Jóni Erni.

-- Skreif Gulli kl.11:09 -- 0 Komment


fimmtudagur, ágúst 17, 2006
ég fann þennan raunamædda kött á netinu og sorgir hans glöddu mig.
svona er maður nú sjálfselskur.

-- Skreif Gulli kl.16:44 -- 0 Komment


mánudagur, ágúst 14, 2006
Þið hafið kannski tekið eftir nýju andliti í getraunaglugganum. Hverjum skyldi þetta fagra fés tilheyra?

kannski veit það enginn.

-- Skreif Gulli kl.13:20 -- 0 Komment


miðvikudagur, ágúst 09, 2006
Undirskriftasöfnun

Heimurinn má ekki leyfa að blóðbaðið í Miðausturlöndum haldi áfram. Þúsundir saklausra borgara hafa verið drepnir og limlestir, hátt í ein milljón manns eru heimilislausir og hætta er á enn frekari átökum með hryllilegum afleiðingum. Við skorum á Bush, forseta Bandaríkjanna, Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að styðja ákall Kofi Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um tafarlaust vopnahlé og alþjóðlegt lið til að koma á friði.

Takmarkið er að safna milljón undirskriftum. Undirskriftirnar verða afhentar Öryggisráðinu og áskorunin birt í dagblöðum í Bandaríkjunum, Evrópu og Miðausturlöndum.

http://www.ceasefirecampaign.org/

svo minni ég á kertafleytingu í kvöld kl. 22:30

-- Skreif Gulli kl.10:50 -- 0 Komment


föstudagur, ágúst 04, 2006
nostalgían er að drepa mig. muniði eftir þessu?


ég og Tóta frænka kunnum lagið utanað herna í denn.


svo fann ég nokkur skemmtileg vídjó til viðbótar:

Bangsi bestaskinn

Ofurbangsi

He-Man

Muppet Babies

-- Skreif Gulli kl.13:35 -- 0 Komment


þriðjudagur, ágúst 01, 2006
Svona er það, krakkar mínir. Hjörtur, sá gáfaði gumi, var með þetta allt saman á hreinu. þetta var kanínan sem prýddi umbúðir Trix morgunkornsins hér forðum - og gerir reyndar enn, bara í örlítið breyttri mynd og ekki hér á Íslandi, a.m.k. ekki að mér vitandi - en ef einhver veit um búð sem selur þetta morgunkorn í dag má sá hinn sami endilega láta mig vita. mig langar svolítið í Trix þessa dagana.

það var mismunandi ávaxtabragð af kúlunum man ég.

en Hjörtur er sigurvegari dagsins í dag. þeir eru ekki fleiri enn sem komið er, en tékkið á þessari pöddu sem nú er spurt um. hvað heitir hún eiginlega?
ég vil fá íslenskt nafn... komiði með íslenskt nafn á pödduna!

-- Skreif Gulli kl.16:00 -- 0 Komment


og gamanið heldur áfram hér á bloggsíðu Guðlaugs! grín og leikir til skiptis. hvað hafið þið lesendur gert til að verðskulda slíkar velgjörðir?

voruð þið kannski góðar manneskjur í fyrra lífi?
það á ég erfitt með að ímynda mér.

en hvað um það. kannast einhver við þessa kátu kanínu? skrifið svarið í athugasemdastokkinn hér að neðan og hljótið að launum gullhamra, skjall og annað andlegt káf frá ykkar einlægum.

áfram KR

-- Skreif Gulli kl.10:48 -- 0 Komment