Gundlungur bloggar heiminn
þriðjudagur, mars 22, 2005

0 Comments:

Post a Comment

Ég fór á leikrit í gær, frumsýningu stúdentaleikhússins á verki Tsjekovs, Tilbrigði við sjófugl, með frændum mínum tveimur, Þormóði og Þrándi, og sá þar stórleikkonuna Þorbjörgu Helgu fara á kostum í hlutverki Nínu, saklausrar sveitastúlku sem örlögin völdu grýttan ævislóða og deildu taphendi í lífsins gæfuspili.
Sjáið þið ekki að það er vitlaust gefið? æpti ég yfir áhorfendur þegar harmrænn endirinn var orðinn að óumflýjanlegri staðreynd, en þeir annaðhvort þögðu við eður sussuðu á mig, vísifingurinn sperrtur yfir varirnar líkt og skörungur yfir kulnaðri öskustó. Ég horfði blóðrauður af skömm á leikarana beygja sig og bugta undir áköfum fagnaðarlátum annarra í salnum.
Við frændurnir kíktum á leikhópinn inni í búningsherbergi eftir sýninguna og gáfum háar fimmur öllum þeim sem okkur fannst eiga þær skilið. Svo fengum við bjór. Almenn gleði ríkti meðal leikara jafnt sem leikstjóra og í raun allra sem að sýningunni komu eins og títt er eftir frumsýningar. Og vegna þess að allir voru glaðir urðum við það einnig, frændurnir, og stóðum þó eins og illa gerðir hlutir í myrkasta horni búningsherbergisins.
Nóttina eftir dreymdi mig fölnaða rós.

-- Skreif Gulli kl.18:18 -- 0 Komment