Gundlungur bloggar heiminn
mánudagur, apríl 25, 2005
afsakið færsluletina. háannatími í háskólanum og ég hef engan tíma til að hanga á bloggsíðum. endalaus verkefni og ritgerðir sem ég á að vera löngu búinn að skila. ég hef lag á að draga þetta fram á síðustu stundu. svo sit ég sveittur á bókhlöðunni allan síðasta mánuð annarinnar og stari sturluðum augum á tölvuskjáinn. fingurnir í krampakenndum dansi á lyklaborðinu og þegar vinir mínir spyrja hvort ég vilji koma niður í kaffi urra ég og hræki á þá. ég kom ekki hingað til að masa.

-- Skreif Gulli kl.14:59 -- 0 Komment


þriðjudagur, apríl 19, 2005
um luktar varir mínar léku þögul andvörp
yfir hinni hljóðu sál.
þú komst til mín í myrkrið
með brennandi vanga
lítið ljóð í tilefni dagsins, sjáiði til. í dag eru nefnilega liðin nákvæmlega tuttuguogsex ár síðan sveinbarn nokkurt var dregið nauðugt viljugt úr kviði móður sinnar af ókunnum manni, blautt og organdi. þann dag grét barnið af undrun, en undrunin breyttist fljótt í reiði og reiðin í heift. heiftin varð að hatri og hatrið skalf og nötraði í sinni tæru illsku þar til það náði hámarki og breyttist í herskip með fallbyssum og syngjandi áhöfn, en slíkt gerist gjarnan með hatur. herskipið umbreyttist svo í ást og ástin varð að kærleik sem að lokum holdgaðist í Guðlaug nokkurn, 26 ára gamalt ungmenni með háleit markmið og nákvæmlega engar minningar af þessu umbreytingaskeiði, enda má segja að það hafi farið fram á hinu huglæga sviði verundarinnar fremur en því hlutlæga, hvar svosem þau mörk liggja, ég mun ekki reyna að staðsetja þau hér. það væri efni í miðlungslanga skýrslu.
en allavega.. hér er ég. tuttuguogsex ára og grunlaus um þá andlegu þrautagöngu sem bíður mín í skjóli ókominna ára.

-- Skreif Gulli kl.13:39 -- 0 Komment


mánudagur, apríl 18, 2005
Kæra blogg. Ég var rosalega duglegur um helgina. Mér tókst að rumpa af þremur fylleríum (ef aðfaranótt föstudags er talin með), fara á þrjár bíómyndir, sækja einn fyrirlestur og horfa á tvær vídjóspólur. Ég fór í eitt innflutningsteiti, afmælisveislu og fermingarveislu. Ég klappaði kettinum mínum, hrósaði pabba og hjálpaði mömmu með tölvuna, lánaði bróður mínum skilríki og lagði út fyrir kippu handa Þorra.
Í vikunni vonast ég svo til að uppskera einsog ég hef sáð.
Það er best ég taki það fram að ég á afmæli á morgun. Þá gefst fólki tækifæri til að endurgjalda mér góðverkin.

-- Skreif Gulli kl.16:23 -- 0 Komment


mánudagur, apríl 11, 2005
Þjóðarbókhlaðan, musteri mennta og andlegrar upphafningar. Hingað kemur fólk til að stunda nám sitt í þægilegu umhverfi eða til að lyfta huganum á hærra svið, t.d. með lestri á góðri skáldsögu eða fallegu ljóði. Þó virðist þar um leið grassera hin svívirðilegasta lágmenning. Inni á almenningssalernum safnsins má glöggt sjá ummerki um þær lægstu hvatir sem bærast í brjósti hins siðmenntaða manns. Ég er að sjálfsögðu að tala um kúkabrandarann, helsta steininn í framfaragötu mannsandans.

Ég sá núna áðan að á einu salerninu hefur einhver - að öllum líkindum menntaskólagenginn einstaklingur - dundað sér við að skrifa á vegginn samheiti yfir þá athöfn sem við í daglegu máli köllum að ganga örna sinna, líklega meðan hann sjálfur ástundaði umrædda athöfn. Að auki gat ég ekki betur séð en fleiri aðillar á svipuðu þroskastigi hefðu bætt nýjum orðum í þetta samheitasafn.

Þarna mátti finna orð eins og skíta, drulla og freta, en einnig nokkur nýyrði svosem lolla og lorpa. Hið síðasta þykir mér reyndar nokkuð áhugavert, hljómfagurt og næstum því ónamatópeískt.

Svo hafði einhver skrifað eftirfarandi: gott að kúka s:696-4464.
Svolítið áhugavert.

Ég birti þessar upplýsingar til fróðleiks og tek enga ábyrgð á því hvernig fólk meðhöndlar þær.

-- Skreif Gulli kl.17:49 -- 0 Komment


fimmtudagur, apríl 07, 2005
Jú, ég er á Bókhlöðunni. Búinn að gera næstum ekki neitt í allan dag.. og síðustu daga. Verkefnaskil í kvöld og fyrirlestur á morgun. Sjitt.

Tóti kom hérna áðan. Við ætluðum að kíkja saman á Sörlaskjólið, hvar ég skydi læra og hann teikna af mér ofurlitla skyssu á meðan.. til að nota í málverkið sitt, sjáiði til. Ég mun skipa stóran sess í því meistaraverki.
Andlitið mitt málað, hve ég man það alltaf skýrt.

Megas á afmæli í dag og ég ætla að óska honum til hamingju ef ég hitti hann á förnum vegi, sem er ekki líklegt. Ég mun a.m.k. ekki komast á tónleikana sem haldnir eru í kvöld, honum til heiðurs. Ég þarf að læra.

Skrítið. Tóti kom áðan og settist á borð við hliðina á mér. Fyrir svona hálftíma síðan tók ég eftir því að hann var horfinn. Á borðinu liggja húfan hans og skólataska en Tóta sé ég hvergi. Ég óttast að ég sjái hann aldrei aftur.

-- Skreif Gulli kl.21:08 -- 0 Komment


föstudagur, apríl 01, 2005
ég er staddur í Árnagarði. sit þar teinréttur við lyklaborðið og reyni að henda reiður á hugsunum sem þjóta um höfuð mér, styggar eins og ótamin hross. taumlausar hugsanir, frjálsar úr viðjum veruleikans. hugsanir sem bjóða lögmálum eðlisfræðinnar byrginn; ganga í berhögg við daglega reynslu allra manna. þannig eru margar mínar hugsanir, ljóslifandi fyrir mér sjálfum, en að skýra þær fyrir öðrum væri ógjörningur. Eins og að lýsa litunum fyrir blindum manni.. eða andvana fæddu barni.
kemur niður á eitt.

þennan draum dreymdi mig fyrir skemmstu:
mér þótti sem til mín kæmi stúlkubarn, á að giska 12 vetra gamalt, klætt í gráan serk, skósíðan, gullsaumaðan um hálsmál og handvegu með kapmelluspori, vönduð flík. Stúlkan sat á stórum hesti, móvindóttum og ofurlítið litföróttum aftantil, trúlega enn í vetrarfeldi, en það hefur verið á nýbyrjuðum einmánuði sem þessi draumur sótti mig. svo hurfu þau bæði, stúlka og hestur, jafn skjótt og þau höfðu birtst og ég vaknaði og það var kominn dagur. ég reis þá upp í rekkju minni og kvað þessa vísu, en mundi ekki drauminn:

lafir Svörfur, linur hangir
undan lörfum kíkir sprækur
lóan hljóðar

-- Skreif Gulli kl.11:09 -- 0 Komment