Gundlungur bloggar heiminn
fimmtudagur, júlí 14, 2005

0 Comments:

Post a Comment

kæra blogg, ég er duglegur strákur. undanfarna daga hef ég verið bæði framtakssamur og vandvirkur í vinnu minni og lagt mig í líma að vera kurteis og ræðin við mína samstarfsmenn og þjáningabræður. þá hef ég umgengist ástvini af nærgætni og alúð og verið foreldrum mínum undirgefinn sem rakki. ég er upplitsdjarfur og brosmildur við ókunnuga, blíður við börn og daðurgjarn við stúlkur. frændrækinn við skyldmenni mín og yfirborðsljúfur við þeirra maka. ráðagóður, lagvís og þrætugjarn.

kæra blogg, á mínum vinnustað eru allir komnir yfir fertugt nema ég. þetta skapar mér svolitla sérstöðu og ég þarf lítið að leggja mig fram til að fá athygli. ég nýti þessa athygli óspart til að koma á framfæri skoðunum mínum á hinum ýmsu málefnum. um leið opinbera ég náttúrulega fávisku mína og fordóma svo mér hefði eiginlega verið nær að halda bara kjafti. ég komst nefnilega að því fyrir stuttu að allir sem hér vinna eru annaðhvort lögfræðingar eða verkfræðingar, en þær stéttir hef ég einmitt tekið sérstaklega fyrir í gaspri mínu; ausið þær óhróðri með tilheyrandi handapati og fyrirlitningarflissi.
undarlegt nokk hef ég þó ekki uppskorið annað en bros og blíðuhót frá mínum samstarfsmönnum. skotmörkum minna reiðilestra. þau horfa á mig elskulegum augum og hlusta alsæl meðan ég rakka þau ofan í svaðið, blár í framan af æsingi.
en þannig eru víst þessir lögfræðingar og verkfræðingar, lýðskrumarar sem glepja mann með lævísu brosi og falskri rökhyggju og svíkja mann svo um allt sem maður á.
viðbjóðslegar pöddur, kæra blogg. viðbjóðslegar pöddur.

-- Skreif Gulli kl.09:38 -- 0 Komment