miðvikudagur, ágúst 03, 2005
0 Comments:
Post a Comment
ég tók mér veikindafrí frá vinnu í gær. ég var eitthvað heilsuveill eftir verslunarmannaskrallið og reyndar hálfómögulegur af kvefi alla helgina. tímaskyn mitt hefur af þessum sökum skekkst allverulega og ég sit á skrifstofu minni með þá flugu í hausnum að nú sé mánudagur. maður sleppur víst aldrei við þessa mánudaga.
húsið sem ég vinn í er beint á móti lögreglustöðinni og þar sem mér leiðist stundum í vinnunni lét ég mér detta í hug að hringja í þá þarna á móti og bjóða afnot af mínum sérgáfum. ég held nefnilega að lögreglan hefði góð not af íslenskusérfræðingi eins og mér til að hjálpa sér að leysa flókin morðmál.
ég gæti til dæmis verið viðstaddur yfirheyrslur og séð til þess að glæpónarnir rugli ekki laganna verði með tvíbentum svörum, tyrfðu máli eða rangri fallbeygingu. ég sæti þá kannski í skyggðu horni í enda yfirheyrsluherbergisins, þögull sem gröfin. svo myndi ég lemja í borðið þegar minnst varir og þruma eitthvað yfir hinum grunaða: "Áttu við
samneyti í merkingunni
mök? eða kannski í hinni úreltu merkingu
mötuneyti?"
svo gæti ég ráðið í dularfull skilaboð sem eitthvert fórnarlamb skrifar í blóði á eldhúsgólfið, kannski á frum-indóevrópsku.
já, þetta held ég sé engan veginn fráleit hugmynd. ekkert meiri fjarstæða en sögurnar hans Dan Brown.