Gundlungur bloggar heiminn
fimmtudagur, september 29, 2005

0 Comments:

Post a Comment

Það var klukkað mig

fyrst klukkaði Tinna mig og svo klukkaði mig Hrafnhildur og ég verð víst að taka því eins og hverju öðru hundsbiti, bíta svo sjálfan mig í jaxlinn (hvernig sem maður fer nú að því) og tína saman nokkur af þeim einkennum, af hverjum mín persóna samanstendur, og sem uppbyggja eður samblanda mitt persónalítet, svo ég leyfi mér að kansellístíla örlítið að hætti embættismanna 18.aldar og föndra um leið sögn úr nafnorðinu kansellístíll því nýyrðasmíð er eitt af mörgum frárennslisrörum minnar sköpunarþarfar, eða skólprörum ef við viljum kalla sköpunina úrgang hugans, sem mér finnst hreint ekki við hæfi. var það ekki mannshugurinn sem skóp hinar æðri listir; klassískar sinfóníur, málaralist og breikdans?
úrgangur? ég held nú síður.

hvað um það. ég mun þá gaspra fimm staðreyndum um sjálfan mig þó nógu þyki mér bloggið sjálfsmiðaður vettvangur fyrir.

1. ég tala og syng með sjálfum mér þegar enginn heyrir til og því miður stundum þegar ég held að enginn sé nálægur. nú þegar telja nokkrir mig vitskertan vegna þessa.
2. ég þjáist af vægum athyglisbresti sem sumir vilja meina að sé ekki svo vægur. auk þess gleymi ég öllum nöfnum og man stundum ekki hvað bestu vinir mínir heita. ég fel þessa ágalla eftir fremsta megni með leikrænum tilburðum og með því að nota fornöfn og önnur orð í stað nafna.
3. þegar ég leggst í rúmið á kvöldin tel ég á fingrum mér hversu marga klukkutíma ég fæ í svefn. venjulega ligg ég þó andvaka meirihluta nætur eða hangi einhverstaðar milli svefns og vöku þangað til u.þ.b. tveimur klukkustundum áður en ég á að vakna. þá tek ég upp á því að sofna og á svo í stökustu vandræðum með að koma mér á lappir.
4. ég held því fram að ég sé trúleysingi og yppi öxlum kæruleysislega þegar talið berst að andlegum málum. samt er ég dyggur lesandi stjörnuspár moggans og reyni alltaf að fara eftir því sem þar er sagt.
5. þegar ég var lítill fékk ég keðjubréf í pósti þar sem mér var hótað ævilangri ólukku ef ég ekki sendi það til a.m.k. tíu aðilla innan einnar viku. í bréfinu voru einnig dæmisögur af hrakförum nokkurra aðila sem ekki höfðu fylgt fyrirmælunum bréfsins. einhver breti braut keðjuna og dó í flugslysi, annar missti konu sína og börn og sá þriðji sat í skuldafangelsi ævilangt. ég kom því aldrei í verk að senda bréfið og eyddi stórum hluta æsku minnar í logandi hræðslu við hina yfirvofandi vá sem fylgdi því að slíta keðjuna.

ég var nú bara að rifja upp keðjubréfssöguna í þessum skrifuðum orðum. en þetta var hræðilegt alveg. ég ætti að senda grein í morgunblaðið með fyrirsögninni Keðjubréf svipti mig æskunni. hljómar reyndar meira eins og DV fyrirsögn.

Jæja, þetta er orðið allt of langt hjá mér.. bæó

-- Skreif Gulli kl.10:44 -- 0 Komment