Gundlungur bloggar heiminn
mánudagur, október 10, 2005

0 Comments:

Post a Comment

jæja. kominn mánudagur og ekki úr vegi að drita niður einni þurrlegri upptalningu á því sem ég aðhafðist um helgina. það verður engin skemmtilesning, get ég sagt ykkur.

ég missti af októberfest á föstudaginn en vann upp þann missi með stífri drykkju á laugardagskveldið þegar ég mætti ölóður í afmælisveislu þriggja frænda minna. þetta var merkileg veisla fyrir þær sakir að áfengið gekk aldrei til þurrðar, nóg var eftir af rauðvíni og vodka þegar ég kútveltist út úr húsinu og niður í bæ, flissandi eins og hálfviti í óútskýranlegri gleðivímu.
morguninn eftir var einsog gleðin hefði snúist upp í andhverfu sína og hlunkað sér yfir mig af ólýsanlegum þunga. ég hélt því til í rúmi mínu lungann úr deginum í góðum félagsskap Þorbjargar sem þjáðist af áþekkum kvilla. það er reyndar hún sem á rúmið, ekki ég. rétt skal vera rétt.
klukkan fimm fór ég svo í bíó á síðustu sýningu kvikmyndahátíðarinnar. leynisýningu sem kom í ljós að var myndin Africa United, íslenskt mockumentary í hæsta gæðaflokki.
Eftir myndina var sýningargestum boðið til veislu í Landsbankahúsinu. voru þar matur og drykkur einsog menn gátu í sig látið, hljómsveit og risavaxnir verðir sem gnæfðu gleiðfættir yfir gráðugum veislugestunum með þennan hörkulega svip sem einkennir alla verði, hvort sem þeir eru lögreglu-, dyra- eða lífverðir. það er fyrirlitningargrettan, því allir verðir fyrirlíta annað fólk og eiða öllum sínum vökustundum í örvæntingafulla leit að löglegri afsökun til að fá að berja á náunganum.
ég lauk helginni með því að horfa á myndina Punch-Drunk Love með Adam Sandler og Emily Watson, mynd sem kom mér aldeilis skemmtilega á óvart. einhver hafði nefnilega sagt mér að hún væri leiðinleg. hver var það eiginlega? það hlýtur að hafa verið einhver viðbjóðslegur lygari eða smekklaus rola.
ég mæli með Punch-Drunk Love.

-- Skreif Gulli kl.14:00 -- 0 Komment