Gundlungur bloggar heiminn
þriðjudagur, mars 28, 2006

0 Comments:

Post a Comment

ég átti að hitta hér mann klukkan hálf þrjú og var því hingað mættur eins tímanlega og mér er unnt. en þá var maðurinn ekki á staðnum! kannski eitthvað hafi komið uppá. kannski hann hafi reynt að hringja í mig til að afturkalla fundinn. tilkynna loforðasvikin símleiðis. það þykir fínt. en ég hef engan síma og get ekki tekið við slíkum tilkynningum. verð bara að standa við mitt og mæta þangað sem ég hef lofað í þeirri veiku von að mínir samferðamenn sýni sömu orðheldni; sýni mér viðlíka virðingu og ég sýni þeim. en því er víst ekki að sælda. auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, segja þeir. það er hætt við því að ég endi æfina blindur og tannlaus fyrst einungis misgjörðir mínar eru goldnar í sömu mynt.
en ég er sumsé símalaus. ég gruna Þorbjörgu um að hafa tekið hann, í misgripum líklega, þegar hún skakklappaðist út úr íbúðinni, skelþunn um hádegisbil. hún kom heim nokkru eftir miðnætti í gær, pöddufull og með halarófu af ölvuðum leiklistanemum á eftir sér. ég sat þá berháttaður uppí rúmi og las í bók. hjálpaðu mér nú að tengja græjurnar Gummi minn, kallaði hún til mín hátt og þvoglumælt, nú verður sko dansað! ég var ekkert að kippa mér upp við þetta nafnarugl heldur vatt mér fram úr, kastaði kveðju á hina verðandi leikara og skellti plötu á fóninn, bað alla að láta eins og heima hjá sér. að því búnu hélt ég aftur inn í svefnherbergi. Þorbjörg lá þá sofandi í rúminu og gerði sig ekki líklega til að sinna gestum sínum meir. ekki voru þetta mínir vinir og ég ákvað að setjast við hlið hennar og halda áfram lestrinum. óbilandi trú mín á gæsku mannsins og náungakærleik olli því svo að ég sofnaði rólegur undir þægilegu skvaldri utan úr stofu með hina fögru stúlku mér við hlið.
þegar ég svo fór á fætur var íbúðin mannlaus og símann minn hvergi að finna. ilminn af opnum bjórdósum og hálffullum rauðvínsglösum lagði um stofuna. andrúmsloftið minnti mig á piparsveinaár mín og ég maulaði kornflexið mitt í hálfgerðri nostalgíuleiðslu, lét það svo eftir mér að reykja eina sígarettu á leiðinni í skólann.

-- Skreif Gulli kl.14:55 -- 0 Komment