Einar, þjáningarbróðir minn og samstarfsmaður benti mér á síðuna radioblogclub.com um daginn þegar hann sá að vinnuleiðinn var í þann mund að þröngva mér fram af geðheilsunnar klettabrún, niður í hyldýpi brjálsemi og morðfýsnar. og það mátti vart á tæpara standa; hljóðin í hausnum á mér minntu á þeirri stundu á barmafulla skál af Rice Crispies morgunkorni. allavega. á þessari síðu má finna og hlusta á kynstrin öll af dægurlögum sem breyta brotsjó eirðarleysisins umsfifalaust í róandi öldugjálfur. það jafnast fátt á við taktfestu popptónlistarinnar til að berja vaxi í bresti athyglinnar og veita skjól fyrir hinum sífelldu ásóknum vinnuleiðans. angistarsvipurinn, sem í eina tíð var sem gróinn í andlit mitt, hefur nú vikið fyrir beyglaðri hamingjugrettu sem mig grunar að sé síst til bóta, fagurfræðilega séð. en hvað um það. ég var sumsé að skoða lög á þessari síðu í dag og fann þá lagalista sem samanstendur einungis af baráttulögum grænmetisæta. þar má finna lög eins og Stop the Slaughter, Why Must They Die, Humans for Milk og Bomb your Local KFC svo einhver séu nefnd. ég læt hér fylgja lagið Beef með hljómsveitinni Boogie Down Productions. það er ekki slæmt.