Gundlungur bloggar heiminn
mánudagur, október 02, 2006

0 Comments:

Post a Comment

Pétur Már Gunnarsson, fúlskeggjaður elskhugi Þórunnar frænku minnar, keypti um daginn páfagaukshjón í búri og hafði hjá sér í vinnustofu sinni. þessir hamingjusömu og söngelsku fuglar fengu að flögra frjálsir um plássið og Pétur fann að þeir léttu honum lundina sem þó var ekki þung fyrir. þannig liðu nokkrar áreynslulausar vikur, fuglarnir sungu og settust á Pésa sem klóraði sér í skegginu og dæsti glaðlega, enda var hann frjórri og framkvæmdaglaðari en nokkru sinni fyrr.

Pétur er listamaður.

svo var það einn daginn að páfagauksfrúin skreppur út fyrir hússins dyr og kemur ekki heim allan þann dag og ekki næstu daga og er týnd allt fram á þessa stund. karlfuglinn varð við þetta mjög sorgmæddur og húkir nú einn heima í búri sínu og hvorki flýgur né syngur.

og Pétri verður ekkert úr verki.

en fyrir stuttu, þegar Pétur á leið um Njálsgötuna heyrir hann kunnuglegan söng úr garðinum á Njálsgötu 3 (þar sem ég bý og hvar ég er staddur nú, ekki úti í garði heldur inni í íbúð á miðhæðinni). Pétur hleypur á hljóðið og sér þá páfagauksfrúna sitjandi hátt uppi í tré, syngjandi hástöfum í von um svar frá maka sínum sem á þeirri stundu grét hljóðum tárum í kjallarholu skammt frá.

svo flaug hún í burtu og Pési fann hana ekki aftur.

svo sagði Obba mér í gær að um daginn hefði páfagaukur komið á gluggann hjá vinkonu hennar á Sölvhólsgötu og tíst ámátlega. þá hristi ég höfuðið og lagðist í bólið.

-- Skreif Gulli kl.11:10 -- 0 Komment