Gundlungur bloggar heiminn
mánudagur, mars 05, 2007

0 Comments:

Post a Comment

ég væri ekki að ljúga ef ég segði ykkur að ég hefði fengið eggnúðlur í Þjóðleikhúsinu í gær. þær breyttust í sílamáva í maganum. ég og Þormóður ætluðum í bláa lónið þennan dag en ég varð að vinna. skyldumaran hefur troðið á öllum mínum frídögum síðan ég byrjaði að vinna. pabbi kallar mig klæðskipting, enda er hann mótfallinn enskum hugtökum sem slæðast óþýdd inn í tungumálið. hinsvegar kalla þeir mig dresser niðrí leikhúsi. ég get svo svarið það. leikarastéttin á eftir að ganga að íslenskunni dauðri einn daginn. drekkja henni í óþýddum fagorðum. „þú tékkar bara mónólóginn á þínu kjúi í mækatestinu,“ segja þeir og fjallkonan hikstar og missir tennurnar. annars er Þormóður frændi minn að reynsluaka bíla fyrir bílablaðið, svo ég skipti yfir í léttara hjal. hann er ekki leikari heldur blaðamaður og talar ágæta íslensku. við vinirnir fórum í smá torfæruakstur hjá Litlu kaffistofunni á laugardaginn og þá fæddist þessi áðurnefnda andvana hugmynd um bláa lóns ferð á sunnudag. ég var þá nýkominn úr morgunmatarboði hjá Tótu frænku þar sem ég hafði spilað á banjó, haldið á kornabarni og hlustað á gamansögur. ég var því skiljanlega ör og ójarðbundinn þegar við frændurnir þeystum yfir smátjarnir og mýrlendi á mörghundruð hestafla tryllitæki. á einhverjum tímapunkti lagði Þormóður höndina á lær mér og sagði ákveðinn: „svo förum við saman í Bláa lónið á morgun. það eru okkar örlög, Guðlaugur. Og örlögin eru skrifuð í stjörnurnar.“ ég kinnkaði kolli og brosti. rökrásir huga míns höfðu flækst í hnút og um stund hélt ég að lífið væri gleðileikur, ostra eða fallegt lag.

það var nú ljóta vitleysan

-- Skreif Gulli kl.14:16 -- 0 Komment