Gundlungur bloggar heiminn
þriðjudagur, mars 06, 2007

0 Comments:

Post a Comment

portúgalskur Rafael hafði samband við mig símleiðis í gær og þurfti nauðsynlega á íslenskukennslu að halda. kannski var hann brasilískur og kannski hét hann Ríkharður, ég bara man það ekki. ég hlýt að vera rosalega fordómafullur. set heilu málsamfélögin undir einn hatt og geri engan greinarmun á Rafaelum og Ríkhörðum. hvað sem því líður þóttist ég ekki hafa tíma til að kenna þessum aðkomumanni eitt né neitt. ég ætti nóg með mitt, sagði ég honum. skólinn og vinnan og hin vinnan og þriðja vinnan, skiluru. hvers ætti ég að gjalda, saklaus íslenskuneminn, spurði ég reiður og var farinn að sárvorkenna sjálfum mér. þrjár vinnur með skóla og skítur og kanill í laun hver mánaðarmót. maður er skuldugur upp fyrir haus og sekkur sífellt dýpra í kviksyndi íslenska bankakerfisins sem heldur þjóðinni allri í helgjargreypum meðan eigendur bankanna græða á tá og fingri. hundruðum milljarða sóa þeir mánaðarlega í endalausum eltingaleik við eigin ómerkilega duttlunga! þrjár vinnur, vinur minn! þrjár vinnur og launin duga ekki fyrir útgjöldunum.

einhverstaðar í reiðilestrinum hafði ég skipt úr ensku yfir í íslensku og stóð nú í stofunni heima hjá mér, hálfgrenjandi af æsingi, og löngu búinn að gleyma því hver var á hinum enda línunnar. enda skipti það mig ekki máli framar. ég fleygði símanum í gólfið og kveikti á sjónvarpinu.

mig minnir að það hafi verið einhver útlendingur, en ég man ekkert hvað hann vildi mér.

-- Skreif Gulli kl.13:43 -- 0 Komment