Gundlungur bloggar heiminn
fimmtudagur, apríl 12, 2007

0 Comments:

Post a Comment

Aldrei skal ég setjast, sagði maðurinn og skeit standandi

Þessi stutta frásögn er í senn skemmtilegt máltæki og falleg saga af einbeittum viljastyrk söguhetjunnar ónafngreindu sem fórnar ærunni til að standa við stóru orðin.

Ég lærði hana af Hugleiki frænda mínum, en hann smjattar glaðhlakkalega á þessum orðum í hvert skipti sem honum þykir viðhorf mín bera vott um þvermóðsku eða ofmetnað. Ég slæ þá venjulega á lær mér og rek upp hláturroku en snarþagna svo, horfi í gaupnir mér og roðna af skömm. Ég átta mig á því að þótt örlög mannsins í sögunni séu vissulega spaugileg eru þau um leið þverhausum eins og mér víti til varnaðar og bakvið skrítluna leynast mórölsk skilaboð; ádeila á mína persónu; mín sjónarmið. Ég er í raun að hlægja að sjálfum mér og hugsanlegum afleiðingum viðhorfa minna. Hlægja að minni eigin heimsku.

Þannig leikur hann sér að mér, hann Hugleikur, eins og illmenni að ómálga barni. Strýkur mér fyrst um vangann en hrækir svo framan í mig.
Ó, hve ég óska þess að jörðin gleypi hann og öll hans skyldmenni.

-- Skreif Gulli kl.11:55 -- 0 Komment