Gundlungur bloggar heiminn
fimmtudagur, maí 10, 2007

4 Comments:

Þessir spádómshæfileikar eru, tel ég, alls ekki duldir, heldur bersýnilegir.

By Blogger Fjalsi, at 11. maí 2007 kl. 08:57  

þú ert draumur. sá nafnið mitt hér til hliðar, fylltist blygðun. bætti úr. Nú er ég disadisus.blogspot.com - ennþá frænska þín þó .

By Blogger disadisus, at 11. maí 2007 kl. 10:11  

stórkostlegt, ég uppfæri þig þá hér!

By Blogger gulli, at 11. maí 2007 kl. 14:06  

Svarfdælsk fjölkynngi, eins og ég hef áður bent á.

By Blogger Tinnuli, at 13. maí 2007 kl. 10:20  

Post a Comment

ég er ekki frá því að mig hafi dreymt fyrir dagförum í nótt, eða ölluheldur í morgun, því eftirfarandi draumur ásótti mig milli þess sem ég þjösnaðist bölvandi á snústakkanum um níuleytið:
ég var staddur á bensínstöð og hafði nýlokið við að dæla á bílinn minn fyrir andvirði 699 króna. en sem ég ætlaði að borga bensíntittinum sló klukkan tíu að kveldi og titturinn tjáði mér þá að bensínlítrinn hækkaði í verði eftir tíu og vildi rukka mig um meira en ég taldi mig skulda. ég þurfti að beita allri minni mælsku og rökviti til að útskýra fyrir tittinum að ég myndi að sjálfsögðu einungis greiða það verð sem í gildi var þegar bensíninu var dælt á bílinn. titturinn var bæði skilningssljór og þver en gaf sig þó að lokum og ég komst hjá því að láta féfletta mig á þennan svívirðilega hátt.

en auðvitað var þetta bara draumur (meira að segja nauðaómerkilegur draumur) og í draumum gildir einu hvort maður borgi meira eða minna fyrir bensínlítrann. fjárstyrkur minn næstu nótt verður í engu samhengi við eyðslu fyrri nótta. það veit ég að fenginni reynslu.

en ég hélt því fram að mig hefði dreymt fyrir dagförum, var það ekki? jú jú, mikið rétt. ég vaknaði sumsé með bros á vör yfir sigrinum í draumalandinu og fór að gera mig til fyrir daginn. þegar ég hafði klætt mig í föt, burstað tennurnar og borðað morgunmat rifjaðist það upp fyrir mér að bíllinn var í stöðumælastæði (ég er með bílinn hans Steins frænda í láni á meðan hann er í útlöndum). þetta var klukkan rétt rúmlega tíu svo ég rýk út og ek bílnum úr stöðumælastæðinu. legg honum fyrir framan húsið mitt í staðinn, en ekki þó löglega því lögleg stæði er hvergi að finna á daginn. síðan hendist ég inn í íbúð, treð nokkrum bókum ofan í tösku mína og beint aftur út í bíl. en þá er skyndilega komin feit sekt á rúðuna. ég verð náttúrulega alveg brjálaður (sbr. eldri reiðifærslur vegna stöðumælasekta), finn blóðið rjúka upp í andlitið og æðarnar springa í augunum. gnístandi tönnum af reiði stekk ég út á götuhorn og kem auga á stöðumælavarðarhelvítið; lágvaxna, luralega kerlingu á þrítugsaldri með vörtu á kinninni. hún snýr í mig baki og á sér einskis ills von. ég geng að henni ákveðnum skrefum og banka þéttingsfast á öxlina á henni. þegar hún snýr sér við rétti ég henni sektina, dreg andann djúpt og hendi mér svo á hnén. ég hangi eins og ósjálfbjarga barn í stöðumælaúlpufaldinum og sárbæni hana með ekkasogum að miskunna sér yfir fátækum námsmanni sem hvorki á í sig né á. rétt ræður við að eiga íbúð í miðbænum, fartölvu, þráðlaust net, reka bíl og fara reglulega á barinn.

kerlingin var bæði skilningssljó og þver en gaf sig þó að lokum og ég komst hjá því að láta féfletta mig á þennan svívirðilega hátt.
(ath. klifun)

glöggir og þolinmóðir lesendur hafa vonandi áttað sig á því að líkindin með draumnum og veruleikanum sem fylgdi í kjölfarið eru of mikil til að hægt sé að skrifa þau á reikning tilviljunar. hér getur því einungis verið um að ræða dulda spádómshæfileika yðar einlægs ellegar einhverskonar dómsdags forboða. hvorugt kann góðri lukku að stýra.

góðar stundir.

-- Skreif Gulli kl.12:07 -- 4 Komment