Gundlungur bloggar heiminn
miðvikudagur, júlí 25, 2007

6 Comments:

ó vei. lukkan sveik þig.

By Blogger Hrafnhildur, at 26. júlí 2007 kl. 09:58  

Það er svo merkilegt þetta með kódakmómentin að þau koma og fara í sífellu. Það er akkúrat þess vegna sem við keppumst við að fanga þau í eitt frosið augnablik kódakmyndarinnar. Svona snýst heimurinn í sífellu um sjálfan sig - hring eftir hring eftir hring.

By Blogger Spartakus, at 26. júlí 2007 kl. 10:10  

orð í tíma töluð félagar. skál fyrir svikulli lukku og hverfulum augnablikum.

skál í botn!

By Blogger gulli, at 26. júlí 2007 kl. 11:21  

he he þúrt fyndinn gulli,Pussumaja,fariði heim og svo vel skrifaða kodakmeómenta færslan, bitte nú,hér vil ek koma og hér vil ek vera..catmaster

By Anonymous Nafnlaus, at 28. júlí 2007 kl. 12:19  

kakódómen- kódakmóment-kódamenta

By Blogger disadisus, at 30. júlí 2007 kl. 14:49  

En varstu í alvöru að skreyta smákökur? Það er kjút.

By Blogger Svanhvít, at 1. ágúst 2007 kl. 21:58  

Post a Comment

síðasta mánudagskvöld, þar sem ég sat inni í eldhúsi og skreytti smákökur, varð mér af rælni litið inn í stofu þar sem spúsa mín, Þorbjörg, sat ofan á rúminu og blaðaði í Saltaranum. kunnugleg skilaboð ljómuðu frá sjónvarpsskjánum við hlið hennar: AFSAKIÐ HLÉ.

það var eitthvað yndislega heimilislegt og þjóðlegt við þessa sýn og stundarkorn sat ég og virti hana fyrir mér steini lostinn. síðan tóku hendur mínar í skjálfandi ofboði að fálma eftir myndavél sem ég vissi að lá á gluggakistunni í seilingarfjarlægð. aðeins ett orð komst að í vörumerkjamenguðum huga mínum: kódakmóment!

til að útskýra það sem gerðist næst er rétt að ferðast örlítið aftur í tímann, um 14 klukkustundir eða svo, þegar ég sat á sama stað inni í eldhúsi og starði svefnþrútnum augum fram í stofu. sólin skein inn um stofugluggann og íbúðin glitraði í töfraljóma hins nýfædda dags. Þorbjörg svaf í rúminu. seiðandi kurrið úr expressókönnu á eldavélinni sleit mig úr draumleiðslu morgunþreytunnar og ég stóð upp, hellti mjólk í pott og greip um mjólkurþeytarann. en vei (í hinni úreltu, neikvæðu merkingu)! bölvað tólið var þá rafmagnslaust. tilhugsunin um óþeytta mjólk út í kaffið var mér óbærileg. ég greip til þess örþrifaráðs að færa rafhlöðurnar úr myndavélinni yfir í þeytarann.

líklega eru sögulokin nú þegar flestum ljós. þeir eru snarir í snúningum þarna uppi í sjónvarpi. helvíti snarir, og tæknileg vandamál vara ekki lengi. a.m.k. ekki lengur en tæknilegu vandamálin í eldhúsinu á Njálsgötu 3. þegar rafhlöðurnar voru komnar aftur í myndavélina prýddu þau kunnuglegu skilaboð ekki lengur sjónvarpsskjáinn, aðeins smeðjulegt glott Þórhalls í kastljósinu, og ekki þótti mér það merkilegt myndefni.

kódakmómentið kom og fór, eins og ljóðin sem lifna og deyja í senn.

-- Skreif Gulli kl.10:51 -- 6 Komment