Gundlungur bloggar heiminn
föstudagur, október 26, 2007

5 Comments:

var þetta nokkuð framtönn?

By Blogger Tinna Kirsuber, at 26. október 2007 kl. 16:44  

nei, sem betur fer. það hefði verið enn ömurlegra.

By Blogger gulli, at 26. október 2007 kl. 16:58  

ojoj, þetta er ógaman... en ætli það sé algengt, að vera rótfylltur svona illa? ég lenti nefnilega í því líka, en ekki man ég spurnir af rótfyllingu sem heppnaðist vel...

By Blogger Erla Elíasdóttir, at 26. október 2007 kl. 21:02  

oj bara... þetta hljómar eins og sérlegur hryllingur.

By Blogger marta, at 29. október 2007 kl. 12:04  

ætli það þyki ekki bara óspennandi að tala um vel heppnaðar rótfyllingar

By Blogger gulli, at 5. nóvember 2007 kl. 10:56  

Post a Comment

ég vaknaði með einhver helvítis óþægindi í tönninni á aðfaranótt þriðjudags. þessi helvítis óþægindi urðu svo að seiðandi verk þegar leið á daginn og að kveldi að nístandi sársauka. engum matarbita kom ég niður þennan dag og um nóttina leið ég þvílíkar vítiskvalir að ég sá mér ekki annað fært en bruna á bráðamóttöku Landspítalans og gráta þar yfir þreytulega konu í grænum slopp. Tvær stórar parkódín forte fékk ég fyrir ómakið, auk lyfseðils sem gerði lítið gagn því ekkert apótek er opið eftir miðnætti hér á þessu guðsvolaða skeri sem ég vona að sökkvi senn í sæ. pillurnar gleypti ég, grátklökkur af þakklæti í garð þreyttu konunnar í græna sloppnum, og lagðist svo killiflatur í rúmið mitt og klemmdi aftur augun. heimurinn bakvið augnlokin tók á sig undarlegar myndir og í þrjá klukkutíma lagðist yfir mig þægilegur doði. bros færðist yfir sveittar varirnar. en þegar skynheimurinn fór aftur að líkjast sjálfum sér guðaði fröken tannpína á gluggann og ég var í viðþolsleysi mínu tilneyddur að rista djöfulleg tákn á upphandleggi og bringu í fálmkenndri tilraun til að halda geðheilsunni. með þessu móti tókst mér að þrauka fram til kl.7:45, en þá stökk ég inn í bíl og ók rakleiðis á fund míns nýja tannlæknis sem beið ekki boðanna heldur greip töng í hönd og reif úr mér tönnina í einni svipan. rótarsýking, sagði hann þurrlega og þerraði blóð og gröft af andlitinu með gömlum tóbaksklút; út frá lélegri rótfyllingu. ég fleygði mér í fang hans og þakkaði honum greiðviknina, daðureygður. fór að því búnu heim til mín og lagðist í sótt. lá veikur og þrútinn í bælinu allan þennan dag og líktist svolítið Brandoin Lee í hlutverki guðföðursins geðþekka, þ.e. sú hlið andlitsins sem nú var bólgin eftir tanndráttinn. beinverkir og magakveisa bættust þvínæst í hóp kvillanna og ég gerðist þungbrýnn og bitur í skapi og skammaði Þorbjörgu meðan hún bar á mig græðandi smyrsl eða las yfir mér bænir. á fimmtudagskvöldið yfirgaf hún mig svo, sóttin (ekki spúsan, til allrar hamingju), og ég spratt alheill og hlæjandi upp úr stofusófanum og Þorbjörg brast í grát því hún hélt ég væri með óráði.

og hér er ég. mættur aftur á þjóðarbókhlöðuna, heill heilsu, en skulda svo marga vinnutíma að ég tárast ef ég hugsa til þess (og þá sé ég ekki á tölvuskjáinn og get ekki unnið).

hugsa minna, vinna meira.

-- Skreif Gulli kl.10:54 -- 5 Komment