föstudagur, september 19, 2003
Halló krakkar!
Ég er í skólanum þótt það séu engir tímar því ég er svo duglegur strákur. Við erum líka að selja nemendaskírteini fyrir íslenskunemana niðri í kjallaranum á Árnagarði og fólk kemur til okkar með peningana sína til að það megi vera með í öllum partíunum. Peningarpeningarpeningar.
Einusinni þegar ég átti afmæli hélt ég partí og bauð fullt af fólki. Ég hélt sko ammælið með Tótu frænku og Berglindi næstumfrænku því við eigum afmæli á sama degi næstum. Húsið mitt var troðið af vinum og vandamönnum. Einn af gestunum var góður vinur minn sem stelpurnar höfðu ekki áður séð. Þetta er myndarlegur strákur, greindur og vel máli farinn. Hann var, einsog held ég flestir á svæðinu, í góðu skapi og ræddi við afmælisbörnin af fljúgandi mælsku og geislaði af þokka og góðmennsku. Síðar um kvöldið stóðum ég, Tóta og Begga inni í eldhúsi og mösuðum svo sem drukknum börnum er tamt. Stúlkurnar höfðu orð á því hvað þessi vinur minn væri gasalega sætur strákur en komust þó að þeirri niðurstöðu að hann væri of lítill til að vera þeim samboðinn. Þetta tal þeirra gerði mig óðan af reiði þarsem ég er nú ekki mikið hærri í loftinu en umtalaður þokkapiltur. Mig setti dreyrrauðan og ég strunsaði útúr eldhúsinu og skellti á eftir mér.
Morguninn eftir mundi enginn eftir þessu atviki og ég hef ekki minnst á það síðan. Nú þykist ég þó vita hvað gyðjurnar eru að pískra um mig upp með veggjum í partíum.. "Sætur strákur, bara alltof lítill fyrir okkur".
Mellur..
Ekki samt Tóta og Begga sko. Þær eru englar. Algjörir ENGLAR!
fimmtudagur, september 18, 2003
Stundum þegar ég ligg einn í rúminu mínu á kvöldin heyri ég undarlegan söng innan úr veggjunum.
Það er söngur hinna dauðu.
Í dag er fimmtudagur og það eru nákvæmlega tvær vikur síðan ég skrifaði eitthvað síðast á þetta djöbblablogg. Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar.. og sum til Dýrafjarðar.
Þrátt fyrir efasemdir mínar fann ég bíl til að komast í Svarfaðardalinn með vinum mínum. Þar var kátt og sveitin öll kvað við af dansi og spili. Það var hopp, það var hí, það var hei. Þarna voru Þorri og Hulli og Pési og Gunnhildur og Ingun og Tinna og Davíð og Johann franski og Rán og Íva og Ösp og Tobba (til hamingju með ammilið Tobba) og Kata og fleiri og fleiri.
Næsta helgi fór í meira Sukk. Við í stjórn nemendafélags íslenzkunema buðum busunum í ferskmennagöngu, sýndum þeim háskólasvæðið og buðum upp á bjór í þartilgerðum dollum. Svo var farið á Nelly´s og drukkinn mjöður úr einhverskonar krúsum. Ég ráfaði að lokum út í nóttina og kom við í einhverju sem kalla mætti partí heima hjá Tótu og Pésa. Svo skreið ég á skemmtistað sem var eitthvert afbrigði af sirkús. Undarlegt.
Fegurð heimsins kallar á blóð. Himnarnir heimta blóð þeirra syndlausu.
fimmtudagur, september 04, 2003
Örninn er floginn til Danmerkur og Hjörturinn hlaupinn til Hollands. Steinninn nennir ekki að fara neitt en Tryggvagötubræður eru staðráðnir í að fara norður í Svarfaðardalinn yfir helgina. Enginn bíll fyrir fíflið hann Guðlaug. Enginn helvítis bíll.
Ég bjó á Grundarstígnum frá því ég fæddist og þangað til ég varð svona 3ja vetra. Þaðan er mín fyrsta minning. Ég er staddur í stigaganginum fyrir utan íbúðina mína og ákveð að klífa tröppurnar sem liggja upp á næstu hæð. Þegar ég er kominn þangað upp taka við aðrar tröppur, alveg eins nema í hina áttina. Ég klifra áfram og sé þá mér til mikillar furðu að ég er aftur staddur fyrir utan íbúðina mína.
Framhaldið er horfið úr minni mínu fyrir fullt og allt en mig grunar að ég hafi í raun verið staddur utan við íbúðina á hæðinni fyrir ofan.. alveg eins hurð og alveg eins motta.
Hver vegur að heiman er vegurinn heim.
Nú er hann Gulli litli byrjaður aftur í skólanum og það finnst honum gaman. Hann er í hinum og þessum skemmtilegum tímum og fátt finnst honum betra en að hanga á skólabekk og hlusta á gráhærða kennara röfla um íslenska hljóðskipan klukkutímum saman. Á eftir ætla ég að berja sköflungnum á mér utan í ljósastaur... kannski brotnar hann þá. VEEEEI!
mánudagur, september 01, 2003
Aldrei tími til að skrifa neitt á helvídiss bloggið sitt. Bráðum kaupi ég mér tölvu og þá þarf ég ekki að fara á bókasafnið til að komast á netið. HAHAHA!
Ég og Tóti kúl og SteinnSteinn sátum allir á Asíu í gær og ræddum viðburði helgarinnar yfir rjúkandi kaffibolla. Við vorum allir óskaplega þunnir, einhverjir okkar með móral útaf einhverju sem við gerðum í ölæði gærdagsins og það blæddi úr hausnum á Þrándi.
Blautur, nakinn og grenjandi kom ég í heiminn og mér finnst staða mín síst hafa farið batnandi.