fimmtudagur, desember 18, 2003
Ég kom að honum Pésa um daginn þar sem hann var að þefa af skólatöskunni minni.
Ég skammaði hann einsog hund.
Síðasta prófið á morgun og ég á ekkert að vera að blogga núna. Ég á að vera læra.
Læra einsog hestur!
Einsog lítið folald.
miðvikudagur, desember 17, 2003
Búinn á Þjóðó. Heim að taka af snúrunni, elda fyrir Tóta og horfa svo kannski á Tótall ríkall heima hjá Tinnu ef hún nennir.
Blúbb.
Ég var að kíkja á stöðuna á reikningnum mínum. Það eru bara 2900 krónur eftir! Ég má ekki eyða neinum pening í dag og á morgun, ef ég á að eiga fyrir áfengi um helgina. Voðalega getur lífið verið erfitt.
Reyndar skuldar Kata mér rauðvínsflösku og Tinna skuldar mér kippu. Kannski ég nýti mér það.
Þá get ég jafnvel keypt jólagjafir handa einhverjum.
Hvort á ég að gefa mömmu eða pabba gjöf í ár?
Herbert Guðmundsson átti hálfrar aldar afmæli í gær. Ég hélt uppá það með því að læra og taka til. Reyndar horfði ég líka á einhverja kvikmynd sem St1 átti í tölvunni sinni.
Ágætis ræma. . .
þriðjudagur, desember 16, 2003
Einu sinni vorum ég og Steinn að renna fyrir fisk og föðmuðumst því að aflinn var góður. Það er það karlmannlegasta sem ég hef gert.
Próf á föstudaginn og ég er á Þjóðarbókhlöðunni. Samt læri ég ekkert vegna þess að tíminn er nægur. Ég get ekki lært nema undir pressu. Þegar ég hef slórað fram á fimmtudag og sé skyndilega að ég muni ekki komast yfir pensúmið, þá fer ég að læra. Þá loksins fer ég að meðtaka.
Hamingjan felst í heimskunni og e.t.v. er nám ekki annað en spilling. Með fróðleiksfýsn sinni fremur hinn óupplýsti spjöll á eigin sálu. Spjöll sem ekki verða bætt nema með skipulögðu niðurrifi rökhugsunar. Til að hefja andann upp úr mykjuhaug visku og fróðleiks er nauðsynlegt að gefa sig hinum röklausustu og dýrslegustu hvötum á vald. Sleppa af sér beislinu og gefa skít í skoðanir almennings þó ekki sé nema í eina kvöldstund.
Ég er að sjálfsögðu að tala um smákökubakstur. Ágætis hugarhreinsun í prófunum. Ætli ofninn í eldhúsinu mínu virki?
Ein leið til að komast að því
mánudagur, desember 15, 2003
Helgin hans Guðlaugs byrjaði á laufbrauðsútskurði á Sörló. Þangað mætti múgur af frændfólki og vinum til að spreyta sig á deiginu og dreypa á rjúkandi jólaglöggi. Þýðir hörpuhljómar í bakrunni. Ég skar út nokkrar hauskúpur og eitt hjarta með nafninu hans Tóta í miðjunni.
Svo var Saddam handsamaður og Keikó dó.
Andskotinn sjálfur steig úr loftsölum hugmyndanna niður á fasta grund.
þriðjudagur, desember 09, 2003
Blúbb.. Kallinn bara að koma úr prófi! Íslenskt mál að fornu, eða Íslinzk mal at forrnu einsog maður mundi segja ef maður væri holgóma. En ég er blessunarlega laus við slíkt, enda segir tannlæknirinn minn að ég hafi góma á við 5 ára telpuhnokka.
Hugsið ykkur!
Vel á minst, ég skulda tannlækninum mínum fúlgu fjár. Fer með gíróinn í bankann á ettir. Svo fer ég kannski bara heim og tek til í nýju íbúðinni minni. Eða fer að sofa. Ég vaknaði klukkan tíu í gærmorgun og síðan hef ég ekki sofið.
Andskotans próf.
Hvað græði ég á að læra um fornnorrænar sagnbeygingar eða frumindoevrópska nafnorðastofna? Svo fer ég í próf í setninga- og merkingarfræði í næstu viku og læri um stílfærslur og frestun þungs nafnliðar ogégveitekkihvað.
En nú þarf ég að klára nokkrar ritgerðir sem ég á að skila fyrir morgundaginn. Þrjár ritgerðir
...nei, ekki ritgerðir; smásögur!
Húrra!
föstudagur, desember 05, 2003
Próf próf próf. Ég var í prófi áðan og það gekk nú bara ekki illa. Nú þarf ég að fara að læra fyrir annað próf og ég þarf að vera ógisla duglegur ef ég á að ná því.
Stundum þegar maður fer til tannlæknis þá setur hann svona flúor á tennurnar manns og rukkar svo sjö þúsund krónur fyrir. Er það ekki bara peningaplokk? Af hverju getur maður ekki bara kaupt svona flúor og sett á sig sjálfur?
Ég ætla á kaffihús núna með Þorra og Tóta kúl.
...svo fer ég að læra maður! rólegur