Gundlungur bloggar heiminn
fimmtudagur, janúar 29, 2004
Nú nú, ég var semsagt staddur þarna úti á terrösunni með kampavínsglasið á lofti og í gáfulegum samræðum við hana Regínu. Haldiði að hann Höskuldur hafi ekki bara komið, einsog þruma úr heiðskýru haustloftinu, og sparkað í vinstri mjöðmina á mér.
Ég var auðvitað steinhissa yfir þessu öllu saman og bara vissi hreinlega ekkert hvaðan á mig stóð veðrið. Þá segir hann eitthvað að ég hafi verið að fleka konuna hans, sem er náttúrulega haugalygi.

Ég get svo svariða!

-- Skreif Gulli kl.12:44 -- 0 Komment


miðvikudagur, janúar 28, 2004
Mig verkjaði eitthvað í tána áðan þegar ég var að ganga á milli Bókhlöðunnar og Árnagarðs og allt í einu mundi ég pínulítið brot af draumnum mínum í nótt. Þá var ég einmitt að ganga eitthvað, nema hvað að ég var í of þröngum skóm og verkjaði þessvegna í tærnar.

Hvað skyldi það merkja?

-- Skreif Gulli kl.21:55 -- 0 Komment


Í gærmorgun, þegar ég fór í skólann, gleymdi ég töskunni minni heima. Ég bölvaði ofan í kaffibollann minn þegar ég uppgötvaði þetta og hljóp svo heim til að sækja helvítið.
Eftir skóla fór ég svo í mat til Dísu frænku, kenndi henni nokkur gítargrip og potaði í nýja barnið hennar sem gretti sig og hikstaði. Undarlegar skepnur svona börn.
Þegar ég kom heim sá ég að ég hafði aftur gleymt töskunni minni og í bræði minni hreytti ég ónotum í köttinn minn sem til allrar hamingju skildi ekki skammirnar og horfði á mig malandi.

Þessvegna fór ég töskulaus í skólann í morgun og uppgötvaði svo að ég átti ekkert að mæta í tíma í dag. Alltaf frí á miðvikudögum.

Ég er nú meiri kjáninn. /

-- Skreif Gulli kl.13:27 -- 0 Komment


þriðjudagur, janúar 27, 2004
Um daginn þegar ég var í bílnum hennar mömmu, einhverstaðar á milli punkts A og punkts B, heyrði ég fallegt lag á skonrokk. það var tema-lagið úr MASH þáttunum sem nutu óverðskuldaðra vinsælda einhverntíma í fyrndinni. Lagið er svosem ekkert sérstakt, nema hvað að í þessari útgáfu var það sungið af tveimur kvenmönnum og raddir þeirra voru svo eggjandi að ég skalf allur og svitnaði af kynferðislegri örvun.

Nú hef ég leitað að þessari útsetningu út um allt en finn hana hvergi.

Í tuttugu og fjögur ár hef ég flotið einsog olíubrák á hafsjó lífsins; svartur blettur á annars fagurgrænum fleti.
Svo heyrði ég þetta lag og í fimm mínútur varð ég að björtu báli.

Í fimm mínútur lifði ég.

Mitt eina takmark er nú að finna neistann sem kveikti í mér forðum..

-- Skreif Gulli kl.00:23 -- 0 Komment


mánudagur, janúar 26, 2004
Steinn hringdi í mig.. nei.. Ég hringdi í Stein. Steinn hringir aldrei í mig að fyrra bragði og líklega þykir honum það svolítið pirrandi hvað ég hringi mikið í hann. En hvað um það: Ég hringdi í Stein í dag, svona til að tékka hvað hann væri að sýsla. Hann var svosem ekki að gera neitt sérstakt og spurði hvort ég nenndi ekki að horfa með honum á friends í kvöld (við horfðum sko á alla níundu seríu í gærkveldi og hann á líka tíundu seríu inni á tölvunni sinni því hann er tölvuþrjótur). En ég þurfti að segja nei því ég á að vera að læra heima og getiði hvað: ég hef ekkert lært, bara setið og hlustað á tónlist og hitað mér te og farið á klóstið. Áðan fór ég meira að segja út í bílskúr og aftur inn, ekki til að sækja neitt, bara til að drepa tímann. Og nú er ég að skrifa á bloggið, sem ég hef ekki gert lengi.
Beats studying.

-- Skreif Gulli kl.23:05 -- 0 Komment


fimmtudagur, janúar 15, 2004
Ég er í skólanum. Það er ágætt, en ég þarf að fara í vinnuna eftir smá stund. Það er líka ágætt, nema hvað að tíminn á milli þess sem ég klára skólann og bíð eftir að mæta í vinnuna fer yfirleitt í vitleysu. En hvað er lífið svosem annað en fokkíng bið? Maður bíður eftir að skólinn sé búinn, svo bíður maður eftir að vinnan byrji og þegar vinnan er byrjuð bíður maður eftir að klukkan verði fimm svo maður geti farið heim til að bíða eftir kvöldmatnum. Ég er líka að bíða eftir að sumarið komi, eftir því að mér fari að vaxa skegg og að ég finni ástina. En það er hægt að koma mörgu í verk á meðan maður bíður. Núna er ég til dæmis að blogga.

Þar sem ég bloggaði ekkert allt jólafríið er best að ég fleyti rjóman af mjólk þeirra atburða sem óhjákvæmilega urðu á þessum tíma. Því lengri sem tímalínan er, þeimun fleiri verða atburðirnir. Það er lögmál en á því eru þó undantekningar í einstaklingstilvikum t.d. ef maður sefur í viku.
ALLAVEGA..

Jólin voru skemmtileg og ég fékk nammi og geisladiska í jólagjöf, og nasaháraplokkara frá Steini. Á milli jóla og nýjars réðst á mig illmenni og ber ég þess enn merki á hægra gagnauganu. Síðan kaupti ég enga flugelda á áramótunum og mun það vera í fyrsta skiptið sem ég geri það.. ekki, sko. Dísa frænka var bæði kasólétt og kvefuð á kveldi gamla ársins og reyndar langt fram á aðfaranótt þess nýja (ætli það megi segja það, aðfaranótt nýja ársins?). Þann þriðja janúar ól hún Ásdís svo stúlkubarn, fallega hært, hraustlegt og tannlaust. Ég, Þormóður og Tóti komum til að skoða barnið og gefa okkar samþykki á tilvist þess. Við úuðum og óuðum einsog Japanskir túristar þegar við sáum krílið og gátum ekki stillt okkur um að pota í það með löngum og beinaberum fingrum okkar. Barnið svaf á meðan.

Síðan byrjaði skólinn og hér er ég.

-- Skreif Gulli kl.13:27 -- 0 Komment


Ussss! Haldiði að Guðlaugur hafi ekki bara legið í veikindum síðustu daga og ekkert komist í fyrstu tímana í skólanum. Svo hefur hann ekkert nennt að skrifa á bloggið í langan tíma, næstum mánuð!

En hvað um það.
Í kvöld sný ég enn og aftur framhlið minni að skjánum og leyfi fingrunum að leika frjálsum um lyklaborðið. Engin ritskoðun í kvöld.

Í myrkviðum huga míns er örlítil ljóstýra, fölblá, sem flöktir þegar hallar af degi og næturhúmið þrengir að sálinni.
Ef haustgolan fær ekki kæft hana í kvöld er mér borgið.

Ef þið fengjuð heyftarlegt nefrennsli af rækjum, mynduð þið þá hafna rækjuforrétti í fínu matarboði hjá forsetanum og Dorrit?
Svarið í kommenterinn (krækjan hér fyrir neðan).


-- Skreif Gulli kl.02:20 -- 0 Komment