Gundlungur bloggar heiminn
sunnudagur, október 31, 2004
not in this lifetime babe, but we´ll cling together
somekind of heaven written
in your face


jájá. fallegar línur eftir hann Ian Anderson. minn að verða eitthvað mjúkur svona í þynnkunni. á þessari stundu sit ég á Prikinu og færi mér í nyt nýju tölvuna hennar Mörtu. ótrúlegt að hún skuli treysta mér fyrir þessum dýrgrip. [hér getið þið séð] hvað ég tek mig vel út fyrir framan tölvuna. Steinn tók myndina með símanum sínum og sms-aði á netið. mögnuð þessi tækni maður.

En þolinmæði Mörtu er á þrotum og hún er farin að toga í tölvuna sína.

-- Skreif Gulli kl.16:19 -- 0 Komment


föstudagur, október 29, 2004
Heyriði, þá er bara kominn föstudagur og helgin bíður okkar brosandi sínu blíðasta. Hvað ætlar þú að gera um helgina Guðlaugur? Ætlaru á fyllerí? Komdu á fyllerí Gulli, það verður geðveikt stuð!
Ég veit það ekki. Kannski.
Fyrst þarf ég að finna eddukvæði til að skrifa ritgerð um, redda mér Riddurum Hringstigans og byrja að skrifa kvikmyndahandrit.
Svo kannski einn bjór.
we weren´t lovers like that
and besides it would still be allright


-- Skreif Gulli kl.10:03 -- 0 Komment


fimmtudagur, október 28, 2004
halló krakkar. ég heiti gulli og ég get ekki blístrað í sturtu. ég held það sé ekki hægt. í nótt var ég staddur í skrifstofubyggingu þar sem naut ætlaði að stanga mig og ég reyndi að flýja með því að stökkva gegnum rúðu en rúðan brotnaði ekki. það var draumur. mig dreymdi líka annan draum sem hefur angrað mig svolítið í dag. ekki svona draumur sem maður segir frá held ég. bróðir minn á afmæli í dag. hann heitir Eldjárn og er tuttuguogeinsárs upprennandi lögfræðingur. ungur maður á uppleið. stærri en bróðir sinn og bráðum ríkari líka. þessvegna fær hann eina stóra stafinn í þessari færslu. en ég heiti gulli og ég hef aldrei fengið sinadrátt. ýkt heppinn.

p.s. spreytið ykkur á kvikmyndagetrauninni. hún er erfið, en verðlaunin eru í samræmi við það: pulsa með öllu og koss á augað.

-- Skreif Gulli kl.13:11 -- 0 Komment


sunnudagur, október 24, 2004
jamm. þá er helginni senn að ljúka og lífsins skyldur glotta til mín íbyggnar gegnum mistur ókominna daga. þokubakkar þess óorðna gusta kaldir um fætur mér og ég sigli stjórnlaust inn í hvítt tómið með hönd á brjósti. tirandi viprur um munnvikin og tár í augum.
lamb á leið til slátrunar.

mig langaði nú til að deila fleiru með ykkur en nú er verið að loka bókhlöðunni og húsvörðurinn stendur óþolinmóður fyrir aftan mig. komdu þér út segir hann.
farðu

-- Skreif Gulli kl.16:07 -- 0 Komment


þriðjudagur, október 19, 2004
jæja jæja. í dag komast börnin ekki í skólann fyrir verkfalli og þau fara örugglega ekki út að leika sér því þá mundu þau bara fjúka lönd og leið. líklega sitja þau bara heima hjá sér og fletta bókum. í dag eru öll börnin á landinu heima að blaða í gömlum skruddum.
það held ég.

ég hef svolitlar áhyggjur af heimiliskettinum, honum Jóni, sem er úti í óveðrinu núna. háaldrað eineygt kvikindi sem við fjölskyldan höfum átt í rúm tíu ár. hann má ekki vera inni að lesa á daginn því þá kúkar hann á gólfið. það er vegna þess að hann kemst ekki út til að ganga örna sinna í faðmi náttúrunnar einsog hverjum sómasamlegum ketti er eðlislægt. aumingja kallinn. sá hefur nú hlotið misjafnan byr í veraldarvolkinu og ekki laust við að lífsins ólgusjór hafi stöku sinnum keyrt hann í kaf. en honum tekst þó á einhvern undraverðan hátt að halda geðprýði sinni, þessi hetja. einstaklega geðprúður köttur, hann Jón. hegðar sér eins og engill bara.
jájá. það er kannski ekki mikið gagn í honum ræflinum en hann er sosum ekkert fyrir okkur heldur.
það má hann eiga.

-- Skreif Gulli kl.11:27 -- 0 Komment


fimmtudagur, október 14, 2004

Ó, vetursins angurværð vefðu mig örmunum þínum
því vonskunnar náttmyrkur leggst yfir hjartað mitt unga
Þótt haustlaufin döpur af himnunum falli með þunga
þú hlærð hverja nótt, eins og ungbarn í draumunum mínum


jájá. Svona haustljóð í tilefni árstíðarinnar skiljiði. Og hver er það sem hlær svona einsog ungbarn í drumunum þínum Guðlaugur, spyrjið þið. Ætli það sé ekki bara hann Tóti. Nei, ég veit.. Finnur Pálmi! Hann hlær einsog ungbarn, er það ekki?
..annaðhvort hann eða Tóti. Ég veit það ekki.

En ég er nú bara svona að reyna að halda tempóinu í bloggfærslunum. Búinn að vera duglegur uppá síðkastið. Duglegri en vanalega allavega. Duglegur Guðlaugur. Guðlaugur duglegur. Hugleikur Guðlaugur... og Finnur Pálmi.
Sjitt, ég get ekki verið alvarlegur í meira en tvær setningar.

-- Skreif Gulli kl.10:40 -- 0 Komment


miðvikudagur, október 13, 2004
Ég hafði ekki undan að stroka sníkjukrækjur út úr helvítis gestabókinni svo ég setti inn nýtt kommentakerfi. Hinar siðlausu auglýsingaaðferðir internetsins hafa sett alvarlegar hömlur á getu einstaklingsins til að tjá sig í gestabókina mína.. og annarra.

Ég og Steinn fórum á fætur eldsnemma í morgunn og sóttum hann Þormóð frænda á BSÍ. Hann var að koma úr tónleikaferðalagi, blessaður drengurinn, og hafði margar sögur að segja. Það voru mest sögur um dóp og smygl, uppáferðir og slagsmál en svo sagði hann okkur líka sögu um konu sem vaknaði minnislaus á lestarstöð og þurfti að ferðast um alla Evrópu í leit að syni sínum sem hún mundi ekki eftir. Það var falleg saga.

-- Skreif Gulli kl.11:14 -- 0 Komment


þriðjudagur, október 12, 2004
á þriðjudögum er ég í skólanum frá kl.8 til 18 en frá tíu til þrjú er ég í stóru gati sem réttast væri að nota til að læra. Það geri ég þó sjaldnast. Í dag nýtti ég frítímann með því að fara í bankann á Skólavörðustíg og taka út orlofið mitt. Ég var nefnilega orðinn blankur fyrir tíunda og sá ekki fram á að geta tórað kaffilaus í skólanum í tuttugu daga. Svona er nú komið fyrir manni.
Til að halda upp á þetta nýfengna fé ákvað ég að setjast á Kaffibarinn og innbyrða svolítið koffín. Þar hitti ég fyrir hann Örn frænda minn og varð hvor öðrum feginn.
Við vorum niðursokknir í spennandi rökræður um andleg málefni þegar hjá okkur settist breskur auðkýfingur, George að nafni, og vildi ólmur blanda sér í samræðurnar. Við vorum ofurlítið feimnir við þennan ókunna mann til að byrja með enn hann reyndist vera hinn ágætasti fír og við slóum saman á létta strengi eins og [þessi] mynd ber vitni um.

-- Skreif Gulli kl.14:19 -- 0 Komment


föstudagur, október 08, 2004
Ég var nýbúinn að bæta Kötu í tengin mín og þá fær hún sér bara nýja bloggsíðu, með kommentakerfi og öllu tilheyrandi. Skoðiði bara sjálf!

-- Skreif Gulli kl.13:35 -- 0 Komment


If Barbie was a real woman, she'd have to walk on all fours due to her proportions.


Ég held áfram að fleyta kerlingar á lífsins vatni og nú er aftur kominn föstudagur. Ég ætla að tileinka þessa færslu honum Tóta sem átti afmæli í gær og þakka um leið fyrir skemmtilega afmælisveislu. Þeir taki það til sín sem eiga.

Í tilefni gærdagsins héldum við nefnilega eilítið matarboð heima hjá Þórunni og Pésa, nokkrir krakkar. Þar var drukkið og skrafað og farið í samkvæmisleiki. Flugvélaleikurinn endaði að vísu fremur illa; Gunnhildur fleygði sér á rafmagnsorgel, úr nokkurri hæð og með bundið fyrir augun. Þetta gerði hún í fullkomnu trausti á okkur, sem eigum að heita vinir hennar. Hún marðist svolítið á höndum og baki og fékk slæmt högg á nefið, en hló svo bara að öllu saman og lét sem hún sæi ekki blóðið sem seytlaði yfir fötin hennar og niður á gólf;
heitir lækir úr holdsins iðrum.


-- Skreif Gulli kl.10:30 -- 0 Komment


miðvikudagur, október 06, 2004
Í bókmenntafræðitíma hér áðan var nemandi sem talaði fjálglega um það hversu uppteknir við íslendingar værum af dauðanum. Að við hlustuðum á dánarfregnir og læsum minningargreinar okkur til skemmtunar. Mættum jafnvel á jarðarfarir ókunnugra, svona af því við fílum prestinn eða orgelleikarann.

Máli sínu til stuðnings varpaði hann fram þessari fullyrðingu:
Á meðan stúlkurnar í USA hafa skipulagt brúðkaup sitt áður en þær finna sér maka hafa sprundin íslensku ákveðið sitt útfararstef löngu áður þær kenna síns dauðameins.

Ekki skal ég dæma um sannleik þessarar fullyrðingar enda allskostar ófær um að setja mig í konunnar spor eða ganga í hennar smáu skóm. Hvað þá að feta í þeim flókna krákustíga kvenlegra duttlunga.

..en ég veit hvaða lag verður í jarðaförinni minni.

-- Skreif Gulli kl.13:53 -- 0 Komment