Gundlungur bloggar heiminn
þriðjudagur, nóvember 30, 2004
jæja. ég setti hérna eina fallega mynd til að gefa því lit, þessu annars litlausa bloggi. Bangsímon og svínið, hvað það nú heitir aftur.. man það ekki.
rosa fínt, nei?

-- Skreif Gulli kl.16:49 -- 0 Komment


sunnudagur, nóvember 28, 2004
Það voru nokkurskonar litlu-jól heima á Sörlaskjólinu í gær. Þangað mætti fríður flokkur fólks í mat klukkan sjö, þ.á.m. Knútur nokkur. Ég hef aldrei hitt þann mann, en að sögn foreldra minna er hann merkilegur fyrir það að kunna Dýrin í Hálsaskógi utanbókar. Hann var ekkert að básúna þeirri kunnáttu í matarboðinu og mér sýndist þetta vera ósköp venjulegur gaur. Örlítið lægri en meðalmaður á hæð, karlmannlegur í vextinum, alskeggjaður með lítil gleraugu. Upplitsdjarfur, góðlegur og glaðlegur með miðlungsdjúpa rödd og ákaflega skýran framburð; norðlenskan. Eflaust góður kvæðamaður.
Auk hans komu Imba, Ragnar, Ingunn og Áskell, en þau eiga allir að þekkja.
Móðir mín hafði margt brallað í eldhúsinu yfir daginn og nú voru afköstin borin í gestina. Rjúkandi pokabaunir og heimabakað brauð í forrétt og auðvitað var brennivínsflaskan tekin úr frystinum til hátíðabrigða. Taðreykt hangikjötslæri úr skagafirðinum hafði hún soðið í potti og til að auka enn á fjölbreytnina var með þessu annað afbrigði hangikjöts, frá Sláturfélagi Suðurlands, borið fram kalt. Kartöflur í uppstúfi, rauðkál og upphitaðar grænar baunir. Kalifornískt rauðvín, íslenskur bjór, malt og brennivín. Vituð ér enn -eða hvað?

-- Skreif Gulli kl.16:30 -- 0 Komment


föstudagur, nóvember 26, 2004
Mér finnst ég vera padda. Ástigin padda sem liggur hálf undir riffluðu skófari milli grárra tyggjóklessa. Framparturinn í maski og um brotna skelina leka iðrin niður á stéttina en afturfæturnir pata aumlega út í loftið; ég lifi enn þrátt fyrir lemstrið.
Djöfull.

Það er semsagt föstudagur í dag. Sumsé. Ólíklegt samt að verði fastað. Kraptakvöld íslenskunema í kvöld. Ég mæti af skyldurækni, þó mínir kraptar séu eiginlega á þrotum. Við skulum sjá hvort ég hressist ekki þegar líður á kvöldið. Ég er þessa stundina staddur á dalsbotni minnar andlegu lægðar. Það er táradalurinn. Fegurstur allra dala.

-- Skreif Gulli kl.10:21 -- 0 Komment


miðvikudagur, nóvember 24, 2004
Hæ. Ég heiti Guðlaugur og mér er illt í tánni. Ég held það séu skórnir mínir.
Hið talaða orð er ekki fært um að lýsa af nákvæmni gærdeginum eins og ég upplifði hann, og ritmálið þar af leiðandi ekki heldur, enda ætla ég ekki að gera neina tilraun til þess hér. Ég mun hlífa ykkur við því. Hinsvegar ætla ég að telja upp nokkra hluti sem ég tel til óþurftar:
Þróunarkenningin, velferðarkerfi, jafnrétti kynjanna og hjónabönd samkynhneigðra
..og fólk af öðrum kynstofni. Siek Heil! Vote Bush!

-- Skreif Gulli kl.10:06 -- 0 Komment


mánudagur, nóvember 22, 2004
What is love, baby don´t hurt me, don´t hurt me no more. aíaíaíaía. Svona söng hann Haddaway kallinn einusinni og svo skíðaði hann í Ölpunum með henni Kötu vinkonu. Þessari sömu Kötu var ég einmitt að hjálpa áðan með tölvuna sína. Þannig tengjumst ég og Haddaway. Stuttu síðar skutlaði ég Þormóði frænda mínum á Bókhlöðuna, en hann horfði einusinni á Pet Semetary með Björk Guðmundsdóttur. Tóta frænka hitti Harrison Ford á Laugaveginum um daginn og sjálfur sá ég glitta í Forest Whitaker á Sirkus, fyrir ekki ýkja löngu síðan. Það sama kvöld réðust á mig þrír sjómenn.

Kvöldið sem nú var að líða skartaði þó hvorki sjómönnum né frægu fólki. Hinsvegar fékk ég fyrirtaks kvöldverð hjá þeim sambýlingum Steini Þorkeli og Unni Eddu. Það var Unnur sem eldaði og fær hún plús í kladdann fyrir sína afbragðsgóðu hnetusósu. Steinn fær stjörnu fyrir að vera þessi vel heppnaða blanda af ljúfmenni og rudda sem hann er.

-- Skreif Gulli kl.23:10 -- 0 Komment


laugardagur, nóvember 20, 2004
sæll guðlaugur, þetta er hún Dísa frænka þín, sagði röddin í símanum. ég er hérna á vínsmökkun og við hjónin orðin húrrandi full bara, krakkinn í pössun og svona. nú komum við og finnum þig og svo förum við á ærlegt skrall.
allt í lagi, hvíslaði ég í tólið. þurkaði síðan svitadropa ef enninu og dæsti. það lítur út fyrir að kallinn verði að fara á fyllerí núna..
betra en að tábrotna býst ég við.

-- Skreif Gulli kl.20:00 -- 0 Komment


föstudagur, nóvember 19, 2004
Ég ætla að bæta örlitlu við þessa færslu, sem er frá um tíu í morgun. núna er klukkan 12:50, þótt tölurnar að neðan segi annað. sögufölsun? jújú, það veit ég, en sagan er hvort eð er ekkert nema viðbjóðslegt fals.
Vildi bara svona koma þessu á framfæri. Það var víst ekki fleira.

Svo eru það bara upplýsingarnar frá í morgun:

Ég minni á að á morgun, laugardaginn 20.nóvember, kl.16-18 verður listasýning í Gellerí Tukt. Þar verða verk eftir Guðlaug Jón, Tinnu Ævarsdóttur, Þránd Þórarinsson og fleiri listamenn. Galleríið er í Hinu Húsinu á Pósthússtræti, þar sem pósthúsið var eittsinn. Komiði og skoðiði. Þar verðum við. Þar verður listin. Þar verður gaman.

-- Skreif Gulli kl.10:01 -- 0 Komment


fimmtudagur, nóvember 18, 2004
og pósturinn gengur í gulum jakka
með grænan hálsklút og í rauðum frakka
og anzar þegar ég spyr hvort hann eigi krakka:
jú eitt barn á dag ? brúnt á litinn


allavega. ég svaf yfir mig í morgun og missti þar með af tveimur klst. með Ármanni Jakobssyni, þeim mæta manni. engin kaldhæðni neitt. hann er mjög fínn. þannig að ég hef bara setið hér heima, með Megas í græjunum og reynt að planleggja daginn. margt að gera sko.
fáu frá að segja.
æ, ég sé ég er orðinn seinn í vinnuna. fokk. bæ.
fokkbæ

-- Skreif Gulli kl.13:29 -- 0 Komment


miðvikudagur, nóvember 17, 2004
er það óttinn sem lekur eins og skömm af lærum þínum?
ég fór á Stúdentakjallarann í gær í tilefni íslensk-tungu dagsins og hlustaði á valinkunn skáld flytja sögur og ljóð. það var ekki leiðinlegt, en hefði getað verið skemmtilegra, hefði ég t.d. verið vel sofinn og andlega hress. ég var meira svona til baka og tók ekki virkan þátt í samræðunum í kringum mig. potaði kannski inn einni og einni athugasemd þegar þögnin var í þann mund að koma upp um mig, eða hóstaði upp andsvari þegar orðum var beint að mér.

hve oft leyndist strengur í brjósti sem brast
við biturt andsvar gefið án saka?

í dag er ég í gati frá tíu til eitt og veit ekkert hvað ég á við tímann að gera, sem er svolítið skrýtið. ég man ekki eftir að hafa lent í því áður. kannski ég skokki niður í bæ. kaupi mér riffil.
Jeff Who í kvöld, Mugison á morgun, vísindaferð á föstudag og listasýning laugardag. Ég þarf að gera verk fyrir listasýninguna og skiiil ekki hvar ég get stolið mér tíma í það.
jú, tíminn er núna. láttu ekki slá þínu lífi á frest, heldur lifðu því nú, það er best.

-- Skreif Gulli kl.11:23 -- 0 Komment


þriðjudagur, nóvember 16, 2004
jussu jussu. í dag er dagur íslenskrar tungu og Jónas Hallgrímsson og Marta eiga afmæli. húrra fyrir þeim. svo skrópuðu kennararnir í skólanum í dag og í gær og Old Dirty Bastard varð bráðkvaddur. ég hlustaði nú lítið á hann hvort eð er.

minn fór á bíó á sunnudaginn var. sá myndina The Grudge með Söru Michelle Gellar. það var svo sannarlega óhugnarleg mynd. ég varð alveg skíthræddur en hann Bergur frændi, hann varð ennþá hræddari. hann bókstaflega æpti af hræðslu í nokkrum atriðunum. það voru svona djúpróma og karlmannleg öskur, meira eins og sársaukastunur. nú hlæ ég þegar ég hugsa um ópin þau.

-- Skreif Gulli kl.20:16 -- 0 Komment


þriðjudagur, nóvember 09, 2004
Bókhlaðan.
Sit og rembist eins og rjúpa við að skrifa ritgerð sem á að vera 8-10 bls. Ég er ekki búinn með hálfa síðu og skilafrestur rennur út á morgun.
Sveiattan!

Lifi ég af þessa viku fer ég á ærlegt fyllerí.
Drekk mig í drasl.

-- Skreif Gulli kl.19:37 -- 0 Komment


mánudagur, nóvember 08, 2004
jæja krakkar. Það fór nú betur en á horfðist með þessa helgi. Þið sjáið á færslunni hér að neðan að hún lofaði ekki góðu, það er færslunni frá því á laugardaginn. Þá vældi ég slippur og snauður yfir ástandinu og eygði ekki ljósglætu í myrkri minna viðbjóðslegu blankheita.
Þetta var áður en ég fór að tengja hugtökin sannir vinir og velgjörðarmenn við ákveðna aðilla innan félagahópsins. (Ég er hér að tala um Stein og Mörtu. Megi þau lengi lifa!)
Víst er það niðurlægjandi að taka við ölmussu frá vinum sínum en nú hafa yfirmenn bankanna fengið að heyra það. Mín fjármál voru endurskoðuð og mér mun brátt bættur sá skaði sem mistök þessara fyrirtækja ollu minni hugarró. Það mun reynast þeim háu herrum dýrkeypt að hræra í fjármálum Guðlaugs að honum forspurðum. Hausar munu fá að fjúka, því var mér lofað.
Það er siðferðileg skylda þeirra sem ábyrgðina bera að segja upp störfum hið snarasta.

Nóg um það. Steini og Mörtu mun ég launa ríkulega og svo þarf ég að borga henni mömmu, því hún lánaði mér pening fyrir skóm. Það er henni að þakka að í dag er ég þurr í fæturna. Takk mamma.
..og lesi hún þessi mín orð, þar sem finnast mun eigi
sú lína sem hún ekki kveikti mig grunar hún segi:
Hver mun þessi kona?
og kannist ekki við neitt
..jújú. Hún mamma hlýtur nú að átta sig á því.

-- Skreif Gulli kl.10:11 -- 0 Komment


laugardagur, nóvember 06, 2004
Konungsríki mitt fyrir snefil af einbeitingu!

Sama og ekkert hefi ég skrifað en þó hef ég setið hér á bókhlöðunni frá því eldsnemma í morgun. Eirðarleysið er að drepa mig og nú ætla ég að flýja niður í bæ. Kíkja á Asíu með Steini.

Bankinn tók af mér yfirdráttinn, helvískur. Einhver gjaldkerinn hefur misskilið mig, og nú á ég engan pening. Útibúið mitt lokað og ekkert hægt að gera fyrr en á mánudaginn. Steinn verður að lána mér fyrir eggnúðlum og ég verð að ganga í götóttum skóm í viku í viðbót. Planið var nefnilega að kaupa skó í Kolaportinu þessa helgi.

Deyið, skilningssljóu gjaldkerar þessa heims!

-- Skreif Gulli kl.16:36 -- 0 Komment


föstudagur, nóvember 05, 2004
fuck yourself motherfucker sagði ég við tölvu mína núna áðan afþví að ég var búinn að skrifa hér langa og fagurlega orðaða færslu sem týndist einhverstaðar í gagnaflækjum veraldarvefsins og ég sá mig því tilneyddan til að byrja upp á nýtt að rekja garnirnar úr sjálfum mér. af hverju er ég annars að þessu? það sem ég skrifaði áðan var betra. sú færsla var einlæg og laus við alla málskrúð. sönn. svo týnist hún og ég skrifa þessa vitleysu hér í staðinn. kannski er þetta það eina sem gengur ofan í netið. samhengislaust bull. það fúlsar við sannleikanum en sporðrennir kjaftæðinu einsog smurðri pylsu. fokkin netið. fuck your fucking mothercunt.
afsakið.

-- Skreif Gulli kl.23:32 -- 0 Komment


miðvikudagur, nóvember 03, 2004
hæ, ég er lambið. þvoist í blóði mínu og yður mun hlotnast hamingja. ó hvílík gleði að baðast í blóði lambsins.

Andlegt kvalræði gærdagsins ól af sér óljósa hugmynd af litlu handriti sem ég las svo í tíma, munúðarfullri röddu og bekkurinn hlustaði með andakt. Að lestrinum loknum leit ég kvíðinn á kennarann. Af ásýnd hans og augnarráði las ég eftirfarandi: Þú slappst með skrekkinn í þetta skiptið Guðlaugur, en þess verður ekki langt að bíða að þú takir feilspor á þverhnýptu einstigi menntavegsins og þá mun ég sjá til þess að þú hrapir niður í svaðið.
Þar með var þungu fargi létt af herðum mínum og ég gat með góðri samvisku eitt kvöldinu í öldrykkju og ómerkilegt skraf með vinum mínum.

æi, annars hef ég ekki mörgu að segja frá. Jú! Ég er að fara til Amsterdam yfir jólin. Þar bíður hann Hjörtur eftir mér með opinn faðminn og tár í augum.
..kannski sultardropa á nefinu og slef úr munnvikunum, svona til að bæta á tilfinningahitann.
Við sjáumst bráðum Hjörtur minn. Ég hlakka svo til.

-- Skreif Gulli kl.11:11 -- 0 Komment


þriðjudagur, nóvember 02, 2004
Þar sem ég sit nú og stari í mislitar díóður tölvuskjásins leyfi ég huganum að reika frjálsum um óravíddir draumheimsins í veikri von um að rekast þar á eitthvert haldfesti, e.t.v. í formi hugmyndar að handriti því einu slíku þarf ég að unga út úr minni ófrjóu sköpunargáfu í dag ellegar sætta mig við eilífa útlegð úr hinu akademíska samfélagi, í hverju ég lifi og hrærist með Damóklesarsverðið hangandi yfir mér öllum stundum, skjálfandi eins og rottan sem ég er af hræðslu við að mitt sanna eðli verði brátt öllum ljóst og ég ausinn fúkyrðum, flettur klæðum, yfirskyrptur og rekinn nakinn og hrákablautur út á frostharðan vinnumarkaðinn, vanmenntaður og óhæfur um að inna af hendi eitt ærlegt handtak.

Biðjið fyrir mér. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

-- Skreif Gulli kl.11:03 -- 0 Komment