þriðjudagur, desember 28, 2004
Jájá og húrra og jólin eru nú alveg hreint ágæt í Amsterdam. Og meira en það. Frábær held ég bara. Hér flæðir allt í dópi og hórkonum og hér er hann Mózes sjálfur, handbendi djöfulsins, sendur úr neðra til að leiða okkur sakleysingjana í freistni. Megi það mistakast. Mózes er nefnilega undirheima-illmenni sem sýslar með dóp og listmuni (
hér er heimasíðan hans). Við kynntumst honum á einhverju bölvuðu skralli.
Annars hefur bara verið undur huggulegt hjá okkur í spillingaborginni.
Hér getið þið skoðað myndir.
laugardagur, desember 18, 2004
já já. ég kláraði semsagt helvítis prófin. síðan þá hef ég verið undir áhrifum. mér þykir áfengisvíman ekkert sérstök, en hún er skárri en andskotans hversdagsleikinn. þessvegna er ég fullur. ég á að vísu eftir að skila af mér einu handriti en ég er að spá í að sleppa því bara. annars sagði stjörnuspáin að ég yrði rosalega duglegur á morgunn. ég sé það ekki gerast.
ég er núna heima hjá steini sötrandi bjór og í tövunni. Belle og Sebastian í græjunum. Steinn og Tóti sitja inni í næsta herbergi og gegnum dillandi tónlistina heyri ég þá skrafa í hálfum hljóðum. það er ógerningur að greina orðaskil, en mig grunar að þeir séu að tala um mig, strákarnir. það er eitthvað svo alvarlegur tónn í þeim. kannski eru þeir að ræða það hvernig best sé að losna við mig úr húsinu. ég kom fullur og óboðinn. ruddist bara inn með bjórinn minn og settist við tölvuna. setti tónlist á fóninn. ef þeir biðja mig að fara ætla ég að verða alveg brjálaður. öskra og brjóta eitthvað.
þannig gerir fullt fólk.
föstudagur, desember 10, 2004
prófprófpróf. það verður seint að ég sé duglegur námsmaður, en þessi önn slær allt út. það er allt í steik. en ef ég klára færeyskuverkefni og 18-20 síðna stuttmyndahandrit í dag, þá hef ég tvo daga til að frumlesa fyrir næsta próf. jájá. það hlýtur að hafast.
en þá verð ég líka að læra.
setti inn mynd af Míu litlu eins og þið sjáið. hún er aðeins svalari en hann Bangsímon. svo er líka ný kvikmyndagetraun. eitthvað fyrir alla trallallallalla..
miðvikudagur, desember 01, 2004
ég arkaði glaður í bankann minn í dag. skellti Vísakorti á borðið og sagði: "jæja, nú vil ég taka út 30þúsund krónur til að borga honum Steini frænda!".
gjaldkerinn hristi höfuðið, skellti í góm og svaraði: "þú getur ekki tekið út meira en 15þúsund krónur á sólarhring vinur minn. það mun því taka þig
þrjá daga að borga frænda þínum, og fyrst þú ert ekki með PIN númer þarftu að gera þér ferð í útibúið á Seltjarnarnesi fyrir klukkan fjögur
þrjá daga í röð og þar sem þú átt ekki bíl mun þetta kosta þig u.þ.b.
sex klukkutíma af lífi þínu. klukkutíma sem hefðu getað farið í bóklestur". síðan tróð hann upp í sig nokkrum gíróseðlum og stakk penna á kaf í hálsinn á sér.
ég veit ekki hvort það var blóðmissirinn eða súrefnisleysið sem að lokum friðuðu hinn ógæfusama gjaldkera en tel að hann hafði breytt rétt. í þessu bjúrókrasíu helvíti sem við lifum í er leiðin út hin eina rétta leið.