Gundlungur bloggar heiminn
laugardagur, febrúar 26, 2005
það er kannski langt í það, en einn daginn ætla ég að gefa út geisladisk. svona tónlistardisk með lögum eftir mig. það verður góður diskur. svo góður að hver sá sem á hann hlustar mun fella tár og rugga sér í lendunum. kannski smella fingrum í leiðinni og hugsa einhverjar háleitar hugsanir. hugsanir sem hverfa munu í gleymsku jafnskjótt og þær urðu til.

allavega. eitt lagið á að heita ég datt og meiddi mig. annað á að heita er læknir í vélinni?

en þetta er nú bara hugmynd í vinnslu eins og er.

ég staddur í veislu hjá steini hálffrænda því hann er orðinn tuttuguogátta ára gamall og er að halda veislu af því tilefni. twenty fuckin eight. strákurinn. jájá.

þegar tregans fingurgómar
styðja þungt á strenginn rauða

mun ég eiga hann að brosi

-- Skreif Gulli kl.21:09 -- 0 Komment


föstudagur, febrúar 18, 2005
föstudagur. þegar ég var búinn í skólanum fór ég með Kötu í bæinn. skoðaði búðir og kaffihús. núna er ég að stelast til að blogga í vinnunni. það er vísindaferð á eftir, klukkan hálf fimm, og þegar ég er búinn í henni ætla ég að skjögra heim til Kidda og hitta þar nokkra félaga mína úr MH. drekka með þeim barmafulla skál sælla minninga liðinna tíma. næst á dagskránni er svo að hitta Tinnu vinkonu og drekka henni til samlætis. það er orðið langt síðan við sprelluðum saman, við Tinna. eftir alla þessa drykkju býst ég fastlega við því að vínandinn taki við stjórninni og leiði mig inn í tómið. hvar ég vakna svo veit enginn nema... jah, það veit það bara enginn.

-- Skreif Gulli kl.13:59 -- 0 Komment


við erum eins og ljóð eftir algjöran byrjanda
það er innra ósæmræmi, hrynjandin brotin
þannig er ást okkar og endar ofan í skúffu

eins og ljóð eftir algjöran byrjanda
eins og ljóð sem endar ofan í skúffu

Guðjón Rúdolf er soldið skemmtilegur kall og ég ætla að kaupa diskinn hans.

-- Skreif Gulli kl.10:52 -- 0 Komment


fimmtudagur, febrúar 17, 2005
trallalallalaa. nú er ég búinn í skólanum og búinn í vinnunni og sestur í Árnagarð að fikta í tölvunum því ég veit ekki hvað ég á að gera við sjálfan mig. ég svaf yfir mig í dag og skrópaði í tíma og í vinnunni var ég næstum búinn að hella sjóðheitu kaffi yfir lítið barn. nei, stálpað barn myndi ég segja. sjö ára stelpuskjátu, stóra og feita. hún hljóp á mig rétt áður en ég náði að bæta mjólk út í kaffið svo það var enn við suðumark er það skvettist úr bollanum. hún slapp þó við slæman bruna því glundrið fór blessunarlega allt yfir mig. það var ekkert þægilegt. illskárra en að klemma sig á bílhurð samt, svo ég bregði fyrir mig hinni alkunnu Pollíönnusálfræði.
ég er svo glaður að ég klemmdi mig ekki á bílhurð í dag.

dagurinn er ekki liðinn enn, Guðlaugur, hvíslar Vábeiðan og kyssir mig á munninn.

-- Skreif Gulli kl.17:48 -- 0 Komment


þriðjudagur, febrúar 15, 2005
hlýði á mig allir þeir sem upplifað hafa sanna gleði.
bergið með mér af sorgarinnar botnlausa kaleik.

ég sit á bókhlöðunni en hefur lítið orðið úr verki. gömul saga og ný. Steinn hringdi í mig áðan til þess að tilkynna mér að íbúðin sem hann leigði síðasta sumar væri brátt aftur laus. ef þig vantar íbúð, Gulli minn, sagði hann, getur þú leigt hana fyrir lítið fé. ég spurði hvern andskotann ég ætti að gera með íbúð, búandi hjá foreldrum sem elda ofan í mig endurgjaldslaust á hverjum degi. síðan skellti ég á.

Kata, sem sat við hliðina á mér meðan á samtalinu stóð, varð áhugasöm þegar hún heyrði minnst á íbúð og tók að spyrja mig nærgöngula spurninga um leiguverð og fleira. kemur í ljós að hún þráir ekkert heitar en að flytja í Þingholtin (þar er íbúðin) með Gulla vini sínum og með nokkrum stuttum og hnitmiðuðum rökfærslum tókst henni að sannfæra mig um að Gulli þráir ekkert heitar að búa þar með henni. á örskotsstundu höfðum við planlagt þessa sambúð okkar og meira að segja gert fjárhagsáætlun, ákveðið hvernig við skyldum skipta íbúðinni og hver ætti að vaska upp hvaða dag. framtíðin, sem fram að þessu hafði í huga mér verið sem myrkvaður gangur í mannlausm kjallara, tók nú á sig nýja og bjartari mynd. komandi sumardagar birtust mér í draumkenndri móðu, myndir af mér og Kötu að grilla úti á svölum; að versla brauð í bakaríinu. allt var þetta farið að líta óskaplega vel út og Kata hringdi í Stein til að segja honum að við skyldum taka hans kostaboði. en skyndilega mundi hún eftir köttunum sínum, tveimur skítugum kvikindum sem tekist hefur að leggjast yfir hana Kötu litlu eins og ólæknandi pest. Kettir eru ekki velkomnir í Þingholtin, a.m.k. ekki í téða íbúð.

Þar með hvarf vonin um gleðilegt sumar. draumurinn um betri tíð étinn upp af þessum viðbjóðslegu læðum.

góðar stundir.

-- Skreif Gulli kl.15:59 -- 0 Komment


miðvikudagur, febrúar 09, 2005
will yo stay with me, will you be my love segir Eva Cassidy af því hún er að syngja Fílds of góld eftir Sting, sjálfan byssustinginn, eins og pabbi var vanur að kalla hann. Neih! minn barað hlustá sjálfan byssustinginn sagði hann ef ég var að spila pólís inni í herbergi. svo klappaði hann mér kannski á bakið, kláraði úr pilsnernum og hrækti á gólfið.

hann pabbi er doktor í jarðfræði.

talandi um það.. kötturinn minn er eitthvað veikur í dag. ég held hann sé stíflaður. hann er sífellt að reyna að kúka í sandinn sinn en ekkert gerist. ég hef horft upp á hverja misheppnaða tilraunina á fætur annarri og að lokum fór ég sjálfur og gekk örna minna. ég er svo déskoti meðvirkur.
kettinum skánaði ekki við það.

-- Skreif Gulli kl.18:34 -- 0 Komment


mánudagur, febrúar 07, 2005
jamm og jæja. ágætis helgi bara, þessi nýliðna. vísindaferð á föstudaginn og vinnupartí á laugardaginn. svo bara huggulegheit inn á milli. á þessari stundu er ég staddur í vinnunni og er eiginlega að stelast til að blogga. ef yfirmaður minn sér til mín mun hún slá mig utanundir og sparka í sköflunginn á mér. ég þekki hennar stjórnunaraðferðir.

-- Skreif Gulli kl.13:45 -- 0 Komment


miðvikudagur, febrúar 02, 2005
í dag er ég draghaltur. haltur sem drag. ég nefnilega slasaði mig í fimleikum á mánudaginn. tók eitthvert dauðahopp á trampólínunni og klakk! fóturinn snérist í hálfhring undir mér og ég hrundi organdi í gólfið. eftir u.þ.b. eina mínútu var sársaukinn svo algerlega horfinn. ég gat meira að segja staðið í fótinn án teljandi vandræða. það var ljóst að meiðslin voru ekki alvarleg og ég dauðskammaðist mín fyrir að hafa hljóðað svona eins og ungabarn. hinsvegar varð ég himinlifandi þegar ég vaknaði daginn eftir og gat ekki gengið.
það má segja að heltan hafi bjargað mannorði mínu; ég er karlmenni og ég æpi ekki eins og aumingi út af engu. nei, ég æpti eins og aumingi því ég tognaði.

-- Skreif Gulli kl.10:04 -- 0 Komment


þriðjudagur, febrúar 01, 2005
bókhlaðan. musteri kaffidrykkju og framtaksleysis. þar sit ég horfi girndaraugum á nokkrar þrýstnar stúdínur sem flissa saman yfir einhverju hagfræðiverkefni. ein þeirra skáskýtur augunum til mín, roðnar og strýkur hendi gegnum þykkt hárið. hún hefur stórt ör á hálsinum sem mér sýnist að sé eftir hundsbit. ég hef ekki lesið staf í dag. mig langar í útilegu. mig langar í kaffi. tíminn heldur áfram að hlaða klukkustundunum ofan á valtan turn ævi minnar.

-- Skreif Gulli kl.14:55 -- 0 Komment