Gundlungur bloggar heiminn
fimmtudagur, mars 31, 2005
Ég held ég sé að ganga gegnum annað gelgjuskeið. Númer tvö. Hljómar kannski furðulega, en staðreyndirnar tala sínu máli, einkennin eru til staðar, jafnt andleg sem líkamleg. Hvað á ég að gera?

Ég verð víst bara að bíða og njóta ávaxtanna. Bráðum verð ég fullþroska karlmaður. Húrra!

-- Skreif Gulli kl.13:07 -- 0 Komment


þriðjudagur, mars 29, 2005
voðalega get ég bullað á þetta blogg. þeir sem þekkja mig ekki halda ábyggilega ég sé fábjáni. það er ég ekki. sjálfur trúi ég því að minnsta kosti að ég sé skarpskyggn yfir meðallagi, og ég veit ég er víðlesnari en Guðni Kolbeinsson, það sagði hann mér sjálfur. ég er hinsvegar bæði fordómafullur og svifaseinn. óframfærinn, fíknsækinn og þrætugjarn. ég slæ mönnum sjaldan gullhamra, gleymi afmælisdögum og hreyfi mig undarlega, sumir segja laumulega, er flóttalegur til augnanna og frussa þegar mér rennur í skap. ég tel þetta upp svo að allir geti séð að mín bloggsíða er ekki vetvangur sjálfsupphafningar eða -runkunar, eins og frændi minn Þormóður heldur fram með uppgerðar-spekingssvip þegar hann veit að margir heyra til. þvert á móti. á þessum síðum dreg ég sjálfan mig í svaðið. viðra mína galla og básúna minn breiskleika með tilheyrandi stafsetningar- og málfarsvillum sem enn frekar undirstrika þá staðreynd að ég er aðeins mennskur eins og þið, ef ekki mennskari.

-- Skreif Gulli kl.18:33 -- 0 Komment


Nú nú. Þá er alvaran tekin við. Kominn úr Svarfaðardalnum og alla leið á bókhlöðuna takk fyrir. Minn bara kominn á fullt. Farinn að skrifa ritgerð. Orðið mergur í orðtökum og orðatiltækjum. Dugir ekkert minna. Mætti klukkan átta í vinnuna í morgunn. Ég get svo svariða! Vann til eitt og svo bara -SVÚMM-, beint á hlöðuna að læra. Hahha!
Það náttúrulega þýðir ekkert að sitja bara heima hjá sér. O nei, ekki hann Gulli sko. Hann hefur annað og meira við tímann sinn að gera, lærdómshesturinn sá arna.

..sitja heima, nei takk.

-- Skreif Gulli kl.13:34 -- 0 Komment


sunnudagur, mars 27, 2005
það eru páskar núna. ég er í Svarfaðardalnum, nánar tiltekið í gestaherberginu á efri hæðinni á Tjörn, þar sem hún amma býr. það eru allir farnir í messu, en ég ákvað að vera eftir og læra. núna áðan komu þó Kata og Þormóður í heimsókn og þau eru hérna frammi í þessum skrifuðum. eitthvað að væflast í eldhúsinu.

ég byð annars að heilsa öllum heima í víkinni. einkum engli með húfu og rauðan skúf í peysu.
það er stúlkan mín.

-- Skreif Gulli kl.12:33 -- 0 Komment


fimmtudagur, mars 24, 2005
Allt getur nú gerst í þessu lífi. Nú er minn bara kominn norður á Akureyri. Sit þar í skítugri kjallaraholu og sötra bjór úr litlu Ikea glasi. Að ofan berst mildur kliður frá foreldrum mínum, Tóta frænda, Þórarni og Möggu.
Innan skamms munum við öll sitja við krásfullt matarborð. Þeyja saman og tyggja.

djöfull verður það geðveikt

-- Skreif Gulli kl.18:29 -- 0 Komment


þriðjudagur, mars 22, 2005
Ég fór á leikrit í gær, frumsýningu stúdentaleikhússins á verki Tsjekovs, Tilbrigði við sjófugl, með frændum mínum tveimur, Þormóði og Þrándi, og sá þar stórleikkonuna Þorbjörgu Helgu fara á kostum í hlutverki Nínu, saklausrar sveitastúlku sem örlögin völdu grýttan ævislóða og deildu taphendi í lífsins gæfuspili.
Sjáið þið ekki að það er vitlaust gefið? æpti ég yfir áhorfendur þegar harmrænn endirinn var orðinn að óumflýjanlegri staðreynd, en þeir annaðhvort þögðu við eður sussuðu á mig, vísifingurinn sperrtur yfir varirnar líkt og skörungur yfir kulnaðri öskustó. Ég horfði blóðrauður af skömm á leikarana beygja sig og bugta undir áköfum fagnaðarlátum annarra í salnum.
Við frændurnir kíktum á leikhópinn inni í búningsherbergi eftir sýninguna og gáfum háar fimmur öllum þeim sem okkur fannst eiga þær skilið. Svo fengum við bjór. Almenn gleði ríkti meðal leikara jafnt sem leikstjóra og í raun allra sem að sýningunni komu eins og títt er eftir frumsýningar. Og vegna þess að allir voru glaðir urðum við það einnig, frændurnir, og stóðum þó eins og illa gerðir hlutir í myrkasta horni búningsherbergisins.
Nóttina eftir dreymdi mig fölnaða rós.

-- Skreif Gulli kl.18:18 -- 0 Komment


sunnudagur, mars 20, 2005
það er sunnudagur. eins og þið sjáið reyndar hér fyrir ofan. ég vaknaði ofurþunnur í íbúð einhverstaðar niðri í miðbæ. einn. nakinn. svangur. klukkan hefur verið svona tólf. ég hringdi í Þormóð frænda og við mæltum okkur mót á ónefndu kaffihúsi hvar við svo hittumst og hittum Úlf og hlógum og fórum á Asíu og hittum Pésa og Tótu og Tóta og Berg og Mörtu og Hjört sem er bróðir Mörtu og svo hlógum við öll. og borðuðum.

og hvernig sem það var, því einhvernveginn var það, og aldrei hefur það verið þannig að ekki væri með einhverjum hætti, hlaut það að vera eins og það var, því þannig er það altaf.

helvíti gott.

-- Skreif Gulli kl.17:39 -- 0 Komment


föstudagur, mars 18, 2005
hvað skal segja.. eitthvað að frétta? vissulega. ég nýtti gærdaginn í ritgerðarskrif og svo fór ég í fimleika líkt og væri ég skipulagður einstaklingur, sem ég í raun er ekki. ég og Bergur fórum svo heim til mín og horfðum á Desperate Housewives og var það hin fínasta skemmtun. Má vel vera að eitthvað fleira hafi gerst og meira krassandi, en mitt skriflega pókerfés meinar ykkur aðgang að öllu því sem kalla mætti persónulegar upplýsingar.
En gærdagurinn var sumsé góður dagur.

í dag finn ég að kálfar mínir eru að stirðna sem ég tel vera ávísun á veikindi. Að auki hef ég týnt u.þ.b. fjórum húfum í vikunni. Húfutjón er hvimleiður fylgifiskur athyglisbrests og í mínu tilfelli eina sjúkdómseinkennið. næstum.

Nú er það bara vísindaferð uppí Mastercard.
I know a Gull, a Gull called Party, PartyGull!

-- Skreif Gulli kl.17:29 -- 0 Komment


jæja. ég var að enda við að taka eitt stykki útlending í nefið í skák. útlendingar sökka í skák, allir sem einn.

undarleg staðhæfing. ég gæti umorðað hana svona: aðeins íslendingar sökka ekki í skák (ef ég gef mér að aðeins íslendingar séu ekki útlendingar). en hvað um það. þetta var ósönn fullyrðing. ekki þverstæða, heldur fjarstæða, eins og þar stendur. það stendur reyndar hvergi. nema hér.

svona hleyp ég í kringum sjálfan mig í örvæntingarfullri tilraun til að halda uppi þessari innihaldslausu einræðu sem bloggið mitt er. hver setning óumbeðin afleiðing þeirrar sem á undan kom. kynslóð eftir kynslóð af slysabörnum. soldið eins og lífið.

undarlega samsett orð samt, kyn-slóð.

þangað til næst..

-- Skreif Gulli kl.11:14 -- 0 Komment


þriðjudagur, mars 15, 2005
ég er í skólanum núna og þar finnst mér gaman að vera. einn með sjálfum mér, límdur við tölvuskjá. mörg eru þau orðin, verkefnin sem ég þarf að inna af endi áður en vikan er úti. mörgum hafa þær valið næturstað, mínar banvænu krumlur.

ég ætla ekki að læra strax. ég ætla að tefla við andlitslausa manneskju úti í heimi. ég ætla að vinna útlending í skák.

-- Skreif Gulli kl.12:10 -- 0 Komment


mánudagur, mars 14, 2005
Ég vaknaði í grárri frostbirtu um dagmál og tók inn pensilín. Smjörið bráðnaði ekki á brauðinu mínu því ég þurfti að leita lengi að hreinum smjörhníf innan um ranimoskið inni í eldhúsi. Þau fóru eitthvað illa í mig, lyfin, og ég keypti mér AB-mjólk á bókhlöðunni en sá um leið að ég var orðinn seinn á fund. Höskuldur sat á skrifstofu sinni og blaðaði í bók.
Ég er seinn, sagði ég því ég var seinn.
Það gerir ekkert. Ég var að lesa.
Var það fróðlegt?
Það voru kenningar, svaraði hann. Ég sá hann var nýklipptur.
Mig verkjaði í hnéð þegar ég settist á kaffistofuna og svaraði í símann minn. Það var Steinn. Hann var að borða kjötloku, misheita því örbylgjuofninn snéri ekki disknum.

-- Skreif Gulli kl.12:46 -- 0 Komment


þriðjudagur, mars 08, 2005
ég verð víst að taka það fram að allir þeir sem ekki svöruðu í GSM símann sinn eru búnir að hafa samband og þeir sem ekki svöruðu póstinum sínum hafa nú gert það og lífið er örlítið minna vonlaust en það var fyrir klukkutíma síðan.

það eru svosem góðar fréttir.

ef engar fréttir eru góðar fréttir, eru þá góðar fréttir engar fréttir? rosalega finnst mér fréttir vera skrítið orð, núna þegar ég er búinn að tönnlast svona á því.

fréttir og Grétar og mjöl. það eru skrítin orð.

-- Skreif Gulli kl.16:13 -- 0 Komment


Allir eru með GSM síma en samt er aldrei hægt að ná í neinn.
Allir hafa tölvupósfang en enginn svarar tölvupósti.

Þetta veldur því að ég kem engu í verk.

-- Skreif Gulli kl.13:36 -- 0 Komment


föstudagur, mars 04, 2005
jú. Hjörtur hafði rétt fyrir sér, sá gáfaði maður. Running man varða. þessvegna er komin ný spurning. hana ættuð þið að geta ráðið eins og hverja aðra meðalþunga krossgátu.
ég var að koma úr tíma í orðfræði-þjóðfræði hvar ég þurfti hvað eftir annað að klípa mig í lærin til að verjast ágangi svefndísanna sem reyndu að draga mig með sér í draumalandið. þegar þær leituðu á mig sem fastast kleip ég mig þar til ég æpti af sársauka. þá þagnaði kennarinn og allur bekkurinn horfði á mig.

ég vaknaði í morgun á ókunnum stað, með dúndrandi höfuðverk og móðukenndar minningar frá gærdeginum.
hnúarnir bólgnir.
skyrtan útötuð í viskíi og blóði..
neinei. ég vaknaði bara heima klukkan hálf átta. fór snemma í háttinn í gær. en í kvöld verður haldin árshátíð íslenskunema og þá verður eitthvað trallað. á morgun ætla ég svo að naga á mig nýtt rassgat.
Gvöð, hvað ég hlakka til.

-- Skreif Gulli kl.10:48 -- 0 Komment


þriðjudagur, mars 01, 2005
ertu búinn að lesa mikið, spurði Sunna, samstarfskona mín og skólafélagi þegar ég mætti til vinnu minnar í gær.
lesa hvað, spurði ég og horfði tómlega framan í hana. Hún hafði stafla af útprentuðum blöðum í skauti sér.
nú, lesa fyrir prófið á morgun fíflið þitt, svaraði hún brosandi og sparkaði af alefli í sköflunginn á mér. Vissiru ekki að það er 40%próf í málnotkun eldsnemma í fyrramálið?
Nei, sagði ég og haltraði burt.
Sunna er alltaf í hermannaklossum.

ég fór sumsé í þetta helvítis próf núna áðan og skrifaði einhverja vitleysu þar sem beðið var um skýr og greinargóð svör við spurningum sem ég vissi ekki svarið við.
af hverju sagði enginn mér frá þessu prófi fyrr?
af hverju fengum við ekki tilkynningu í tölvupósti?
hvað kostar kaðall og hvernig bindur maður hengingarsnöru?

mér verkjar í sköflunginn og ég er þágufallssjúkur

-- Skreif Gulli kl.11:39 -- 0 Komment