Gundlungur bloggar heiminn
fimmtudagur, júní 30, 2005
Svo ég svari honum Hirti frænda mínum og ástmanni þá erum við að fara að flytja á Snorrabraut 24, ég og Þorri og Þrándur og Tóta og Pési. Í gamalt og ævintýralegt hús á tveimur hæðum með fullt af herbergjum, kompum og undarlegum afkimum. Að auki er þarna þvottahús í kjallara, risavaxnar og sundurfúnar svalir og skúr sem er -undarlegt nokk- þónokkuð stærri að innan en utan. Þarna munum við hírast í u.þ.b. ár en þá verður byggingin rifin svo byggja megi lögfræði- eða auglýsingastofu á rústunum. Á rústum brostinna vona og ljúfsárra minninga.

Þangað til verður þar starfrækt frændakommúna. Eins og hjá forfeðrum okkar forðum.

-- Skreif Gulli kl.14:55 -- 0 Komment


halló krakkar og til hamingju með þennan ágæta fimmtudag. nú er hann Guðlaugur kominn með splúnkunýja (en þó svolítið notaða) fartölvu og búinn að fá lykla að nýrri íbúð (sem reyndar er eldgömul). næst á dagskrá er að sækja um húsaleigubætur, en til þess að fá þær þarf ég að gera mér ferð upp í þjóðskrá í Borgartúni og skipta um heimilsfang og svo til sýslumannsins í Skógarhlíð og láta þinglýsa leigusamningnum. síðan fylli ég út einhver eyðublöð og veiti yfirvöldum ótakmarkað umboð til að snuðra í mínum fjármálum. ótrúleg þessi bjúrókrasía. einhverstaðar í smáa letrinu held ég að standi að sýslumaður eigi rétt á að svívirða jarðneskar leifar mínar þegar ég hrekk uppaf einn gráan haustmorgun í þessari leigðu húskitru sem kostaði mig æruna.

-- Skreif Gulli kl.11:23 -- 0 Komment


þriðjudagur, júní 28, 2005
Fór á Prikið í hádeginu og hitti þar alveg óvænt Kötu og Berglindi. Ég settist hjá þeim og þær kysstu mig á kinnina, báðar tvær. Ég roðnaði og hló vandræðalega. Síðan kom hann Þormóður frændi minn og klappaði mér á öxlina alvarlegur á svip. Eitthvað í augnaráði hans fyllti mig slíkri öryggiskennd að mig langaði mest til að leggjast í kjöltu hans og mala; upplifa það áhyggjuleysi sem einungis ofurölfun hefur veitt mér hingað til. Ég lét það samt vera. Brosti þess í stað til hans óræðu brosi og strauk honum um hvirfilinn, saup á kaffinu mínu og dæsti.

-- Skreif Gulli kl.13:43 -- 0 Komment


mánudagur, júní 27, 2005
þrátt fyrir bílleysið tókst mér að finna íbúð til að leigja og tölvu til að kaupa og bráðabirgðaakstursheimild til að komast norður. svo ók ég sem leið lá í Svarfaðardalinn ásamt fríðu föruneyti, skjálfandi af hamingju. við nýttum tíman vel, fórum á tvær leiksýningar, hittum frændfólk, drukkum léttvín, fórum í sund og fengum morgunkaffi hjá ömmu. svo brunuðum við aftur heim með heimskulegt bros á vörunum.

mig dreymdi í nótt að ég gréti einsog ungabarn, ég man ekki yfir hverju.

-- Skreif Gulli kl.10:06 -- 0 Komment


föstudagur, júní 24, 2005
í dag ætla ég norður með Obbu og Öddu og það er ekki laust við að ég hlakki svolítið til að komast úr borginni. fyrst þarf ég að afpálana nokrrar klukkustundir inni á skítaskrifstofunni. ég man skyndilega að ég þarf að gera fullt af hlutum og ég er ekki á bíl. ég ætlaði að skoða íbúð og kaupa tölvu og sækja ökuskírteini.
djöfulsins klúður.

-- Skreif Gulli kl.08:39 -- 0 Komment


þriðjudagur, júní 21, 2005
vinnavinnavinna. ég á engan pening núna því ég eyddi honum í vitleysu, reikninga og veigar fyrir þremenningamót. í hádeginu ætlaði ég að hjóla í bankann minn útá Nesi og sækja Vísakort sem þar bíður mín en þegar ég var búinn að djöflast á hjólinu í tíu mínútur í mesta mótvindi sem ég hef lent í ákvað ég að stoppa á Tryggvó og reyna frekar að plata hann Tóta Kúl á kaffihús til að hádegishléið færi ekki alveg í hundana. hann Tóti, sem er alltaf til í rjúkandi kaffibolla, varð mér samferða niður í bæ en í sjoppu á leiðinni fékk hann synjun á kortið sitt og blankheitin urðu okkur óbærilega ljós. við áttum ekki einusinni fyrir fokkíng kaffi.
við klöppuðum hvor öðrum á axlirnar, þungir á brún og kvöddumst með andvörpum. ég fór aftur í vinnuna og fékk mér ristað brauð með osti og sultu. trúlega hefur Tóti farið heim á Tryggvó og hengt sig.
Hann á svo erfitt með að höndla peningaleysi hann Tóti.

sá sem svarar kvikmyndagetrauninni rétt og með fullnægjandi rökum fær verðlaun.

-- Skreif Gulli kl.13:31 -- 0 Komment


mánudagur, júní 20, 2005
það er svolítið erfitt að vinna í dag því ég er að drepast úr þreytu. ég er að lesa yfir, leiðrétta og endurorða texta um reykköfun og eðli elds. ég hef lesið fyrstu setninguna svona sjöhundruð sinnum og sofnað yfir henni svona tuttugu sinnum og farið u.þ.b. fimmtíu sinnum fram að fá mér kaffi eða vatn eða farið á klósettið eða eitthvað. áðan tókst mér að sofna fram á bókina og slefaði þá yfir blaðsíðuna sem ég ætlaði að lesa. svo vakti ég sjálfan mig með ámátlegri svefnstunu og kipptist einhvernveginn til við það að vakna og sýndist þá yfirmaður minn standa fyrir utan gluggann og stara á mig. ég dauðskammaðist mín fyrir að hafa verið sofandi og fyrir að hafa vaknað svona aulalega en áttaði mig um leið á því að það var enginn utanvið gluggann, enda er skrifstofa mín á þriðju hæð og varla nokkur leið fyrir yfirmanninn að fylgjast með mér þaðan. nema kannski á stultum, en það væru nú undarlegir stjórnarhættir.

-- Skreif Gulli kl.14:18 -- 0 Komment


miðvikudagur, júní 15, 2005
jæja, þá er minn kominn í nýja vinnu. hættur í hellulögnum og sestur inn í litla skrifstofu með litlu skrifborði og lítilli tölvu. nettengdur að nýju. verkefni mitt hér er að ritstýra 1400 blaðsíðna námsbók fyrir Brunamálaskólann. nú kem ég ekki lengur skítugur, sólbrunninn og sveittur heim úr vinnunni heldur fölur og sljór eftir átta tíma setu yfir illa skrifuðum texta. og fjandinn sjálfur, hvað þetta er illa skrifaður texti.
verkfræðingar kunna ekki að skrifa.

ný kvikmyndagetraun. þið verðið að taka fram hver sagði og við hvern.

-- Skreif Gulli kl.11:01 -- 0 Komment


fimmtudagur, júní 09, 2005
jájá. ég hef engan tíma fyrir þessa bloggvitleysu lengur. vinnandi eins og skepna öllum stundum og hlægjandi með vinum mínum aldrei. heyriði það: aldrei! það eru engar frístundir hjá honum Guðlaugi. tíminn er peningar. lífið er hjólbörur. buxur eru tíska. skrítið þegar maður líkir eintöluorði við fleirtöluorð eða öfugt.

þremeningamót á laugardaginn, allt frændfólk þangað!

-- Skreif Gulli kl.18:22 -- 0 Komment