miðvikudagur, júlí 20, 2005
um gluggan á þröngri og loftþungri skrifstofu horfi ég hnugginn á sólargeislana leika við reykvíkinga á þessum syngjandi blíðviðrisdegi sem ég fæ ekki að njóta fremur en virðingar merkra manna.
ja, nema ég stökkvi klökkur úr rökkrinu og smeygi mér keikur í stuttbuxur og bol og dóli mér svo rólegur í sólinni með kóla í hendi og skólabók í hinni..
funheita brunamálaskólabók.
andskoti, hvað hún er erfið kvimyndagetraunin í dag.
mánudagur, júlí 18, 2005
ég fann um helgina gamlan magnara sem einhver hafði ákveðið að henda í ruslið. það hafði rignt þennan dag og magnarinn var orðinn hundblautur auk þess sem það vantaði á hann snúru til að setja í samband. ég tók hann nú samt, leyfði ræflinum að þorna heima í stofu og föndraði á hann rafmagnssnúru. kemur í ljós að krúttið þrælvirkar. tengdi hann við geislaspilarann minn og gamla hátalara og viti menn, sándið algjör draumur.
annars heppnaðist innflutningspartíið einkar vel og íbúðin tók sig vel út svona full af fólki. tók vel við fjöldanum, fannst mér. nú, Halldóra svaraði kvikmyndagetrauninni af fullnægjandi nákvæmni og æsandi kunnáttu og hefur því unnið sér inn 24" SONY monitor, sem hún má sækja á Snorrabrautina þegar hana listir.
þá er það bara að svara þessari..
föstudagur, júlí 15, 2005
S T O N E S Á F Ó N I N N !
næsta laugardagskvöld (á morgun), á slaginu átta verður hladið eitt heljarinnar innflutningspartí á Snorrabraut 24 (Gula húsinu). allir þeir sem þekkja mig (eða Þorra, Þránd, Pésa eða Tótu) mega endilega mæta með öl eða aðrar áfengar veigar og kannski s.s. eina innflutningsgjöf.
..eða ekki, þið ráðið.
annars vil ég taka það fram að Þormóður hafði rétt fyrir sér. Priscilla sagði þetta við Neo í myndinni Matrix. þá er bara að sjá hver getur næstu spurningu..
fimmtudagur, júlí 14, 2005
kæra blogg, ég er duglegur strákur. undanfarna daga hef ég verið bæði framtakssamur og vandvirkur í vinnu minni og lagt mig í líma að vera kurteis og ræðin við mína samstarfsmenn og þjáningabræður. þá hef ég umgengist ástvini af nærgætni og alúð og verið foreldrum mínum undirgefinn sem rakki. ég er upplitsdjarfur og brosmildur við ókunnuga, blíður við börn og daðurgjarn við stúlkur. frændrækinn við skyldmenni mín og yfirborðsljúfur við þeirra maka. ráðagóður, lagvís og þrætugjarn.
kæra blogg, á mínum vinnustað eru allir komnir yfir fertugt nema ég. þetta skapar mér svolitla sérstöðu og ég þarf lítið að leggja mig fram til að fá athygli. ég nýti þessa athygli óspart til að koma á framfæri skoðunum mínum á hinum ýmsu málefnum. um leið opinbera ég náttúrulega fávisku mína og fordóma svo mér hefði eiginlega verið nær að halda bara kjafti. ég komst nefnilega að því fyrir stuttu að allir sem hér vinna eru annaðhvort lögfræðingar eða verkfræðingar, en þær stéttir hef ég einmitt tekið sérstaklega fyrir í gaspri mínu; ausið þær óhróðri með tilheyrandi handapati og fyrirlitningarflissi.
undarlegt nokk hef ég þó ekki uppskorið annað en bros og blíðuhót frá mínum samstarfsmönnum. skotmörkum minna reiðilestra. þau horfa á mig elskulegum augum og hlusta alsæl meðan ég rakka þau ofan í svaðið, blár í framan af æsingi.
en þannig eru víst þessir lögfræðingar og verkfræðingar, lýðskrumarar sem glepja mann með lævísu brosi og falskri rökhyggju og svíkja mann svo um allt sem maður á.
viðbjóðslegar pöddur, kæra blogg. viðbjóðslegar pöddur.
þriðjudagur, júlí 12, 2005
nú er orðið rosalega auðvelt að setja myndir inn á bloggið sitt. skemmtileg nýjung það.
síðustu 15 mínútum hef ég eytt í að krota þennan karl og örfáum sekúndum síðar er hann kominn á veraldarvefinn. alveg hreint ótrúlegt.
en nú verð ég að halda áfram að vinna.
if god was a phonecall, with whom would you speak?
þessi undarlega spurning er í raunninni bara afbökun á kvikmyndagetrauninni sem enginn hefur enn svarað. þó er vert að velta þessu fyrir sér.
ef guð væri símtal, við hvern myndi maður þá tala?
mér leiðist ekkert mikið í vinnunni í dag og ég er búinn að vera duglegur við lesturinn. stalst samt heim á Snorrabrautina áðan og lagaði mér espressókaffi. ég á nefnilega heima við hliðina á vinnunni svo ég get skotist heim og til baka á innan við mínútu. það var gott kaffi. eitthvað annað en viðbjóðurinn hérna í vinnunni. vinnustaðakaffi ógeðslegt, alltaf og undir öllum kringumstæðum og ég veit ekki hvað veldur því.
væri garður á nýja heimilinu hefði ég þar hænur.
það virðist ekki lengur vera hægt að skiptast á skrám við íslendinga gegnum DirectConnect. ég finn a.m.k. ekki neina íslenska höbba, sýnist þeir allir liggja niðri núna.
þeir hjá deili hafa lagt niður sína tengipunkta vegna "aukins vanþakklætis notenda" og á
dci.is er að finna þessa undarlegu staðhæfingu:
Vegna uppfærslu fyrir nýja vefinn var ekki möguleiki að koma honum upp á þeim tíma sem til stóð. eru þetta ekki hringrök? meiri vitleysingarnir þessir tölvukallar allir.
mánudagur, júlí 11, 2005
svaf yfir mig í morgun og mætti of seint í vinnuna. það var allt í lagi. það tók enginn eftir því.
eyddi fyrstu klukkutímum morgunsins í að góna út í loftið og drekka kaffi. enginn hér sem veitir því athygli.
nú er ég bara að dóla mér á netinu og skrifa á bloggið. hverjum er sosum ekki skítsama um það?
ég vildi óska þess að hér væri reiður maður með svipu sem sæi til þess að ég inni. þá yrði mér þó eitthvað úr verki.
fimmtudagur, júlí 07, 2005
einusinni kom til mín ókunnur maður og gaf mér stærðarinnar pillu sem hann hvað vera ofskyjunarlyf. það fer að kikka eftir svona klukkutíma, sagði hann hrjúfri röddu og strauk mér um vangann. ég var ekki fyrr búinn að gleypa töfluna en mamma kom á bílnum og skipaði mér að setjast í aftursætið. við erum að fara í brúðkaup, sagði hún ákveðin. ég neyddist til að hlýða. ég man að við ókum inn í stóran garð og ég horfði á risavaxið hlið lokast fyrir aftan okkur. ég var dæmdur til að upplifa ofskynjanir innan um fjarskyld ættmenni.
ósköp varð ég feginn þegar ég vaknaði og komst að því að þetta var bara draumur. þá dæsti ég feginn, settist upp í rúminu mínu og kveikti mér í pípu, barmafullri af dýrindis hassi.
Sonur jarðfræðingsins situr
á ískrandi stól
hann er úfinn og drekkur kaffi
úr bláum bolla
miðvikudagur, júlí 06, 2005
usss.. ef ykkur leiðist í vinnunni þá skuluð þið prufa að fara inn á
websudoku.com og prenta út nokkrar þrautir. ég lofa ykkur því að tíminn svoleiðis flýgur frá ykkur. ekki gott ef maður er að vinna við prófarkarlestur.
jæja.. tíu blaðsíður í viðbót, einntveirognú!
þriðjudagur, júlí 05, 2005
var ég búinn að segja ykkur að ég er að ritstýra námsbók fyrir slökkviliðsmenn?
örugglega..
mér finnst það ætti að skylda alla verkfræðinga og eðlisfræðinga til að taka nokkur námskeið í íslensku. þeim er nefnilega fyrirmunað að koma hugsunum sínum í orð. örugglega gáfað fólk og ágætlega upplýst en textinn sem það kúkar út úr sér.. það er nú meiri ræpan maður.
ég og Þorri fórum í Húsasmiðjuna um daginn og keyptum málningardót fyrir fúlgu fjár. pensla og rúllur og málningarbakka og plastdúka og fleira. þar á meðal 10 lítra af hvítri málningu á 5000kall. síðan skruppum við yfir í EuroPris sem er staðsett beint á móti Húsasmiðjunni. þar voru til sölu 10 lítra fötur af hvítri málningu á 1500 krónur! við urðum rosa svekktir og skiptumst á að bölva okrurunum í Húsasmiðjunni í sand og ösku.
þegar lítrarnir tíu kláruðust var farið beint í EuroPris eftir málningu á ásættanlegu verði. þá kom í ljós að hún var algerlega ónothæf.. bókstaflega ósýnileg. eftir eina umferð á ljósbleikan vegg (fyrrum íbúar virðast hafa verið einstaklega ósmekklegt fólk) sá ekki högg á vatni, veggurinn var jafn bleikur sem fyrr!
aldrei versla í EuroPris krakkar. það er viðbjóðsleg svindlbúð.
mánudagur, júlí 04, 2005
jú! eins og hún Halldóra benti réttilega á fyrir næstum viku síðan þá var þessi setning úr myndinni Með allt á hreinu. ég bara sá ekki svarið fyrr en núna. minn greinilega ekki alveg að fylgjast með. Halldóra hinsvegar með hlutina á hreinu og nú er komin ný spurning hverri enginn getur svarað.
föstudagur, júlí 01, 2005
ég ætla að vera duglegur í dag. prófarkarlesa a.m.k. tuttugu blaðsíður í vinnunni, hafa samband við BA-leiðbeinanda minn, ákveða lit á málningu og magn fyrir nýju íbúðina og reyna að redda bíl til að komast í málningarverslun.. og í ríkið.
Örn frændi spilar með hljómsveitinni sinni, Shadowparade á GrandRokk í kvöld. allir þangað.