Gundlungur bloggar heiminn
mánudagur, ágúst 29, 2005
ég er náttúrulega bara íslenskunemi og hef aldrei haft mikinn áhuga á íþróttum en ég get sagt ykkur þetta:
Jordan kann ekki neitt í körfubolta. algjör aumingi, getur ekkert, og Tyson er fokkíng ræfill. ég gæti lamið hann.

en nú er komin ný kvikmyndagetraun og sá sem svarar henni er sko enginn aumingi. húrra fyrir þeim sem ræður getraunina!

-- Skreif Gulli kl.15:21 -- 0 Komment


föstudagur, ágúst 26, 2005
jæja. þá er maður bara staddur hérna.. á brunamálastofnuninni. hvernig ég endaði á þessum guðs volaða stað veit ég varla sjálfur. þó er eins og mig rámi í símtal frá brunamálastjóra þar sem hann tjáði mér að stofnunina sárvantaði íslenskumann í prófarkalestur. þá stóð ég fáklæddur í bongóblíðu austur í grafarholti með gemsann í annarri og malarskóflu í hinni, sólbrúnn og skorinn eftir eftir tveggja vikna vinnu við hellu- og þökulagningar fyrir þrælapískara nokkurn sem lofaði mér gulli og grænum skógum í skiptum fyrir mína skilyrðislausu undirgefni og ellefu tíma vinnudag. sá svikuli þrjótur hefur enn ekki staðið við sinn hluta af þeim munnlega samningi enda vissi ég betur en að treysta slíkum ógæfumanni til lengdar og nú sit ég hér, við skrifborð mitt á brunamálastofnun, fölur á brá og fíldur. líkami minn sem eitt sinn var stinnur og stæltur, tálgaður úr eik, er nú slappur og sljór líkt og rifsber að hausti. buddan tóm og lífsviljinn lagstur í dvala.

svo förlast vort líf
svo dvínar vor kraftur

-- Skreif Gulli kl.08:35 -- 0 Komment


miðvikudagur, ágúst 24, 2005
nú nú. þar setti ég nýja kvikmyndagetraun inn í netið. lengst inn í helvítis netið. alla leið inn í tölvuna ykkar meira að segja.

þvínæst skal ég bíta í þurrt handklæði og svo mun ég sleikja yddara.
hafið þið einhverntíma sleikt yddara? það er mjöög skrítið. þá er ég ekki að tala um athöfnina sjálfa, sem í eðli sínu er fremur óvenjuleg, heldur tilfinninguna sem henni fylgir.
prófiði bara sjálf. ég mana ykkur

-- Skreif Gulli kl.13:42 -- 0 Komment


fimmtudagur, ágúst 18, 2005
jæja krakkar. þá hefur minn bara ekkert bloggað í níu daga. ég skil þetta ekki. það er eins og hugmyndabankinn í hausnum á mér taki stundum upp á því að loka, án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu og þá get ég ekki gubbað upp úr mér einu orði. ekki skriflegu orði allavega, ég get alveg talað samt. öllu alvarlegra væri það nú ef ég gæti ekki talað, nógu erfitt að vera óskrifandi. það hefur a.m.k. komið sér einkar illa í minni skólagöngu þar sem ritgerðar- og smásögusmíð verða að sitja á hakanum meðan hin óviðráðanlega ritdeyfð gengur yfir. ég get ekkert gert nema beðið því ég kann við þessu engin ráð.

mig dreymdi í nótt Ólaf nokkurn Sólimann, þjáningabróður minn í íslenskum fræðum. við sátum á kaffihúsi með gömlum manni sem ég kann ekki frekari deili á. gamli maðurinn var að reyna að segja okkur gamansögur en það gekk eitthvað brösulega því spéfuglinn Ólafur gerði sér það að leik að grípa stöðugt fram í fyrir honum svo greyið maðurinn fékk ekki að ljúka við eina setningu. sá gamli var að lokum orðinn svo reiður og æstur að ég var dauðhræddur um að hann myndi annaðhvort lemja okkur eða detta niður dauður. Ólafur skemmti sér hinsvegar vel á kostnað gamla mannsins á virtist ekki sjá fram á aðsteðjandi hættur, enda slapp hann við að taka afleiðingum gjörða sinna þar sem ég vaknaði við helvítis vekjaraklukkuna.

í Draumráðningabókinni stendur eftirfarandi:
Ólafur: nafnið Ólafur er fyrir óhappi. Að dreyma grátandi Ólaf getur þó táknað óvænt tækifæri eða vinning í fjárhættuspili.
Öldungur: öldungur í draumum táknar óvænta endurfundi eða endurheimtingu á gamalli skuld. deyji öldungurinn í draumnum er það fyrir langvarandi veikindum.

að síðustu er hérna ný kvikmyndagetraun.. ekkert sérstaklega erfið, en óskaplega áleitin.

-- Skreif Gulli kl.10:31 -- 0 Komment


þriðjudagur, ágúst 09, 2005
Það hljómar kannski ótrúlega, en um aldamótin 1900 var slökkviliðsmönnum skylt að hafa 15 cm sítt skegg. Þeir áttu að dýfa því vatn og troða upp í sig áður en þeir köfuðu inn í brennandi hús. Þetta gerðu þeir til að verjast eitruðum lofttegunudum; ef þeir önduðu gegnum blautt skeggið festust í því skaðlegar rykagnir. Í þá daga hlupu þeir líka um með fötur fullar af vatni og æptu og sungu eins og sjómenn.
Afar karlmannleg vinna var slökkvistarfið þá.


Nú á dögum verða slökkviliðsmenn að vera nauðrakaðir til að öndunargrímur þeirra falli þétt að húðinni. Þeir eru látnir klæðast lúðalegum búningum og ætli þeir að kafa reyk er þeim skylt að fara við annan mann og til að bæta gráu ofan á svart verða reykkafararnir að leiðast allan tíman. Það kallast reykkafarapar í kennslubókunum.

Mér finnst það bara fyndið því það eru yfirleitt mestu karlremburnar sem vilja verða slökkviliðsmenn.

-- Skreif Gulli kl.13:56 -- 0 Komment


mánudagur, ágúst 08, 2005

tók mér smá pásu á yfirlestri og teiknaði þennan kall hérna. helvíti fínn finnst mér.

mig langar í nýja diskinn með Heru. ég hef heyrt nokkur lög af honum í útvarpinu og mér finnst þau geðveikt fyndin. málið með Heru er bara það að hún er ekkert að grínast. hún væri mjög sniðug ef hún væri að grínast, en það er ekki svo gott. í staðin er hún bara skrítin, svona eins og Jóhannes Birkiland sem skrifaði bókina Harmsaga ævi minnar. helvíti gott grín, nema honum var dauðans alvara.

-- Skreif Gulli kl.11:33 -- 0 Komment


miðvikudagur, ágúst 03, 2005
ég tók mér veikindafrí frá vinnu í gær. ég var eitthvað heilsuveill eftir verslunarmannaskrallið og reyndar hálfómögulegur af kvefi alla helgina. tímaskyn mitt hefur af þessum sökum skekkst allverulega og ég sit á skrifstofu minni með þá flugu í hausnum að nú sé mánudagur. maður sleppur víst aldrei við þessa mánudaga.

húsið sem ég vinn í er beint á móti lögreglustöðinni og þar sem mér leiðist stundum í vinnunni lét ég mér detta í hug að hringja í þá þarna á móti og bjóða afnot af mínum sérgáfum. ég held nefnilega að lögreglan hefði góð not af íslenskusérfræðingi eins og mér til að hjálpa sér að leysa flókin morðmál.
ég gæti til dæmis verið viðstaddur yfirheyrslur og séð til þess að glæpónarnir rugli ekki laganna verði með tvíbentum svörum, tyrfðu máli eða rangri fallbeygingu. ég sæti þá kannski í skyggðu horni í enda yfirheyrsluherbergisins, þögull sem gröfin. svo myndi ég lemja í borðið þegar minnst varir og þruma eitthvað yfir hinum grunaða: "Áttu við samneyti í merkingunni mök? eða kannski í hinni úreltu merkingu mötuneyti?"
svo gæti ég ráðið í dularfull skilaboð sem eitthvert fórnarlamb skrifar í blóði á eldhúsgólfið, kannski á frum-indóevrópsku.

já, þetta held ég sé engan veginn fráleit hugmynd. ekkert meiri fjarstæða en sögurnar hans Dan Brown.

-- Skreif Gulli kl.11:06 -- 0 Komment