Gundlungur bloggar heiminn
föstudagur, september 30, 2005
mig langar í digítal myndavél svo ég geti haft myndir á netinu eins og Hjörtur og Halldóra. svo langar mig líka á Airwaves svo ég geti séð færeysku pönkhljómsveitina 200. ég heyrði lag með þeim í útvarpinu sem var úbersvalt. auk þess er freistandi að kaupa sér passa á kvikmyndahátíðina og mig dauðlangar að fara til útlanda einhverntíma bráðum.

ég gæti örugglega gert þetta allt fyrir einn 100þúsund kall.
sparasparaspara.

-- Skreif Gulli kl.14:56 -- 0 Komment


fimmtudagur, september 29, 2005
Það var klukkað mig

fyrst klukkaði Tinna mig og svo klukkaði mig Hrafnhildur og ég verð víst að taka því eins og hverju öðru hundsbiti, bíta svo sjálfan mig í jaxlinn (hvernig sem maður fer nú að því) og tína saman nokkur af þeim einkennum, af hverjum mín persóna samanstendur, og sem uppbyggja eður samblanda mitt persónalítet, svo ég leyfi mér að kansellístíla örlítið að hætti embættismanna 18.aldar og föndra um leið sögn úr nafnorðinu kansellístíll því nýyrðasmíð er eitt af mörgum frárennslisrörum minnar sköpunarþarfar, eða skólprörum ef við viljum kalla sköpunina úrgang hugans, sem mér finnst hreint ekki við hæfi. var það ekki mannshugurinn sem skóp hinar æðri listir; klassískar sinfóníur, málaralist og breikdans?
úrgangur? ég held nú síður.

hvað um það. ég mun þá gaspra fimm staðreyndum um sjálfan mig þó nógu þyki mér bloggið sjálfsmiðaður vettvangur fyrir.

1. ég tala og syng með sjálfum mér þegar enginn heyrir til og því miður stundum þegar ég held að enginn sé nálægur. nú þegar telja nokkrir mig vitskertan vegna þessa.
2. ég þjáist af vægum athyglisbresti sem sumir vilja meina að sé ekki svo vægur. auk þess gleymi ég öllum nöfnum og man stundum ekki hvað bestu vinir mínir heita. ég fel þessa ágalla eftir fremsta megni með leikrænum tilburðum og með því að nota fornöfn og önnur orð í stað nafna.
3. þegar ég leggst í rúmið á kvöldin tel ég á fingrum mér hversu marga klukkutíma ég fæ í svefn. venjulega ligg ég þó andvaka meirihluta nætur eða hangi einhverstaðar milli svefns og vöku þangað til u.þ.b. tveimur klukkustundum áður en ég á að vakna. þá tek ég upp á því að sofna og á svo í stökustu vandræðum með að koma mér á lappir.
4. ég held því fram að ég sé trúleysingi og yppi öxlum kæruleysislega þegar talið berst að andlegum málum. samt er ég dyggur lesandi stjörnuspár moggans og reyni alltaf að fara eftir því sem þar er sagt.
5. þegar ég var lítill fékk ég keðjubréf í pósti þar sem mér var hótað ævilangri ólukku ef ég ekki sendi það til a.m.k. tíu aðilla innan einnar viku. í bréfinu voru einnig dæmisögur af hrakförum nokkurra aðila sem ekki höfðu fylgt fyrirmælunum bréfsins. einhver breti braut keðjuna og dó í flugslysi, annar missti konu sína og börn og sá þriðji sat í skuldafangelsi ævilangt. ég kom því aldrei í verk að senda bréfið og eyddi stórum hluta æsku minnar í logandi hræðslu við hina yfirvofandi vá sem fylgdi því að slíta keðjuna.

ég var nú bara að rifja upp keðjubréfssöguna í þessum skrifuðum orðum. en þetta var hræðilegt alveg. ég ætti að senda grein í morgunblaðið með fyrirsögninni Keðjubréf svipti mig æskunni. hljómar reyndar meira eins og DV fyrirsögn.

Jæja, þetta er orðið allt of langt hjá mér.. bæó

-- Skreif Gulli kl.10:44 -- 0 Komment


mánudagur, september 26, 2005
Undarleg þróun varð í heimi helgarinnar meðan ég svaf. Stökkbreyting ölluheldur. Vinnuvikunni óx fiskur um hrygg og skreið á land, sjóblaut og slorug.
Fyrir mér er hversdagsgráminn eins og álnavörubúð eða daunillt kerald.

Fékk ég einhverju um það ráðið hvar ég er staddur í dag?

-- Skreif Gulli kl.10:31 -- 0 Komment


föstudagur, september 23, 2005
ég held bara það sé kominn svolítill föstudagspúki í mig. það var svosem löngu tímabært, því lunginn af þessum föstudegi er nú þegar horfinn inn í myrkur fortíðarinnar, rétt eins og allir mínir dagar fram að þessu.
hvert fóru þau eiginlega, öll þessi horfnu augnablik og stundir sem liðu hjá eins og voldugt fljót? maðurinn má sín víst lítils í straumþunga tímans. syndir bara örvilnaður á móti straumnum meðan dagarnir fossa af hengju líðandi stundar og niður í hyldýpi hins liðna.
einn daginn gefst maður svo upp á svamlinu leyfir fossinum að taka sig.

jájá. úr föstudagsfiðringnum yfir í niðurdrepandi tilvistarpælingar um tíma og vatn.
gott hjá þer Guðlaugur.

reynum aftur:
föstudagur í dag og ég er fráleitt þreyttur á svamlinu.

-- Skreif Gulli kl.14:13 -- 0 Komment


mánudagur, september 19, 2005
partý a Snorrabraut á laugardaginn og á sunnudaginn fengum ég og Obba okkur hamborgara í morgunmat og fórum í bíó.

helgar eru æði

Gilzeneggerinn er steik

ný kvikmyndagetraun. spreytið ykkur

-- Skreif Gulli kl.14:12 -- 0 Komment


föstudagur, september 16, 2005
jújú. lífið heldur áfram að ganga sinn einhæfa vanagang. gengur bara fram í hið óendanlega, án þess nokkurntíma að gera hlé á för sinni til að líta um öxl eða renna upp buxnaklaufinni.
ég hef einsett mér að binda endi á þennan lífsins göngutúr þótt það verði mitt síðasta verk.
en þangað til gengur lífið bara sinn vanagang.
bolinn Guttormur lauk sinni ævi í morgun þegar starfsmenn Húsdýragarðsins sörguðu af honum höfuðið með gamalli sög. erfið og tímafrek aflífun, að sögn viðstaddra. en maður kemur í manns stað, ef þannig má að orði komast, því stuttu áður en Guttormur geyspaði golunni út um blóðugan strjúpan inni í myrkvuðu fjósi Húsdýragarðsins leit lítill drengur dagsins ljós í fyrsta sinnið. enginn annar en frumburður söngkonunnar íðilfögru Britney Spears.
já, íslenska þjóðin má vera þakklát fyrir að ekki ómerkari aðilli skuli hafa tekið við keflinu af honum Guttormi. við skulum vona að þessi ungi drengur feti í fótspor forvera síns og gerist kindilberi skapgæsku og æðruleysis.
þá er okkur borgið.

-- Skreif Gulli kl.14:53 -- 0 Komment


þriðjudagur, september 13, 2005
já ég er bara í vinnunni. engin breyting á mínu lífi frá síðustu færslu ef frá eru talin hækkun á kollvikum og sljóvgun augna. jú, og svo er ég byrjaður í skólanum aftur.

Steinn er farinn til amríku. það hefur svosem ekki haft mikil áhrif á gang mála hjá mér, enda héngum við lítið saman síðasta hálfa árið, báðir með kærustu og svona.

samt er eins og eitthvað vanti. það er eins og fjarvera steins hafi myndað holrúm í hversdagsleikann, sem nógu var tómlegur fyrir. glufu í fylkinu, gæti maður gæti maður kallað það.. holrúmið, sko.. er ég að gera mig skiljanlegan?

lífið er tómlegt, vildi ég segja.

því þakka ég guði fyrir Hjört frænda, sem kom yfir sæinn um daginn.
Hann á kærustu þannig að við eigum örugglega ekki eftir að hanga neitt mikið saman, sambýlismennirnir.

eða hvað?

-- Skreif Gulli kl.12:59 -- 0 Komment