Gundlungur bloggar heiminn
föstudagur, október 28, 2005
það getur verið huggulegt að sitja inni í hlýrri skrifstofu meðan stormurinn djöflast fyrir utan gluggann og húðar rúðuna með púðursnjó. væri ég skógarþröstur núna myndi ég ýfa fjaðrirnar og píra augun. kannski gogga í eitthvað lauslegt drasl á skrifstofuborðinu og klóra mér undir vængjunum.
öllu óhuggulegri er hinsvegar tilhugsunin um að hjóla heim á eftir í öskrandi frosthörkunni með níðþunga tösku á öxlinni. ég á allt eins von á því að fjúka eitthvert allt annað en heim til mín, enda er ferðinni heitið á Mokka í einn þokkalegan kaffibolla með hinni lokkaprúðu Tinnu, sem reyndar var að koma úr klippingu sem að hennar mati heppnaðist ekkert sérstaklega vel, hafi ég skilið hana rétt.

í dag hef ég hlustað á José González og Lisu Ekdahl í vinnunni og dólað mér við að færa leiðréttingar mínar yfir á tölvu. létt vinna og löðurmannleg en þreytandi til lengdar, eins og að reyta arfa eða stela eldspítustokk af fötluðum manni, eldspítu fyrir eldspítu.

ég missti af tíma í skólanum í dag því ég gleymdi strætópeningnum heima og þorði ekki að biðja bílstjórann að lána mér. hann hefði hvort eð er bara reiðst og hent mér út. í staðinn leit ég við á Snorrabrautinni og þáði kaffibolla af henni Jóhönnu sem hló af mér þegar ég rakst í borðshornið.

-- Skreif Gulli kl.16:03 -- 0 Komment


þriðjudagur, október 25, 2005
My my, at Waterloo Napoleon did surrender
Oh yeah, and I have met my destiny in quite a similar way
Svo segir í Abba-laginu Waterloo sem nú um helgina var valið besta Evróvisjónlag allra tíma. Hina grípandi melódíu sömdu þeir félagar Benny og Björn en umboðsmaður hljómsveitarinnar, Stig Anderson, á heiðurinn af textanum þar sem smánarlegu tapi Napóleons í orrustunni við Waterloo er líkt við það þegar sögumaður lagsins, ung stúlka, lætur undan þrýstingi ágengs biðils og gefur sig honum á vald; ósigur sem flestar konur bíða einhvern tíma á lífsleiðinni.
Á sama hátt og Bretar og Þjóðverjar slátruðu hersveitum Napóleóns forðum, brýtur karlmaðurinn varnir stúlkunnar á bak aftur og fær að lokum sínu framgengt, stúlkunni til ómældrar gleði.
My my, I tried to hold you back but you were stronger
Oh yeah, and now it seems my only hope is giving up the fight
And how could I ever refuse
I feel like I win when I loose
Sjálfum þykir mér samlíkingin fremur ósmekkleg og lítið rómantísk en hún á vel við í þessari söngvakeppni því orrustuna við Waterloo má kalla lykilatburð í sögu Evrópu og eitthvað sem allir íbúar álfunnar eiga að kunna skil á. Textasmiðurinn færir því sameiginlega þekkingu evrópubúa sér í nyt og tekst þannig með lymskubrögðum að véla hinn upplýsta meirihluta til að kjósa lag sem í raun hefur ekkert til brunns að bera annað en ómerkilega vísun í mannskynssöguna.

Það er a.m.k. mín skýring á sigrinum.

-- Skreif Gulli kl.11:35 -- 0 Komment


mánudagur, október 24, 2005
jæja, það endaði auðvitað þannig að ég keypti mér passa á Airwaves og eyddi öllu mínu fé í það rugl allt saman. Armbandið var náttúrulega fokdýrt og svo asnaðist ég til að kaupa mér bjór á öllum þeim tónleikum sem ég sótti, stundum fleiri en einn, þannig að í dag er ég grátlega blankur.
ég fór á Doom í gær með Tóta og Tinnu og Erni. Tóti lánaði mér. það fannst mér góð mynd. Tóti keypti líka handa mér kók og popp. hann er góður hann Tóti.
nei, hann er vondur hann Tóti. vondur og ljótur.

-- Skreif Gulli kl.11:59 -- 0 Komment


föstudagur, október 21, 2005
jæja, ég hringdi nú bara upp í háskóla og lét einhverja konu heyra það. sendi henni nótu til sönnunar þess að ég hefði borgað rétta upphæð á réttum tíma og hún var auðvitað steinhissa yfir þessu öllu saman. leiðrétti þennan leiða misskilning með nokkrum slögum á lyklaborðið og þar með hafði ég endurheimt minn námsmannasess. þá get ég loks sagt skilið við flóttalegt augnaráð auðnuleysingjans og slapandi limaburð hins svívirta manns sem að vísu var farinn að klæða mig ágætlega. tími til kominn að snúa aftur til síns fyrri vana og horfa stoltur og upplitsdjarfur í augu samborgara sinna. nú stend ég teinréttur og fráneygur á lærðri grund og leyfi hlýjum gusti æðri mennta að leika um ljósa lokka mína. með hendur á mjöðm og hökuna í himinátt rugga ég mér mér í lendunum, kyrjandi minnisvísur og ættjarðarljóð á minni römmu móðurtungu.

-- Skreif Gulli kl.13:13 -- 0 Komment


fimmtudagur, október 20, 2005
ég var þá ekki í hærri metorðum en það, hjá íslenzkum akademíkerum. álit lærdómselítunnar á stúdent Guðlaugi var ekki meira en svo að þeir trúðu því véfangslaust að ég hefði vísvitandi reynt að svíkjast undan mínum skyldum. trúðu því að það hefði verið ætlun mín frá upphafi að sitja á skólabekk og njóta allra forréttinda háskólanemans án þess að greiða túskilding fyrir. traust þeirra á mér var þá ekki meira en það. hefði einhver þessarra háu herra gefið sér nokkrar sekúndur til að efast, hefði þetta aldrei gerst. hefði einhver hikað í litla stund og leift sér að draga ályktanir út frá reynslunni hefðu þær líklega orðið eitthvað á þessa leið: "hmm.. Guðlaugur hefur hingað til borgað sín gjöld á tilsettum tíma. hví skyldi hann ekki gera það nú? ætli hann hafi brugðið út af vananum, gerst óábyrgur og þjófóttur? gert skyssu? eða skyldi skyssan e.t.v. liggja okkar megin, í gloppóttu skrifræðiskerfi þessarar mölétnu stofnunar?". það skyldi þó ekki vera?
álit þeirra á mér var víst ekki meira en það. með vandlætingarsvip þurrkuðu þeir mig út af lista háskólanema og skrúfuðu fyrir aðgang minn að uglunni og öllum fróðleikshafsjó háskólanetsins.
Öll þau mín æfiár sem ég hef helgað þessari stofnun, hvers virði voru þau? hvers virði var það traust og sú þrælslundaða undirgefni sem ég hefi sýnt háskólanum í vilja og verki?
einskis virði krakkar, og mér var sparkað af menntaveginum eins og svindlara með hormottu.

-- Skreif Gulli kl.12:34 -- 0 Komment


þriðjudagur, október 18, 2005
ég þarf að hætta að drekka þetta viðbjóðslega vinnustaðakaffi svo ég geti farið að njóta þess að drekka kaffi utan vinnu

-- Skreif Gulli kl.16:30 -- 0 Komment


mánudagur, október 17, 2005
núna rétt áðan laut ég í lægra haldi í glímunni við hina áleitnu mánudagsþreytu og gaf mig lokkandi svefnbrögðum hennar á vald. en ég gáði ekki að því að svefninum fylgja draumar og á vígvelli draumanna stendur andinn berskjaldaður fyrir ásóknum myrkrahöfðingjans. dýrkeypt yfirsjón, er ég hræddur um. mig dreymdi nefnilega að ég væri að gera einhverskonar kaupsamning á netinu. ekki man ég um hvað kaupin snérust en minnir að það hafi eitthvað tengst persónuleika mínum og geðheilsu. um leið og ég ýtti á OK hnappinn til að staðfesta þessa vafasömu sölu fór allt að hringsnúast fyrir augunum á mér og ég vaknaði með ámátlegri stunu, liggjandi í kuðli á skrifstofustólnum. í svefnrofunum var ég þess fullviss að djöfulleg öfl hefðu vélað mig til að selja sál mína fyrir skít og kanil.

-- Skreif Gulli kl.15:56 -- 0 Komment


alltaf gaman þegar maður gleymir að vista vinnuna sína í marga klukkutíma og týnir öllu því sem maður hefur unnið yfir daginn. helvíti fokkíng hressandi. sérstaklega þegar svo ólíklega vill til að maður rekur fótinn í snúru undir borðinu og togar þannig óvart lyklaborðið úr höndunum á sér þannig að það rekst í kaffibolla og kaffi sullast yfir takkana og veldur skammhlaupi sem af tilviljun lokar forritinu sem maður var að vinna í og maður hefur af óskiljanlegum ástæðum ekki asnast til að ýta einusinni á save allan helvítis daginn.

hver kannast ekki við það sosum...

-- Skreif Gulli kl.13:20 -- 0 Komment


föstudagur, október 14, 2005
æææ, ég á í mestu erfiðleikum með að klára núðlurnar mínar, sterkustu núðlur sem ég hef á ævinni smakkað. mig svíður í varirnar og er kominn með heiftarlegt nefrennsli, svo svitna ég allur og skelf eins og fangi í Abu Ghraib, og það inni í minni hlýju og þægilegu skrifstofu hér á Skúlagötunni.

föstudagur í dag og ég hef ekki hugmynd hvað skuli gera af því tilefni. Þormóður ráðlagði mér að hvíla mig og safna orku fyrir laugardaginn. þá á víst að vera nóg að gerast; afmælisdagurinn hans Þorra og útgáfutónleikar Jeff Who og gleðiefni af öllum sortum.

en nú verð ég að fá mér dísætt kaffi til að slá á kverkasviðann

-- Skreif Gulli kl.13:43 -- 0 Komment


fimmtudagur, október 13, 2005
ég svaf voðalega lítið í nótt. bylti mér mestan hluta nætur, hvorki vakandi né sofandi og í þau skipti sem ég festi svefn dreymdi mig Adolf Hitler og rofin meyjarhöft, vaknaði því sífellt með andfælum eða síkhælum og hélt svo áfram þar sem frá var horfið í byltum og hálfsvefni. ég var náttúrulega ógó þreyttur þegar ég vaknaði í morgun og bölvaði örlögum mínum, Hitler heitnum og pakkinu á Brunamálastofnun. hagl hraut úr svefnþrútnum augum mínum.

en hvað um það. þreytan rjátlaðist af mér með morgninum og hér er ég staddur á vinnustofu minni, raulandi lítinn lagstúf um forboðnar ástir og sanna vináttu. lag og texti eftir sjálfan mig.

bara lítil dæmisaga um það hvernig vandamálin leysast stundum að sjálfu sér.
takk og bless

-- Skreif Gulli kl.11:52 -- 0 Komment


miðvikudagur, október 12, 2005
þetta fær maður fyrir að gúgla nafninu sínu.

-- Skreif Gulli kl.18:05 -- 0 Komment


mánudagur, október 10, 2005
jæja. kominn mánudagur og ekki úr vegi að drita niður einni þurrlegri upptalningu á því sem ég aðhafðist um helgina. það verður engin skemmtilesning, get ég sagt ykkur.

ég missti af októberfest á föstudaginn en vann upp þann missi með stífri drykkju á laugardagskveldið þegar ég mætti ölóður í afmælisveislu þriggja frænda minna. þetta var merkileg veisla fyrir þær sakir að áfengið gekk aldrei til þurrðar, nóg var eftir af rauðvíni og vodka þegar ég kútveltist út úr húsinu og niður í bæ, flissandi eins og hálfviti í óútskýranlegri gleðivímu.
morguninn eftir var einsog gleðin hefði snúist upp í andhverfu sína og hlunkað sér yfir mig af ólýsanlegum þunga. ég hélt því til í rúmi mínu lungann úr deginum í góðum félagsskap Þorbjargar sem þjáðist af áþekkum kvilla. það er reyndar hún sem á rúmið, ekki ég. rétt skal vera rétt.
klukkan fimm fór ég svo í bíó á síðustu sýningu kvikmyndahátíðarinnar. leynisýningu sem kom í ljós að var myndin Africa United, íslenskt mockumentary í hæsta gæðaflokki.
Eftir myndina var sýningargestum boðið til veislu í Landsbankahúsinu. voru þar matur og drykkur einsog menn gátu í sig látið, hljómsveit og risavaxnir verðir sem gnæfðu gleiðfættir yfir gráðugum veislugestunum með þennan hörkulega svip sem einkennir alla verði, hvort sem þeir eru lögreglu-, dyra- eða lífverðir. það er fyrirlitningargrettan, því allir verðir fyrirlíta annað fólk og eiða öllum sínum vökustundum í örvæntingafulla leit að löglegri afsökun til að fá að berja á náunganum.
ég lauk helginni með því að horfa á myndina Punch-Drunk Love með Adam Sandler og Emily Watson, mynd sem kom mér aldeilis skemmtilega á óvart. einhver hafði nefnilega sagt mér að hún væri leiðinleg. hver var það eiginlega? það hlýtur að hafa verið einhver viðbjóðslegur lygari eða smekklaus rola.
ég mæli með Punch-Drunk Love.

-- Skreif Gulli kl.14:00 -- 0 Komment


fimmtudagur, október 06, 2005
mannanafnanefnd ákvað í dag að gefa grænt ljós á nafnskrípið Eleonóra og í framhaldi af því sögðu allir í nefndinni starfi sínu lausu og hentu sér svo æpandi út um glugga mannanafnaskrifstofu sem til allrar hamingju er staðsett á jarðhæð.
frá þessu var sagt í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu í dag, að vísu í óskreyttri og minna spennandi útgáfu, en þrátt fyrir það fangaði fréttin athygli kollega minna sem hristu þungbrýnd höfuð sín og fussuðu svo að brauðmylsnum rigndi yfir eldhúsborð Brunamálastofnunar. þetta er ekki nafn! hrópaði einn. allt leyfa þeir nú, þessir andskotar, muldraði annar. og svo er hérna opnuviðtal við þessa Eleonóru! hann benti kræklóttum fingri á viðtal sem Þormóður frændi minn tók við Eleanor Friedberg, söngkonu amerísku hljómsveitarinnar Fiery Furnaces, sem að sjálfsögðu kemur þessu máli ekkert við.
ég ákvað að þegja og beina athyglinni að sudoku-þraut Fréttablaðsins.

-- Skreif Gulli kl.14:30 -- 0 Komment


miðvikudagur, október 05, 2005
fölleit októbersólin varpar bláhvítri birtu yfir blauta Snorrabrautina. ferskan haustilm leggur að vitum mér inn um opinn glugga á lítilli skrifstofu. ég þarf að klára nokkrar blaðsíður til viðbótar áður en ég fer í skólann en einbeitingin loðir enhvernveginn ekki við mig. jú, nú sökkvi ég mér í þetta. klukkutími til viðbótar og svo dríf ég mig vestureftir.

þegar heltaka mig einbeitingarskortur eða þreyta finn ég mig stundum knúinn til að vafra ofurlítið um internetið. læt ég þá brimrót alheimsvefsins bera mig strönd af strönd, krækju af krækju þar mig rekur að landi á einhverri hnittinni bloggsíðu, skemmtilegu vefmyndasafni eða jafnvel fallegri klámsíðu.

hér er áhugaverð færsla úr blogginu hans Hauks sem ég fann á einni af mínum ferðum um veraldarvefinn. Haukur þessi er vinur Óskars nokkurs Guðlaugssonar. muniði ekki eftir honum? ég og Hugleikur heimsóttum stundum Hauk þegar við lékum okkur við Óskar, hérna í denn. Haukur og Óskar hafa líka föndrað saman þessa skemmtilegu netsíðu.

-- Skreif Gulli kl.11:10 -- 0 Komment


þriðjudagur, október 04, 2005
rakst á gamla klarinett kennarann minn á AA fundi um daginn. hún var þá nýbúin að missa annan handlegginn upp við öxl. það var vinnuslys, sagði hún mér og vildi ekki ræða það frekar.
undarlegt vinnuslys það, hugsaði ég, að missa höndina við tónlistarkennslu. líklegra að hún hafi gloprað henni fyrir klaufaskap á fylleríi.

-- Skreif Gulli kl.10:34 -- 0 Komment