Gundlungur bloggar heiminn
miðvikudagur, nóvember 23, 2005
undarleg röð tilviljanna olli því að ég villtist inn á zorro 2 í smárabíói klukkan 22:40 í gærkvöldi. tveir og hálfur klukkutími að lengd var sú mynd og fjallaði um yfirburði hinnar frjálsu ameríku yfir öfundsjúkum evrópuþjóðum. mexíkóinn zorró representaði hina amerísku þjóð en evrópa var holdgerð í smeðjulegum frakka sem hataðist við ameríkana, einstaklingsfrelsi og lýðræði. sá hlaut að sjálfsögðu makleg málagjöld í sögulok og ég stóð mig að því að skríkja eins og smástelpa af því tilefni. ekki það að mér sé eitthvað illa við evrópubúa og þaðan að síður við frakka. þessi maður var bara þvílíkt fúlmenni að ég gat ekki annað en glaðst yfir dauða hans.
algjör drullusokkur.

-- Skreif Gulli kl.18:40 -- 1 Komment


föstudagur, nóvember 18, 2005
Steinn ætlaði að koma til landsins í dag. alla leið frá bandaríkjum norður-ameríku. ætli hann sé kominn, litli engillinn? óskasteinninn hans Gulla síns. mikið hlakka ég til að hitta strákinn. þá ætla ég að kýla hann í öxlina og hann kannski tekur mig í hálstak og svo hlæjum við saman og kveikjum okkur í sígarettu. hann réttir mér volgan fríhafnarbjór og segir mér frá veiðiferðum og fylleríunum í Brooklin. ég hlusta og hræki á stéttina. hlæ. dáist. elska.

-- Skreif Gulli kl.15:30 -- 0 Komment


þriðjudagur, nóvember 15, 2005
undanfarna sunnudaga hef ég verið að æfa nokkur lög með nýrri hljómsveit. ég held hún heiti hjálparsveitin. hana skipa ég, Þorri, Þrándur og einhver Snorri sem ég kann engin frekari skil á, nema að þetta er kall á fimmtugsaldri með skegg og hann spilar á trommur. kannski var hann ágætur trommari einhverntíma í fyrndinni en í dag er hann ófær um að samræma hreyfingar handa og fóta. afleitur trymbill alveg. svo má ekki gleyma aðalnúmeri hljómsveitarinnar, honum Árna Hjartarsyni, pabba mínum. hann stofnaði bandið og hann semur öll lögin. við erum í raun bara strengjabrúður hans, verkfæri fyrir karlinn svo hann geti fengið útrás fyrir sína endalausu atorku og sköpunarþörf. ég held nú samt að allir hafi gaman af prójektinu. við fórum meira að segja í stúdíó í gær og tókum upp nokkur lög. ekki amalegur árangur það. pabbi ætlar nefnilega að gefa út plötu í tilefni þess að hljómsveitin er að verða þriggja vikna gömul. hálfgerð flippplata heyrist mér nú samt og svona til að bæta á flippið munum við senda eitt lag í evróvisjón. algjör grínari hann pabbi.
einusinni setti hann uppþottalög yfir allt stofuparketið og sat svo í sófanum og hló þegar ég og mamma komum heim og runnum á hausinn. svo þegar ég kom í heimsókn um daginn var hann búinn að hella fullt af skyri í rúmið hans Eldjárns og kveikja í öllum skólabókunum mínum. það fannst honum geðveikt fyndið.

-- Skreif Gulli kl.12:02 -- 0 Komment


föstudagur, nóvember 11, 2005
hér er vísa sem ég samdi til Þormóðs frænda míns í tilefni af 25ára afmæli hans. það var í október.

Þó tíminn geri unga fólkið ellhrumt og ljótt
og nýjan dag á glugganum að niðadimmri nótt
þá hugðu ekki, Þormóður, að hryðjuverkum hans
því Bakkus hefur silkitær og býður þér í dans
í árdeginu rukkar hann svo uppsett gleðigjöld
Ætli einhver hreppi þig í kvöld?

Lundarþel þitt, Þormóður, er létt sem blikuský
og haustgrímunnar stjörnur spila himneskt sinfóní
er svífur þú um Þingholtin í svörtum leðurskóm
hlæjandi með sjálfum þér í blíðum tenórróm
og óseðjandi svamlar þú í ungmeyjanna fjöld
Ein af þeim mun njóta þín í kvöld

Tónlistin úr hjarta þínu er töfrandi og ljúf
bumbusláttur kitlandi og bassalína hrjúf
og lagsmíð þessi, Þormóður, er lykill flagarans
að tálarboði stúlkunnar og tárum unnustans
Aldrei munu holdið hemja æðri máttarvöld
Hver verður sú heppna í kvöld?

-- Skreif Gulli kl.14:44 -- 0 Komment


föstudagur, nóvember 04, 2005
ég var yfirnáttúrulega þreyttur þegar ég vaknaði í morgun og ég skil ekki alveg af hverju. ætli það sé járnskortur? neeeiii, þú ert ekki kona á blæðingum Guðlaugur. þú ert hraustur karlmaður og þú þarft engin vítamín eða steinefni. slíkt sull er einungis fyrir aumingja og kellingar á túr. samt sem áður var ég fáránlega þreyttur. svo var ég eins og úldin tuska þegar ég kom upp í skóla, svefnþrútinn og með nefrennsli og rámur eins og kallinn sem talar fyrir Lækjarbrekkuauglýsingarnar -sem ég held að sé pabbi hans Ella í Jeff Who? en hvað um það. sifjinn lúrði á mér eins og persneskur köttur fram eftir morgni og Eiríkur Rögnvaldsson ýtti gleraugunum hærra á nefið og ræskti sig meðan dramatískar þagnir lögðu áherslu á orð hans. ég sat í fyrstu bísperrtur, starblíndi á kennarann og þóttist hlusta en brátt lagðist sljóvginn eins og myrkur yfir skilningarvitin. staðreyndirnar snéru sér á haus og dönsuðu um í bylgjandi skynvillu minnar óvirku athygli. ég rétti upp höndina og ætlaði að segja eitthvað gáfulegt en áttaði mig á því að stofan var tóm. ég var orðinn seinn í vinnuna. þegar ég kom á Skothúsveg sá ég að Þingholtin voru horfin undir jökul sem náði yfir hálfa ísilagða tjörnina. ég hætti mér út á ísinn á hjólinu mínu en hann brast og ég sökk ofan í hyldjúpt tjarnarvatnið og drukknaði þar.


-- Skreif Gulli kl.16:27 -- 0 Komment


fimmtudagur, nóvember 03, 2005
æ, já. á ég ekki bara að setja Joy Division á fóninn? þeir eru svo huggulegir eitthvað. Jakobínarína spilar í Stúdentakjallaranum í kvöld og ég er að spá í að kíkja. hvenær byrja þeir eiginlega? ég er ekki búinn í fimleikum fyrr en tíu. djöfull, hvað mig langar í bjór. ég verð aldrei kominn á kjallarann fyrr en hálf ellefu í fyrsta lagi. selurinn hefur mannsaugu og í mýrinni er þessi tjörn. þessi andskotans tjörn, og ég er ekki laus fyrr en tíu og mig langar alveg rosalega í bjór.
þeir eru bara börn. fimmtán ára pattar. varla að þeir fari að spila mjög seint.
er það nokkuð?

helvíti. ég get bara gleymt þessu.

-- Skreif Gulli kl.13:57 -- 0 Komment