Gundlungur bloggar heiminn
laugardagur, febrúar 25, 2006
á sunnudaginn vaknaði ég með duglega timburmenn og svarthol í stað minninga frá gærkveldinu. mig fýsti að vita hvað tímanum leið en varð þá starsýnt á beran úlnliðinn á sjálfum mér og áttaði mig á því eftir nokkurt gón að úrið mitt var horfið. "ég hef týnt því á Sirkús, þeirri skítugu syndaknæpu," æpti ég og steytti hnefa í átt til himins, "takmörkuð vitneskja á gangi tímans mun bitna á stundvísi minni og skipulagshæfileikum!".

og það var eins og við manninn mælt; tíminn sem fram að þessu hafði verið mér hliðhollur félagi í leik og starfi var skyndilega orðinn að óstýrlátu barni.
og ég á sífelldum þönum.

á hverjum morgni gegnum svefninn - klukkan hálf átta, stundvíslega - heyri ég týnda úrið pípa einhverstaðar í herberginu.
ætli það sé bergmál liðinna tíma?

-- Skreif Gulli kl.12:05 -- 0 Komment


fimmtudagur, febrúar 23, 2006
þá er ég hér staddur, í Árnagarði, skítblankur með koffínskjálfta og bölva almættinu fyrir þær kvaðir sem það hefur á mig lagt. hvernig á ég að geta lært þegar ég á ekki fyrir húsaleigu eða mat í magann? hvernig get ég unnið fyrir mér þegar ég þarf að læra allan daginn?
mín eina von er að auðugt gáfumenni álpist inn á þessa síðu og beri skyn á gáfur mínar og ritfærni. bjóði mér síðan starf sem skáld við hirð sína gegn rausnarlegu gjaldi og skylirðislausri vináttu. það er gott að eiga ríka vini.
en þetta er víst óskhyggja. gleðisneiddur veruleikinn hefur kennt mér að næra sálina á draumórum, rétt eins og neiðin nöktu konunni að spinna.
ungur steig ég mín fyrstu feilspor í öngstræti kulnaðra vona og síðan þá hef ég oftsinnis sopið bragðdaufan hversdagsgráma Reykvíkingsins úr stropuðu eggi. það mun víst enginn uppgötva mig gegnum þessa síðu, enda fátítt að menn detti fram á ritvöllinn um þetta endaþarmsop skáldskapargyðjunnar sem bloggvettvangurinn er. þar að auki þurfa hirðskáld að vera bæði hagmælt og pródúktív. og ég er hvorugt.

eiginlega dauskammast ég mín fyrir að hafa látið mér detta þetta í hug og ég bið örlögin innilega afsökunar á tilætlunarseminni.

-- Skreif Gulli kl.13:02 -- 0 Komment


Jújú, þetta var hún Blythe Duff sem lék lögreglukonuna knáu, Jackie, í Taggartþáttunum sívinsælu. Efalaust könnuðust margir við andlitið, enda hafa Taggart og félagar verið tíðir gestir á skjánum undanfarin.. hvað.. tuttugu ár?
Að vanda var Hjörtur fyrstur til svara og að vanda lofa ég honum gulli og grænum skógum fyrir ómakið.
Að vanda eru það orðin tóm

Að standa vörð um sinn hag er þagmælskunnar sélundaður vani
en tæplega var það bandítaháttur að lenda kveðjunni
á ísilagðan vangann?

-- Skreif Gulli kl.11:22 -- 0 Komment


þriðjudagur, febrúar 14, 2006
þannig fór um sjóferð þá. brunamálabókin farin í prentun og guðlaugur búinn með allar prófarkir og umbrot, mættur í skólann með litla tösku á bakinu og eplakinnar. nú er bara að rumpa af einu stykki B.A. verkefni og svo get ég farið að gera önnur plön.
ný plön um nýtt líf.

kannist þið við þessa konu? hvað heitir hún?

-- Skreif Gulli kl.10:16 -- 0 Komment


þriðjudagur, febrúar 07, 2006
þær eru stuttar, bloggfærslurnar mínar þessa dagana. stuttar og sneiddar allri fágun, orðskrúð og stílíseringu, enda hef ég ekki tíma fyrir slíkt dútl. ég þarf að koma bók í prentun, og það engri smáskruddu; 1500 blaðsíðna doðranti -námsbók fyrir verðandi slökkviliðsmenn- og klári ég það ekki í vikunni sitja íslendingar uppi með ólesið og vanhæft slökkvilið næstu árin. þið hljótið að sjá að ég get ekki sóað tímanum í ómerkilegt skraf á bloggið. mín vinna varðar öryggi þjóðarinnar!

en getraunin er akút. ný þannig.

-- Skreif Gulli kl.14:54 -- 0 Komment


fimmtudagur, febrúar 02, 2006
jájá. þið fáið öll ykkar verðlaun. fyrr eða síðar.

hey, úr hvaða mynd er þetta:
þú munt fá þína umbun.. þína eilífu umbun!

ég verð nú að hrósa þér Hjörtur. þú ert gáfaður. djöfull ertu skarpur. ég býð þér í mat. þér og Jóhönnu. þið eruð svo skemmtileg og upplýst..

annars er kominn ný mynd. hver er þetta og úr hvaða mynd er kvótið hér að ofan?
ís í verðlaun. ís með dýfu og sprittkerti.

-- Skreif Gulli kl.00:08 -- 0 Komment


miðvikudagur, febrúar 01, 2006
eitthvað segir mér að David E. Kelley sé svolítill Star-Trek nörd

Þormóður hafði rangt fyrir sér. þetta er sko ALLS EKKI Renny Harlin, sá aumi þrjótur.

vísbending:
maðurinn á myndinni leikstýrði árið 1999 mynd byggðri á bók eftir bandarískan rithöfund sem er af frönskum og rússneskum ættum en heitir úkraínsku nafni.

hmm..

-- Skreif Gulli kl.11:00 -- 0 Komment