þriðjudagur, október 31, 2006
það er kalt í Árnagarði. kalt og nöturlegt. ég sit í tölvuverinu, einn, og náhvítur skjábjarminn nístir augun. frostið lekur inn um rifaða glugga og sleikir á mér tærnar. mig langar heim á Njálsgötuna í hlýjuna. þar get ég líka lært undir glaðlegri tónlist, kveikt á kertum og hitað mér kaffi í expressó könnu.
hvað í andskotanum er ég að gera hér?
mánudagur, október 30, 2006
ég sit á bókhlöðunni og fletti í fræðiritum með uppgerðar-spekingssvip. öðru hvoru lít ég upp úr skruddunum og sendi heimskingjunum á næstu borðum yfirlætisfullar augngotur. mér finnst ég gáfaður og merkilegur og ég fyrirlít fólkið í kringum mig.
enda er ég fræðimaður.
mánudagur, október 16, 2006
ó, jú. aftur og enn tókst Hirti frænda mínum að sigra í hinni erfiðu blogggetraun. í þetta sinn var hann svo snöggur að fæstum hafði gefist ráðrúm til að átta sig á spurningunni þegar rétt svar barst frá honum inn á kommenterinn. sumir vissu jafnvel ekki að hér væri nokkur getraun í gangi, og ég veit fyrir víst að til er fólk sem hefur aldrei heyrt af þessari bloggsíðu, hvað þá meira.. hefur jafnvel aldrei séð tölvu eða komist í snertingu við nokkuð sem kalla má manngerða vöru.
aldrei lifað.
en Hjörtur vann og hlýtur að launum ást og virðingu frænda síns og eiganda þessa bloggs, sem að vísu hefur ávallt bæði elskað hann og virt. þannig má halda því fram að líf hans taki í raun engum breytingum í kjölfar sigursins.
en það kemur ekki að sök.
mig grunar nefnilega að Hjörtur hafi fengið nóg af minni ást og virðingu gegnum tíðina. jafnvel meira en nóg. eiginlega held ég að hann hafi fyrir löngu fengið sig fullsaddan af mér og minni tilfinningasemi; af minni vonleysis-frændrómantík, eins og hann kallar það.
en hefur hann fengið nóg af því að fá nóg, hlýt ég þá að spyrja. skyldi hann nokkurntíma hafa fengið nóg af nægjunni sjálfri? ég leyfi mér að efast um það, enda trúi ég ekki að efnisheimurinn búi yfir því magni sem þarf til að fullnægja svo sérhverri nægjuþörf nokkurs manns að hann vilji aldrei fá nóg af nokkru aftur.
hvað þá hugheimurinn.
miðvikudagur, október 04, 2006
á klístruðum brúnum hlandskálanna í Árnagarði hanga skapahár í hundraðavís, nýdottin af hreðjum hinna bjartsýnu menntamanna sem fljóta þar um ganga einsog maurar í búi. að kveldi bera þessar skálar sýnilegust merki um eril liðins dags og eftir því sem nemendum fjölgar verða þær loðnari um barmana.
ég er viss um að með örfáum vísindalegum athugunum og útreikningum megi finna samsvörun milli fjölda nemenda í Árnagarði hvern dag og samanlagðs fjölda skapahára á hlandskálabrúnunum að kveldi.
ég læt einhverjum öðrum eftir að kanna það. sjálfur er ég upptekin við nám.
mánudagur, október 02, 2006
Pétur Már Gunnarsson, fúlskeggjaður elskhugi Þórunnar frænku minnar, keypti um daginn páfagaukshjón í búri og hafði hjá sér í vinnustofu sinni. þessir hamingjusömu og söngelsku fuglar fengu að flögra frjálsir um plássið og Pétur fann að þeir léttu honum lundina sem þó var ekki þung fyrir. þannig liðu nokkrar áreynslulausar vikur, fuglarnir sungu og settust á Pésa sem klóraði sér í skegginu og dæsti glaðlega, enda var hann frjórri og framkvæmdaglaðari en nokkru sinni fyrr.
Pétur er listamaður.
svo var það einn daginn að páfagauksfrúin skreppur út fyrir hússins dyr og kemur ekki heim allan þann dag og ekki næstu daga og er týnd allt fram á þessa stund. karlfuglinn varð við þetta mjög sorgmæddur og húkir nú einn heima í búri sínu og hvorki flýgur né syngur.
og Pétri verður ekkert úr verki.
en fyrir stuttu, þegar Pétur á leið um Njálsgötuna heyrir hann kunnuglegan söng úr garðinum á Njálsgötu 3 (þar sem ég bý og hvar ég er staddur nú, ekki úti í garði heldur inni í íbúð á miðhæðinni). Pétur hleypur á hljóðið og sér þá páfagauksfrúna sitjandi hátt uppi í tré, syngjandi hástöfum í von um svar frá maka sínum sem á þeirri stundu grét hljóðum tárum í kjallarholu skammt frá.
svo flaug hún í burtu og Pési fann hana ekki aftur.
svo sagði Obba mér í gær að um daginn hefði páfagaukur komið á gluggann hjá vinkonu hennar á Sölvhólsgötu og tíst ámátlega. þá hristi ég höfuðið og lagðist í bólið.