mánudagur, nóvember 27, 2006
Ég er staddur í kjallara Sörlaskjóls númer 6, í lítilli herbergiskytru sem forðum var mitt einkaafdrep en hýsir í dag gamlar barna- og ljóðabækur í þúsundavís, skrifborð og lítinn trékoll. Hingað kom ég fyrir rúmri viku, skipti um fyrir-löngu-sprungið öryggi og gerði við bilað perustæði, hækkaði í ofnum og stakk fartölvu í rykfallna innstungu. Þvínæst tyllti ég mér á kollinn, bar fingur að lyklaborðinu og hóf að hugsa af þvílíkum fítónskrafti að augu mín flóðu í tárum og tennurnar hrukku úr gómnum. Í næsta nágrenni tóku hundar að góla. Börn orguðu og húsmæður signdu sig. Fullorðnir karlmenn fórnuðu höndum, bölvuðu og hræktu og í skattholum heldri manna skrölti júdasargullið svo nísti syndugar sálir þeirra.
Síðan skall á með stormi. Í rúma viku geysaði þessi stormur, ýmist fyrir utan gluggann eða inni í mér og nú er ég staddur í kjallaranum á Sörlaskjóli og fingurnir vofa yfir lyklaborðinu. Augun flóða í tárum.
Úti góla hundar.
fimmtudagur, nóvember 02, 2006
beint á móti mér á bókhlöðunni situr strákur með þykk gleraugu og heyrnatól. það fer ekki framhjá neinum sem hér situr að hann er að hlusta á brúðarmarsinn, á hæsta styrk.
kannski ætlar hann að biðja um hönd bestu vinkonu sinnar á eftir og er að koma sér í fílínginn.
'þú hefur stuðning minn, félagi', langar mig að segja og klappa honum á öxlina, en það myndi líklega slá hann út af laginu. ég held hann hafi mjög viðkvæma sál og ég er næstum viss um að hann sé einbirni, þó þetta tvennt þurfi alls ekki að fara saman.
þvert á móti.