þriðjudagur, desember 19, 2006
ég datt ofaní tölvuleikjaþráhyggju í síðustu viku og var af þeim sökum óvinnufær í nokkra daga. gamlir RTS og RPG leikir villtu mig og trylltu og fylltu mig spilltum hugsunum. klæddu mig næstum úr buxunum (berháttuðu mig a.m.k. andlega).
þeir dróu mig svo djúpt niður í lastabrunn leti og framtaksleysis að styrkur viljans rétt nægði til að hífa mig upp úr þeim freistingapytti, seint og um síðir.
Fallout, sá klassíski gullmoli, loðir enn við huga minn eins og geislavirk þoka; eftirstríðs kjarnorkuþoka sem eitrar fyrir hverri heilbrigðri fræðimanns hugsun.
nú sit ég sveittur og fullur sjálfsfyrirlitningar við tölvuna og reyni eftir fremsta megni að bæta upp fyrir þessa syndsamlegu hegðan.
steingrá þögn bókhlöðunnar hvíslast um vitin
tíminn hleður klukkustundum á æfi minnar valta turn