Gundlungur bloggar heiminn
miðvikudagur, apríl 18, 2007
hey, ég á afmæli á morgun!

..en þar sem ég er á kafi í ritgerðarskrifum þykist ég ekki hafa tíma til að undirbúa veislu. hinsvegar geta þeir sem vilja kíkt í heimsókn til mín í kvöld, um níu leitið. allir gestir fá gin í tónik og góðan félagsskap. svo gætum við kíkt á barinn og skálað fyrir afmælisbarninu á miðnætti

-- Skreif Gulli kl.18:49 -- 4 Komment


mánudagur, apríl 16, 2007
ég vaknaði í morgun með höfuðið þungt af kvefpest. ég fann fyrir örlitlum hita og beinverkjum en sólin skein svo fagurlega inn um gluggann minn að ég ákvað samt sem áður að ganga á bókhlöðuna.

það kom á daginn að hlýtt morgunskinið í stofunni var aðeins tálmynd af varma sem ekki var til staðar hinu megin glerrúðunnar.

húfu og trefilslaus anaði ég út í frostið og höfuð mitt var stórum þyngra þegar ég kom á bókasafnið, blautur af svita og um leið skjálfandi af kulda, með sultardropa niður á höku.

ég þarf að flytja sem fyrst í gluggalaust hús.

-- Skreif Gulli kl.18:33 -- 2 Komment


föstudagur, apríl 13, 2007
þar sem ég sit á bókhlöðunni og skrifa finn ég hvernig ókunn kvefpest læðir sér yfir mig. hún grípur um höfuð mér og rótar í hárinu eins og kynóður kvenmaður, tekur mig kverkataki, hristir sig og hlær.

ég sýg upp í nefnið og hnerra, úfinn um hár og þrútinn um augu

-- Skreif Gulli kl.17:53 -- 0 Komment


fimmtudagur, apríl 12, 2007
Aldrei skal ég setjast, sagði maðurinn og skeit standandi

Þessi stutta frásögn er í senn skemmtilegt máltæki og falleg saga af einbeittum viljastyrk söguhetjunnar ónafngreindu sem fórnar ærunni til að standa við stóru orðin.

Ég lærði hana af Hugleiki frænda mínum, en hann smjattar glaðhlakkalega á þessum orðum í hvert skipti sem honum þykir viðhorf mín bera vott um þvermóðsku eða ofmetnað. Ég slæ þá venjulega á lær mér og rek upp hláturroku en snarþagna svo, horfi í gaupnir mér og roðna af skömm. Ég átta mig á því að þótt örlög mannsins í sögunni séu vissulega spaugileg eru þau um leið þverhausum eins og mér víti til varnaðar og bakvið skrítluna leynast mórölsk skilaboð; ádeila á mína persónu; mín sjónarmið. Ég er í raun að hlægja að sjálfum mér og hugsanlegum afleiðingum viðhorfa minna. Hlægja að minni eigin heimsku.

Þannig leikur hann sér að mér, hann Hugleikur, eins og illmenni að ómálga barni. Strýkur mér fyrst um vangann en hrækir svo framan í mig.
Ó, hve ég óska þess að jörðin gleypi hann og öll hans skyldmenni.

-- Skreif Gulli kl.11:55 -- 0 Komment


miðvikudagur, apríl 11, 2007
síðustu mánuði vann ég sem verktaki og verktakaskyldurnar tóku mig kverkataki. hafa þær síðan hert á mér takið, beygt á mér bakið og mygið í lakið mitt (það var ekki ég!).

sá Guðlaugur sem vaknaði bísperrtur í morgunsárið kengbognaði um síðir undan þunga skyldunnar. dagurinn í dag hefur svo til allur farið í rafrænt staðgreiðslurugl, reiknað endurgjaldskjaftæði og persónuafsláttarfíaskó og ég hef brunað á milli Skattstofunnar á Tryggvagötu, Skattstjórans á Laugarvegi og Fjársýslunnar á Sölvhólsgötu oftar en ég kæri mig um að nefna.

morgundagurinn fer að öllum líkindum í að fá pláss á verkstæði fyrir bílinn svo hann komist gegnum skoðun, að því gefnu að hægt sé að gera hann skoðunarhæfan.

eftir mánuð þarf ég svo að skila af mér fullkláruðu BA-verkefni sem ég sé ekki fram á að fá nokkurt vit í fyrir þann tíma miðað við vinnuhraðann hingað til.

látið ykkur ekki bregða þó það verði lítið um að vera á þessari síðu næstu daga

-- Skreif Gulli kl.14:46 -- 2 Komment


þriðjudagur, apríl 03, 2007
og pósturinn gengur í gulum jakka,
með grænan hálsklút og í rauðum frakka
og ansar þegar ég spyr hvort hann eigi krakka:
jú, eitt barn á dag, brúnt á litinn!

þarna náði skáldskapur Megasar sínum hæstu hæðum, sagði pabbi þegar þessar línur náðu eyrum okkar og við flugum um öræfi landsins á skínandi Wolksvagen. Blindgötudiskurinn í botni í nýja geislaspilaranum. það vottaði fyrir kaldhæðnislegri fyrirlitningu í röddinni. pabbi er ekki hrifinn af kúka-húmor og hefur til dæmis margsinnis tjáð mér þá skoðun sína að textinn við Stuðmannalagið 'út í veður og vind' skemmi annars ágæta melódíu.

samt sem áður er Megas í miklu uppáhaldi hjá honum, sem verður að teljast skrítið með tilliti til áðurnefndrar andúðar hans á þeirri tegund húmors sem ég vil kalla eitt aðaleinkenni texta Megasar.

-- Skreif Gulli kl.20:29 -- 4 Komment