fimmtudagur, maí 17, 2007
jæja, þá er maður sestur að í lítilli herbergiskytru á Sörlaskjólinu, staðráðinn í að færa sig ekki spönn frá rassi fyrr en eitt stykki BA verkefni hrekkur fullklárað út úr prentaranum.
fyrst ég er farinn að blogga langar mig til að biðjast afsökunar á þessu ósmekklega ljóði í síðustu færslu. færslan sú er skrifuð klukkan að verða sjö á föstudegi eftir langa vinnuviku, og skemmst frá því að segja að á slíkum stundum virðist allt fyndið. ég sé það auðvitað núna að þessi kveðskapur er alls ekkert sniðugur og ég dauðskammast mín. ég get lofað ykkur því að á þessari stundu er ég að húðskamma sjálfan mig, ekki upphátt að vísu - slíkt gerir enginn heilvita maður - heldur í hljóði, svo að einungis ég sjálfur heyri skammirnar. bölvaður fábjálfi getur þú verið Guðlaugur, bergmálar inni í mér, að henda gaman að heilunarmætti tímans! hve oft hafa ekki læknandi hendur hans hjálpað þér á fætur, þegar þú kiknaðir undan harmaþunga hversdagsins?
svona þruma ég yfir hausamótunum á sjálfum mér þar til ég fæ kökk í hálsinn og fer að kjökra, einn inni í herbergi á Sörlaskjólinu.
af titrandi vörum
hljóðvana andvörp
stíga til himins
í augunum
þegjandi vonleysi
dauðvona barns
föstudagur, maí 11, 2007
lítil hugleiðing um heilunarmátt tímansþeir segja að tíminn
lækni öll mein
en kuntan er sár
sem aldrei grær
fimmtudagur, maí 10, 2007
ég er ekki frá því að mig hafi dreymt fyrir dagförum í nótt, eða ölluheldur í morgun, því eftirfarandi draumur ásótti mig milli þess sem ég þjösnaðist bölvandi á snústakkanum um níuleytið:
ég var staddur á bensínstöð og hafði nýlokið við að dæla á bílinn minn fyrir andvirði 699 króna. en sem ég ætlaði að borga bensíntittinum sló klukkan tíu að kveldi og titturinn tjáði mér þá að bensínlítrinn hækkaði í verði eftir tíu og vildi rukka mig um meira en ég taldi mig skulda. ég þurfti að beita allri minni mælsku og rökviti til að útskýra fyrir tittinum að ég myndi að sjálfsögðu einungis greiða það verð sem í gildi var þegar bensíninu var dælt á bílinn. titturinn var bæði skilningssljór og þver en gaf sig þó að lokum og ég komst hjá því að láta féfletta mig á þennan svívirðilega hátt.
en auðvitað var þetta bara draumur (meira að segja nauðaómerkilegur draumur) og í draumum gildir einu hvort maður borgi meira eða minna fyrir bensínlítrann. fjárstyrkur minn næstu nótt verður í engu samhengi við eyðslu fyrri nótta. það veit ég að fenginni reynslu.
en ég hélt því fram að mig hefði dreymt fyrir dagförum, var það ekki? jú jú, mikið rétt. ég vaknaði sumsé með bros á vör yfir sigrinum í draumalandinu og fór að gera mig til fyrir daginn. þegar ég hafði klætt mig í föt, burstað tennurnar og borðað morgunmat rifjaðist það upp fyrir mér að bíllinn var í stöðumælastæði (ég er með bílinn hans Steins frænda í láni á meðan hann er í útlöndum). þetta var klukkan rétt rúmlega tíu svo ég rýk út og ek bílnum úr stöðumælastæðinu. legg honum fyrir framan húsið mitt í staðinn, en ekki þó löglega því lögleg stæði er hvergi að finna á daginn. síðan hendist ég inn í íbúð, treð nokkrum bókum ofan í tösku mína og beint aftur út í bíl. en þá er skyndilega komin
feit sekt á rúðuna. ég verð náttúrulega alveg brjálaður (sbr. eldri reiðifærslur vegna stöðumælasekta), finn blóðið rjúka upp í andlitið og æðarnar springa í augunum. gnístandi tönnum af reiði stekk ég út á götuhorn og kem auga á stöðumælavarðarhelvítið; lágvaxna, luralega kerlingu á þrítugsaldri með vörtu á kinninni. hún snýr í mig baki og á sér einskis ills von. ég geng að henni ákveðnum skrefum og banka þéttingsfast á öxlina á henni. þegar hún snýr sér við rétti ég henni sektina, dreg andann djúpt og hendi mér svo á hnén. ég hangi eins og ósjálfbjarga barn í stöðumælaúlpufaldinum og sárbæni hana með ekkasogum að miskunna sér yfir fátækum námsmanni sem hvorki á í sig né á. rétt ræður við að eiga íbúð í miðbænum, fartölvu, þráðlaust net, reka bíl og fara reglulega á barinn.
kerlingin var bæði skilningssljó og þver en gaf sig þó að lokum og ég komst hjá því að láta féfletta mig á þennan svívirðilega hátt.
(ath. klifun)
glöggir og þolinmóðir lesendur hafa vonandi áttað sig á því að líkindin með draumnum og veruleikanum sem fylgdi í kjölfarið eru of mikil til að hægt sé að skrifa þau á reikning tilviljunar. hér getur því einungis verið um að ræða dulda spádómshæfileika yðar einlægs ellegar einhverskonar dómsdags forboða. hvorugt kann góðri lukku að stýra.
góðar stundir.
fimmtudagur, maí 03, 2007
ja hérna hér. hvur í skrattanum er nú þetta?