föstudagur, júní 29, 2007
norðankulið varð loks að hlýrri golu. sólin kom undan skýjunum og kerfill og skriðsóley hertóku fallega garðinn á Njálsgötu 3. á sama tíma hreiðraði Guðlaugur um sig í loftlausri kennslustofu í Árnagarði, lygndi aftur augunum og strauk sveittum fingrum yfir skítugt lyklaborð. hugsaði mannlegu samfélagi þegjandi þörfina fyrir að skikka hann til sálarslítandi verka meðan endurnar á tjörninni átu brauð úr höndum hlæjandi barna.
hef ég þá gengið hann til góðs, þennan einbreiða menntaveg, þegar handan hans bíða aðeins eymdarstundir yfir illa skrifuðum texta?
lífsgleðin handan glerrúðunnar óaðgengileg mínum líkum.
fimmtudagur, júní 07, 2007
heyrðu, það gengur bara helvíti vel. mér tókst að klára ritgerðina mína og skila henni af mér. það er orðið nokkuð langt síðan, að vísu. sirka þrjár vikur. en mér hlýnar um hjartarætur við að rifja það upp. hvernig ég slengdi út hnausþykkum doðrantinum og smokraði honum inn um þrönga rifu prófdómarans, eitt vorkvöld í Árnagarði. sko, rifuna á hólfinu hans. prófdómarinn sjálfur hefur enga rifu eftir því sem ég best veit, enda karlmaður frá toppi til táar, held ég alveg örugglega, og ég veit ekki til þess að nokkur efist neitt um það. langt í frá. frábær gaur alveg. ekki svo að skilja að ég hafi einhvern óeðlilegan áhuga á honum. þetta er bara gáfaður karl. fræðimaður.