Gundlungur bloggar heiminn
föstudagur, október 26, 2007
ég vaknaði með einhver helvítis óþægindi í tönninni á aðfaranótt þriðjudags. þessi helvítis óþægindi urðu svo að seiðandi verk þegar leið á daginn og að kveldi að nístandi sársauka. engum matarbita kom ég niður þennan dag og um nóttina leið ég þvílíkar vítiskvalir að ég sá mér ekki annað fært en bruna á bráðamóttöku Landspítalans og gráta þar yfir þreytulega konu í grænum slopp. Tvær stórar parkódín forte fékk ég fyrir ómakið, auk lyfseðils sem gerði lítið gagn því ekkert apótek er opið eftir miðnætti hér á þessu guðsvolaða skeri sem ég vona að sökkvi senn í sæ. pillurnar gleypti ég, grátklökkur af þakklæti í garð þreyttu konunnar í græna sloppnum, og lagðist svo killiflatur í rúmið mitt og klemmdi aftur augun. heimurinn bakvið augnlokin tók á sig undarlegar myndir og í þrjá klukkutíma lagðist yfir mig þægilegur doði. bros færðist yfir sveittar varirnar. en þegar skynheimurinn fór aftur að líkjast sjálfum sér guðaði fröken tannpína á gluggann og ég var í viðþolsleysi mínu tilneyddur að rista djöfulleg tákn á upphandleggi og bringu í fálmkenndri tilraun til að halda geðheilsunni. með þessu móti tókst mér að þrauka fram til kl.7:45, en þá stökk ég inn í bíl og ók rakleiðis á fund míns nýja tannlæknis sem beið ekki boðanna heldur greip töng í hönd og reif úr mér tönnina í einni svipan. rótarsýking, sagði hann þurrlega og þerraði blóð og gröft af andlitinu með gömlum tóbaksklút; út frá lélegri rótfyllingu. ég fleygði mér í fang hans og þakkaði honum greiðviknina, daðureygður. fór að því búnu heim til mín og lagðist í sótt. lá veikur og þrútinn í bælinu allan þennan dag og líktist svolítið Brandoin Lee í hlutverki guðföðursins geðþekka, þ.e. sú hlið andlitsins sem nú var bólgin eftir tanndráttinn. beinverkir og magakveisa bættust þvínæst í hóp kvillanna og ég gerðist þungbrýnn og bitur í skapi og skammaði Þorbjörgu meðan hún bar á mig græðandi smyrsl eða las yfir mér bænir. á fimmtudagskvöldið yfirgaf hún mig svo, sóttin (ekki spúsan, til allrar hamingju), og ég spratt alheill og hlæjandi upp úr stofusófanum og Þorbjörg brast í grát því hún hélt ég væri með óráði.

og hér er ég. mættur aftur á þjóðarbókhlöðuna, heill heilsu, en skulda svo marga vinnutíma að ég tárast ef ég hugsa til þess (og þá sé ég ekki á tölvuskjáinn og get ekki unnið).

hugsa minna, vinna meira.

-- Skreif Gulli kl.10:54 -- 5 Komment


mánudagur, október 22, 2007
hvað var að sjá? þar sem ég stóð fyrir framan spegilinn í morgun og dáðist að eigin fríðleik var eins og glitraði á tár, rétt neðan við hægra augað. ég hélt um stund að harmaþungi heimsins hefði undið það úr vitum mínum í nótt, en til allrar hamingju reyndist það vera silfurlitt glitkorn, efalaust úr fórum spúsu minnar. ég sópaði því burt með sigggrónum fingurgómi og strauk mér um svera kjálkana. sírena vældi ofan af lögreglubíl í fjarska.

-- Skreif Gulli kl.14:46 -- 0 Komment


miðvikudagur, október 17, 2007
ég hef engu gleymt þó að ég tali ekki um það, vælir Pálmi Gunnarsson á undan og á eftir hverju myndskeiði á mbl.is, mér til ómældrar ánægju. lagið er svo skemmtilegt að ég hef aldrei veitt því athygli hvað verið er að auglýsa, enda skiptir það ekki máli. ekkert skiptir mig máli framar. fyrir mér er hin líðandi stund aðeins fánýtt hjóm; deyjandi glóð þess báls sem eitt sinn brann í funheitum, dansandi logum og himnarnir sungu:

svo hvar er sakleysið, ég spyr.
hví varstu' ekki kyrr?

-- Skreif Gulli kl.15:22 -- 0 Komment