það er dauðaþögn í tölvustofunni í Árnagarði, enda sitja þar einungis tvær hræður að mér meðtöldum. hér hef ég á síðustu mínútum með pínlegum hætti uppgötvað hönnunargalla á umbúðum MS skyrdrykkja: úr þeim er ekki hægt að drekka án þess að mynda örlítið frethljóð með vörunum, sem þó er vel greinanlegt í þögulli tölvustofu.
ja svei. aldrei fann ég fyrir nokkurri löngun til að blogga þessa vinnuvikuna og allt í einu er kominn föstudagur og fráleitt að nokkur gefi sér tíma til að líta inn á þessa síðu yfir helgina. nema kannski Tóti. hann verður á næturvöktum og hefur því fátt annað að gera en ráfa um netið eins og vofa að nóttu.
en ég nenni ekkert að skrifa og bendi þess í stað á skemmtilega grein á Wikipedia um morðið í rauðu hlöðunni, en það er ágætis lesning, eflaust skárri en það sem ég hefði skrifað hér, hefði ég skrifað eitthvað, þ.e. eitthvað annað en þetta mjálm um það sem ekki var skrifað.
þegar þetta er skrifað vantar aðeins eina heimsókn upp á að 32þúsund manns hafi heimsótt þetta blogg. það er kannski ekki mikið ef miðað er við aðrar bloggsíður, en helvíti góður árangur, þykir mér, sé tekið tillit til þess að ég er bæði leiðinlegur og vinafár, orðljótur, fámáll og illa skrifandi.
á þessum tímamótum langar mig til að benda aðdáendum mínum á þessa fallegu boli sem hægt er að kaupa fyrir slikk. ágóðinn held ég að renni óskiptur til þýskra tölvuþrjóta og áhugamanna um holræsi þar í landi (gulli þýðir víst ræsi á þýsku).
að lokum er hér örlítil gáta fyrir þá sem hafa gaman af slíku: maðurinn á myndinni er svolítið eins og smeðjuleg útgáfa af leikaranum geðþekka David Duchovny sem allir ættu að þekkja, en hver er maðurinn?