Gundlungur bloggar heiminn
miðvikudagur, janúar 23, 2008
hér á bókhlöðunni stendur nú yfir svokölluð ljósmynda- og gjörningasýning sem ber heitið För hersins. af því tilefni standa nú fyrir utan kaffistofuna þrír hvítir strigar og í nafni listarinnar er fólki gert að tjá á þá skoðun sína á hvarfi bandaríkjahers frá íslandsströndum. þetta hafa margir gert og þótt viðbúið sé að skoðanir manna séu misgáfulegar er því ekki að sælda hér; þær eru allar nokkurnveginn jafnvitlausar. með einni undantekningu þó. núna áðan gerði ég mér nefnilega ferð á kaffistofuna og varð þá litið á unga stúlku sem hafði tekið sér pensil í hönd og var að enda við að skrifa stórum svörtum stöfum á einn strigann: GOD IS A DC. þetta þykir mér áhugaverð kenning. eins og allir vita stendur skammstöfunin D.C. fyrir leikjatölvuna DreamCast frá Sega sem kom út á sama tíma og hin vinsæla Nintendo 64 (sem n.b. er viðbjóðslegt drasl). sú tölva (þ.e. N64) varð reyndar langtum vinsælli og Sega DremaCast beið afhroð í baráttunni á leikjatölvumarkaði. þeir hjá Sega hættu allri leikjatölvuframleiðslu eftir það skítlega tap. við sjáum því að ef eitthvert sannleikskorn er í staðhæfingu ungu stúlkunnar þá er ljóst að mannskepnan ráfar enn þann sama villuveg og forðum daga, þegar hún krossfesti frelsara sinn en frelsaði þrjótinn Barabbas, holdgerving mannvonsku og ódáða.

-- Skreif Gulli kl.15:36 -- 0 Komment


þriðjudagur, janúar 15, 2008
Sparísjóðurinn splæsti í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu í gær til að auglýsa nýjan reikning með mánaðarlegri útgreiðslu vaxta. síðuna þakti skælbrosandi andlit laglegrar stúlku og fyrir neðan það stóð skírum stöfum: ég hlakka til þess mánaðarlega.

auglýsendur hafa lengi stundað þá íþrótt að smíða tvíbentar setningar, en ég velti því fyrir mér hvort tvíræðnin hér sé með vilja gerð og hvort fyrirsætan hafi áttað sig á gamaninu sem nú er hægt að gera á hennar kostnað.

-- Skreif Gulli kl.12:53 -- 3 Komment